Sprotasjóður styrkir tvö verkefni

Sprotasjóður styrkir tvö verkefni í skólum Reykjanesbæjar

Verkefnin Vörðum leiðina og Dauð viðvörun: Skólaslit 2 hlutu samtals styrki að upphæð 8.000.000 úr Sprotasjóði.

Verkefnið Vörðum leiðina fær 5 milljón króna styrk úr Sprotasjóði.

Um er að ræða framhald á samstarfsverkefni þriggja sveitarfélaga, þ.e. Reykjanesbæjar, Árborgar og Hafnarfjarðar. Auk þess munu Miðja máls og læsis og Menntamálastofnun koma inn í samstarfið.

Markmið verkefnisins er að móta vegvísi fyrir kennara um það hvernig best sé að vinna með niðurstöður úr Stöðumatinu við gerð kennsluáætlana og við skipulag kennslu í íslensku sem öðru máli og annars námslegs stuðnings við nemendur af erlendum uppruna. Einnig verður unnið að leiðbeinandi grunni að kennsluáætlunum í öðrum námsgreinum fyrir yngsta stig, miðstig og unglingastig/framhaldsskóla.

Áhersla verður lögð á markvissa orðaforðakennslu í þremur orðaforðaþrepum, þ.e. grunnorðaforða, millilagsorðaforða og sértæks orðaforða námsgreina. Unnið verður að gerð orðaforðanámsskráa sem taka annars vegar mið af aldri nemenda og hins vegar hæfni í íslensku skv. nýjum ÍSAT hæfnirömmum í aðalnámsskrá grunnskóla. Loks verður lögð áhersla á að vinna með fyrri þekkingu nemenda, reynslu, hæfni og styrkleika og fleira sem fram kemur í niðurstöðum Stöðumatsins.

Í Reykjanesbæ taka Háaleitisskóli og Fjölbrautaskóli Suðurnesja þátt í verkefninu. Stýrihópur Stöðumatsins skipuleggur fagfundi sem fara fram á haustönn 2022.

Fulltrúar Reykjanesbæjar í stýrihópnum eru þau Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir verkefnastjóri ÍSAT og Stöðumats, Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs og Kolfinna Njálsdóttir deildarstjóri skólaþjónustu.

 

Verkefnið RAUÐ VIÐVÖRUN: SKÓLASLIT 2 fær 3 milljóna króna styrk úr Sprotasjóði

Um er að ræða samstarfsverkefni grunnskóla og kennsluráðgjafa í Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ og Vogum ásamt félagsmiðstöðinni Fjörheimum og Bókasafni Reykjanesbæjar.

Um er að ræða læsisverkefni þar nemendur munu fá tækifæri til að lesa eða hlusta á einn kafla úr skáldsögu daglega, vinna með skapandi og fjölbreytt verkefni þar sem áhersla er lögð á hæfnina til að skilja og skynja á gagnrýninn hátt. Í nýrri Menntastefnu Reykjanesbæjar: Með opnum hug og gleði í hjarta kemur m.a. fram að læsi sé samheiti yfir marga færniþætti og endurspeglar hæfni til að skynja og skilja samfélagið og umhverfið á gagnrýninn hátt. Það er gríðarlegur áhugi fyrir verkefninu í okkar fjölbreytta og fjölmenningarlega skólasamfélagi og mikill áhugi og vilji til að fara óhefðbundnar og fjölbreyttar leiðir í vinnu með viðfangsefnið. Verkefnið byggir á sterkum grunni frá fyrra ári og þar af leiðandi sóknarfæri í að nálgast viðfangsefnið á nýstárlegan hátt.

Verkefnið hefur það að markmiði að efla gagnrýna hugsun, sköpun og skilning í gegnum nýstárleg og skapandi verkefni sem tengjast skáldsögu sem Ævar Þór Benediktsson rithöfundur mun skrifa sérstaklega fyrir þessa lestrarupplifun og er sjálfstætt framhald af SKÓLASLITUM frá haustinu 2021. Ari Yates mun myndskreyta söguna.

Áhersla verður á að nemendur fái tækifæri til að vinna merkingabær verkefni á skapandi hátt þannig að þeir efli hjá sér gagnrýna hugsun sem ýtir undir víðsýni og valdeflingu, virkni og lýðræðislega þátttöku í skólastarfi.

Verkefnið verður á opinni vefsíðu þar sem allir hafa aðgang þ.e. nemendur, foreldrar, kennarar og aðrir áhugasamir.

Verkefnahópur verður skipaður og munu allir grunnskólar Reykjanesbæjar, Suðurnesjabæjar og Voga, Fjörheima og Bókasafns Reykjanesbæjar eiga fulltrúa í honum ásamt kennsluráðgjöfum. Anna Hulda Einarsdóttir kennsluráðgjafi á fræðslusviði Reykjanesbæjar mun stýra verkefninu í samstarfi við kennsluráðgjafa og Ævar Þór.