Horft yfir Reykjanesbæ frá Stapa.
Öll framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu II hafa verið felld úr gildi, að því er fram kom í fréttum RÚV í gær. Óvíst er því hvenær hægt verður að hefjast handa við lagningu línunnar, en hana átti að leggja við hlið Suðurnesjalínu I. Reykjanesbær hafði veitt framkvæmdaleyfi fyrir línuna.
Héraðsdómur Reykjaness hafði fellt úr gildi framkvæmdaleyfi sem sveitarfélagið Vogar hafði gefið Landsneti þar sem láðist að setja framkvæmdaáætlun í umhverfismat. Það var staðfest í Hæstarétti í febrúar sl. Á grunni þess úrskurðar felldi Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamál úr gildi framkvæmdaleyfi sem Reykjanesbær, Grindavík og Hafnarfjarðarbær höfðu veitt fyrir línuna.
„Að mati Hæstaréttar var ekki fjallað nægilega vel um jarðstrengi í umhverfismati Landsnet. Skipulagsstofnun hefði átt að gera athugasemdir við slíkt en gerði ekki. Því var bæði umhverfismatsskýrsla og álit Skipulagsstofunar ekki lögmætur grundvöllur fyrir veitingu framkvæmdaleyfis,“ segir í fréttinni.
Óvíst er því hvenær Suðurnesjalína II verður lögð, en að sögn Steinunnar Þorsteinsdóttur upplýsingafulltrúa Landsnet, er þörfin fyrir línuna enn til staðar.
Áður hafði Hæstiréttur fellt úr gildi ákvörðun Orkustofnunar frá 5. desember 2013 að veita Landsneti hf. leyfi til að reisa og reka Suðurnesjalínu 2 og snéri þar með við héraðsdómi frá 21. október 2015.