Svona er umhorfs í Ráðhúskaffi.
Langþráð kaffihús opnar í hjarta Reykjanesbæjar í dag. Opnun kaffihússins er lokaáfanginn í þeim breytingum og endurbótum sem Ráðhús Reykjanesbæjar hefur nú undirgengist. Kaffihúsið er staðsett á besta stað í Ráðhúsinu, Tjarnargötu 12, þar sem einnig er bókasafnið og þjónustuver.
Rekstur kaffihússins er í höndum Angelu Marinu sem upphaflega kemur frá Portúgal en hefur búið í Reykjanesbæ síðan 1998 þar sem hún hefur starfað á leikskólanum Hjallatúni og í Fríhöfninni. Hún er þó langt frá því að vera ókunn veitingarekstri en hún rak ásamt móður sinni kaffihús í Portúgal í 17 ár og er hún full tilhlökkunar að takast á við kaffihúsarekstur í Reykjanesbæ.
Á boðstólum verður gæða kaffi frá Kaffitár og allir mögulegir kaffidrykkir sem bæði er hægt að drekka á staðnum eða taka með sér. Þá verður margt girnilegt á matseðlinum svo sem súpur, pasta, salat, smurt brauð og auðvitað sætabrauð.
Nú er um að gera að hverfa á vit ævintýranna í Ráðhúsinu, næla sér í góða bók eða blað í bókasafninu og tylla sér niður með gæðakaffi og með því og njóta lífsins. Hljómar vel, ekki satt?
Kaffihúsið verður opið á opnunartíma bókasafnsins frá kl. 09.00 – 19.00 alla virka daga.