Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar fyrir árið 2012 var samþykkt eftir síðari umræðu í bæjarstjórn 3. janúar 2012
Áætlunin gerir ráð fyrir að rekstrarafgangur fyrir afskriftir og fjármagnsliði verði um 525,1 m.kr. fyrir bæjarsjóð (A-hluta) og 2.499,5 m.kr. fyrir samstæðu.(A+B hluta).
Rekstrarafgangur bæjarsjóðs (A-hluta), að teknu tilliti til afskrifta og fjármagnsliða, verður um 230,1 m.kr.
Stærstu fyrirtæki og stofnanir sem falla undir B-hluta eru: Reykjaneshöfn, Fasteignir Reykjanesbæjar ehf., og HS Veitur hf. Þrátt fyrir góðan rekstrarhagnað fyrir fjármagnsliði er áfram gert ráð fyrir að mikill fjármagnskostnaður falli á Reykjaneshöfn og félagslegar fasteignir bæjarins og er því áætlað að halli samstæðu, að teknu tilliti til fjármagnsliða verði um 452,2 m.kr.
Eiginfjárhlutfall bæjarsjóðs hækkar og verður 25,21% og fyrir samstæðu 20,55%. Veltufjárhlutfall hækkar í 1,39 fyrir bæjarsjóð og í 1,62 fyrir samstæðu.
Veltufé frá rekstri er áætlað um 370 m.kr. fyrir bæjarsjóð og um 1,7 milljarðar kr. fyrir samstæðu.
Handbært fé frá rekstri fyrir bæjarsjóð er áætlað 110,6 m.kr. og fyrir samstæðu 1.654,2 m.kr.
Handbært fé bæjarsjóðs í árslok er áætlað 1.250,3 m.kr. og fyrir samstæðu 1.660,3 m.kr.
Eignir pr. íbúa eru áætlaðar 2.122 þús.kr. fyrir bæjarsjóð og 3.374 þús.kr fyrir samstæðu.
Skuldir pr. íbúa eru áætlaðar 1.587 þús.kr. fyrir bæjarsjóð og 2.680 fyrir samstæðu.
Útsvarsprósenta verður áfram 14,48%. Álagningarprósentur fasteignagjalda verða áfram óbreyttar.
Þjónustugjöld hækka að jafnaði eftir vísitölu.
Skólamáltíðir í áskrift verða kr. 275
Mánaðargjald á leikskóla (byggir á tímagjaldi) verður kr. 24.000
Matargjald til leikskólabarna verður kr. 7.480 á mánuði,
Umönnunargreiðslur verða kr. 25.000
Áfram verður frítt í sund fyrir börn á grunnskólaaldri, .
Áfram verða gjaldfrjálsar almenningssamgöngur og á safna- og listsýningar bæjarins.
Sá fyrirvari er gerður í fjárhagsáætlun að enn er ófrágengið uppgjör við Eignarhaldsfélagið Fasteign hf (EFF), sem er í eigu 10 sveitarfélaga og fjármálastofnana. Fyrir árið 2012 er þó gert ráð fyrir að allt viðhald og rekstur eigna í bænum sem tilheyra EFF sé komið á hendur Reykjanesbæ og er gert ráð fyrir þeim kostnaði í fjárhagsáætlun. Áhrif væntanlegra breytinga á efnahagsreikning eru þó ekki tekin inn í fjárhagsáætlun. Ráðgert er að sveitarfélögin ljúki samningum við EFF og bankastofnanir nú í janúarmánuði. Gert er ráð fyrir að settur verði viðauki við fjárhagsáætlunina skv. sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 63. grein, þegar úrlausn liggur fyrir.
Fræðslu- og uppeldismál eru sem fyrr langstærsti málaflokkurinn en útgjöld til fræðslumála nema 55% af heildarútgjöldum til allra málaflokka. Fjölskyldu- og félagsþjónusta er með 14%, íþrótta- og tómstundamál nema 10%, umhverfis-, umferðar- og skipulagsmál eru með 6%, menningarsvið er með 4% af heildarútgjöldum og brunamál og almannavarnir taka til sín 2%. Sameiginlegur kostnaður nemur 8% af heildarútgjöldum en undir þennan málaflokk falla nefndir og ráð, rekstur bæjarskrifstofa, tölvu og upplýsingamál fyrir allar stofnanir og aukaframlag í lífeyrissjóð. Inni í þessum málaflokki er einnig utanumhald um framlög til Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.