Ársreikningur Reykjanesbæjar 2015 sýnir betri rekstrarniðurstöðu bæjarsjóðs og samstæðu en gert var ráð fyrir. Ársreikningurinn var síðasta mál á dagskrá bæjarstjórnar í gær og fór til fyrri umræðu, að viðstöddum fjölda bæjarbúa. Bæjarfulltrúar sem ræddu ársreikninginn voru ánægðir með viðsnúninginn sem verið hefur í rekstri bæjarins, þó fjármagnsliðir, aðallega gjöld af skammtíma- og langtímaskuldum, séu að íþyngja rekstrinum. Tekist hefur að minnka skuldaviðmið A og B hluta Reykjanesbæjar um úr 232,67% í 228,23%.
Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri fylgdi ársreikningi úr hlaði með greinargerð, sem birtist í heild sinni hér að neðan. Kjartan sagði margt sögulegt koma fram í reikningnum og útkomu vera betri í mörgum töluliðum en verið hefur. Í ársreikningi kemur fram að íbúum Reykjanesbæjar fjölgaði um 2,07% á milli áranna 2014 og 2015, sem hefur skilað sér í auknum skatttekjum. Það helgast ekki síst af hærra atvinnustigi, hærri launum og hærri útsvarsprósentu. Þá skilaði bæjarsjóður jákvæðu veltufé frá rekstri fyrir afskriftir og fjármagnsliði um 1.042,3 milljónir króna.
Kjartan þakkaði starfsfólki fjármálasviðs fyrir vinnu við ársreikning 2014 en þetta er í fyrsta sinn sem ársreikningur Reykjanesbæjar er alfarið unninn af starfsmönnum bæjarins. „Það er ánægjulegt að við skulum búa yfir svo öflugu starfsfólki sem raun ber vitni,“ sagði Kjartan Már í inngangi að ársreikningi 2014.
Ársreikningur 2014 fer til síðari umræðu í bæjarstjórn 3. maí 2016.
Greinargerð
„Ársreikningur Reykjanesbæjar 2015 hefur verið lagður fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn Reykjanesbæjar.
Samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi fyrir A og B hluta Reykjanesbæjar námu rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu 2015 17.510,8 milljónum króna. Rekstrartekjur bæjarsjóðs A-hluta námu 11.012,9 milljónum króna. Laun og launatengd gjöld sveitarfélagsins námu um 5.996,2 milljónum króna fyrir samstæðu A og B hluta . Laun og launatengd gjöld A-hluta bæjarsjóðs námu 5.068,6 milljónum króna. Meðaltal stöðugilda samstæðu A og B hluta var 939 og meðaltal stöðugilda A-hluta 840.
Veltufé frá rekstri A-hluta bæjarsjóðs fyrir afskriftir og fjármagnsliði var jákvætt um 1.042,3 milljónir króna en að teknu tilliti til afskrifta og fjármagnsliða er rekstrarniðurstaða neikvæð um 193,5 milljónir króna. Veltufé frá rekstri samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi A og B hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 3.429,6 milljónum króna en að teknu tilliti til þeirra liða var niðurstaðan neikvæð um 455,4 milljónir króna.
Skuldaviðmið samstæðu A og B hluta er 228,23% og hefur lækkað úr 232,67% frá árinu 2014. Skuldaviðmið A-hluta bæjarsjóðs er 191,23% og hefur lækkað úr 228,09% frá árinu 2014.
Íbúafjöldi Reykjanesbæjar í lok árs 2015 var 15.233 og fjölgaði um tæp 2,07% frá fyrra ári.
Samkvæmt verkefnaáætlun bæjarstjórnar, sem gengur undir nafninu Sóknin, átti að auka veltufé frá rekstri A hluta bæjarsjóðs um 900 milljónir króna. Í ársreikningi 2015 er veltufé frá rekstri A hluta 1.042,3 milljónir króna eða 9,46%. Jafnframt átti að draga úr fjárfestingum skv. Sókninni og í ársreikningi 2015 eru fjárfestingar 179,5 milljónir króna og lækka úr 718,2 milljónir króna frá árinu 2014. Liður þrjú í Sókninni fjallaði um sölu eigna og endurskipulagningu skulda og liður 4 um að stöðva fjárflæði frá A-hluta bæjarsjóðs yfir í fyrirtæki í B-hluta s.s. Reykjaneshöfn og Fasteignir Reykjanesbæjar. Því til viðbótar hefur sveitarfélagið um langt skeið átt í viðræðum við kröfuhafa um mögulega lækkun skulda.
Bæjarsjóður (A-hluti):
Bæjarsjóður, sem sinnir öllum almennum rekstri bæjarins, skilar jákvæðu veltufé frá rekstri fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) um 1.042,3 milljónir króna, sem er um 9,46% af tekjum. Eftir afskriftir er veltufé frá rekstri um 652,4 milljónir króna eða um 5,9% af tekjum. Eftir fjármagnsliði, reikningshaldslegar afskriftar og óvenjulega liði er rekstrarniðurstaða neikvæð um 193,5 milljónir króna en viðaukaáætlun gerði ráð fyrir 415,5 milljóna króna rekstrarhalla á bæjarsjóði.
Eignir bæjarsjóðs eru bókfærðar á 25.333 milljónir króna. Þar af eru veltufjármunir 1.829,2 milljónir króna. Skuldir bæjarsjóðs með lífeyrisskuldbindingum og leiguskuldbindingum eru 22.774,5 milljónir króna, þar af eru skammtímaskuldir 2.088,8 milljónir króna.
Vaxtaberandi langtímaskuldir A-hluta bæjarsjóðs við lánastofnanir eru 2.165,5 milljónir króna, fjármagnstekjuskattur er um 176 milljónir króna og heildar leiguskuldbindingar eru um 14.244,3 milljónir króna.
Í sjóðsstreymi sést að hreint veltufé frá rekstri er 1.139,2 milljónir króna en handbært fé frá rekstri er neikvætt um 39 milljónir króna.
Veltufjárhlutfall er 0,88 og hækkar úr 0,39 frá árinu 2014.
Bókfært eigið fé hjá A-hluta bæjarsjóðs er 2.558,4 milljónir króna. Eiginfjárhlutfall bæjarsjóðs hækkar á milli ára úr 8,32% í 10,10%.
Skuldaviðmið er 191,23% og skuldahlutfall er 206,8%
Samstæða (A og B hluti):
Samstæða A og B-hluta skilar jákvæðu veltufé frá rekstri fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) um 3.429,6 milljónir króna sem er um 19,59% af tekjum. Eftir afskriftir er jákvætt veltufé frá rekstri um 2.276,1 milljónir króna sem er um 13% af tekjum. Eftir fjármagnsliði, reikningshaldslegar afskriftar og óvenjulega liði er rekstrarniðurstaða neikvæð um 455,4 milljónir króna en viðaukaáætlun gerði ráð fyrir 507,8 milljóna króna hallarekstri á samstæðu.
Eignir samstæðu eru bókfærðar á 50.112 milljónir króna, þar af eru veltufjármunir 5.869 milljónir króna. Skuldir samstæðu með lífeyrisskuldbindingum og leiguskuldbindingum eru 43.639,9 milljónir króna, þar af eru skammtímaskuldir 5.489,9 milljónir króna.
Vaxtaberandi langtímaskuldir samstæðu við lánastofnanir eru 17.592,9 milljónir króna, fjármagnstekjuskattur er um 176 milljónir króna og heildar leiguskuldbindingar eru um 13.949 milljónir króna.
Í sjóðsstreymi sést að hreint veltufé frá rekstri er 2.763,4 milljónir króna. Handbært fé frá rekstri er 2.456,4 milljónir króna.
Veltufjárhlutfall er 1,07 og lækkar úr 1,12 frá árinu 2014.
Bókfært eigið fé hjá samstæðu með hlutdeild minnihluta er 6.472,1 milljónir króna. Eiginfjárhlutfall samstæðu lækkar á milli ára úr 15,33% 12,92%.
Skuldaviðmið samstæðu er 228,23% og skuldahlutfall er 249,22%."
Hér er tengill í ársreikning Reykjanesbæjar 2015.