Frá matmálstíma í Heiðarskóla.
Ríkiskaup, fyrir hönd Reykjanesbæjar, óska eftir tilboðum í framleiðslu og framreiðslu á skólamat fyrir grunnskóla Reykjanesbæjar. Tilboðsfrestur er til 26. apríl 2017.
Verkið felst í því að framleiða matinn og afhenda á tilteknum tíma og framreiða ásamt samantekt (uppvask) og frágangi að máltíð lokinni ásamt því að farga úrgangi sem til fellur vegna verksins. Ganga skal út frá því að viðhöfð sé sjálfsskömmtun, þar sem börnin eru vön því frá leikskóla. Einnig er óskað eftir tilboðum í síðdegishressingu fyrir nemendur í frístundaskóla.
Markmið með rekstri mötuneyta í grunnskólum Reykjanesbæjar er að bjóða upp á heilsusamlegan og fjölbreyttan matseðil sem fylgir ráðleggingum um mataræði og næringargildi sem finna má í handbók Lýðheilsustöðvar um skólamötuneyti (4. útg. 2010). Bjóðandi skal gera ráð fyrir að þurfa að bjóða upp á sérfæði fyrir nemendur sem af heilsufarslegum ástæðum gætu þurft á slíku sérfæði að halda, svo sem vegna ofnæmis eða efnaskiptasjúkdóma. Einnig fyrir nemendur sem af trúarlegum ástæðum þurfa á sérfæði að halda.
Grunnskólarnir eru:
• Akurskóli
• Háaleitisskóli
• Heiðarskóli
• Holtaskóli
• Myllubakkaskóli
• Njarðvíkurskóli