Fab Lab smiðja í Reykjavík
Áhugahópur um stafræna smiðju á Suðurnesjum hefur óskað eftir því að sveitarfélög, í samstarfi við hagsmunaaðila og ríki komi að stofnun stafrænnar smiðju á Suðurnesjum til að tryggja samkeppnishæfi svæðisins og efla nýsköpun.
Suðurnesin eru í dag eini landshlutinn á Íslandi sem ekki býður íbúum sínum aðgengi að slíkri smiðju. Fyrir hópunum hafa farið Bjarklind Sigurðardóttir verkefnastjóri menntanets Suðurnesja, Óskar Birgisson kennari í Háaleitisskóla, Hanna M. Kristjánsdóttir forstöðumaður Þekkingarseturs Suðurnesja og Dagný Maggýjar verkefnastjóri Heklunnar.
Í haust setti Samband Sveitarfélaga á Suðurnesjum á fót undirbúningshóp þar sem hagsmunaaðilar frá sveitarfélögunum á svæðinu bættust við verkefnið og situr Halldóra G. Jónsdóttir aðstoðarmaður bæjarstjóra í hópnum fyrir hönd Reykjanesbæjar.
Unnið er að því að safna stofnfé fyrir smiðjuna og finna henni hentugt húsnæði. Á dögunum var erindi sent á mennta- og barnamálaráðuneyti og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið auk sveitarfélaganna á Suðurnesjum þar sem óskað var eftir fjárframlagi til að stofna Fab Lab stafræna smiðju. Áætlaður stofnkostnaður smiðjunnar eru 20 m.kr. Bæjarráð Reykjanesbæjar tók erindið fyrir á fundi sínum þann 8. desember og samþykkti að taka þátt í verkefninu með fjárframlagi og hjálpa til við að finna hentugt húsnæði.
Stafrænar Fab Lab-smiðjur eru nýsköpunarsmiðjur sem veita notendum tækifæri til að hrinda hugmyndum í framkvæmd með því að hanna, móta og framleiða hluti með aðstoð stafrænnar tækni. Smiðjurnar gefa kost á skapandi námi og auka þekkingu og leikni nemenda, kennara, frumkvöðla og almennings. Stafrænar smiðjur styðja þannig við virka þátttöku og áhuga á verk- og tækninámi í grunn- og framhaldsskólum sem og bætt tæknilæsi.
Það verður gaman að fylgjast með verkefninu á næstu mánuðum og vonandi sjáum við einhvern vísi af stafrænni smiðju komna í gagnið fyrir lok árs 2023.