Hópurinn í Ráðhúströppunum.
Starfsfólk innan Fræðslusviðs Reykjanesbæjar fékk á dögunum góða heimsókn frá starfsfólki Ísaksskóla í Reykjavík. Mikil ánægja var með heimsóknina bæði af hendi gesta og gestgjafa.
Eftir að hópurinn hafði fengið góða kynningu á áherslum sviðsins frá Helga Arnarsyni sviðsstjóra Fræðslusviðs og kynningu á læsisstefnunni frá Kolfinnu Njálsdóttur deildarstjóra sérfræðiþjónustu voru þrír skólar í Reykjanesbæ heimsóttir. Í Tjarnarseli fékk hópurinn kynningu á kennsluaðferðum Orðaspjalls, þar sem orðaforði og hlustunarskilningur barna er efldur með bóklestri. Í Myllubakkaskóla var fjölþjóðaver skólans kynnt og hvernig lögð er áhersla á margbreytileika í starfinu. Þar er mesti fjöldi nemenda af erlendu bergi brotinn. Í Njarðvíkurskóla fékk hópurinn að fylgjast með starfsemi fjölgreindavals en það er þróunarverkefni í fjölbreyttum kennsluaðferðum.
Starfsmennirnir 38 úr Ísaksskóla kvöddu Reykjanesbæ með fullt af góðum hugmyndum og verkefnum í farteskinu og starfsfólk Reykjanesbæjar var reynslunni ríkara eftir heimsóknina.