Föstudaginn 14. apríl síðastliðinn skrifuðu Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar og Einar Hannesson framkvæmdastjóri Sólar ehf. undir þjónustusamning vegna ræstingar á samtals 12 leikskólum og stofnunum Reykjanesbæjar. Tilboð Sólar ehf. var metið hagstæðast í útboði sem fram fór fyrr á árinu. Samningurinn gildir í fjögur ár með möguleika á framlengingu um allt að tvö ár. Sólar ehf. mun hefjast handa við framkvæmd samningsins frá og með 1. júní 2023.
Sólar hefur síðastliðin 20 ár þjónustað viðskiptavini sína, þar á meðal leikskóla og stofnanir þegar kemur að almennum þrifum og sérþrifum. Hjá fyrirtækinu starfa um 450 starfsmenn en frá upphafi hefur starfsmannastefna verið byggð á jákvæðri endurgjöf, virðingu og góðum starfsanda. Sólar er leiðandi í umhverfisvernd og voru fyrst ræstingafyrirtækja hér á landi til að fá leyfi til að nota Svaninn, norræna umhverfismerkið. Sólar hefur 10 ár í röð verið í hópi Framúrskarandi fyrirtækja Creditinfo.