Dagur leikskólans í leikskólunum í Reykjanesbæ, Sandgerði og Garði verður tileinkaður fjölgun karla í yngri barna kennslu. Þeir verða því sérstaklega boðnir velkomnir á OPIÐ HÚS sem leikskólarnir halda föstudaginn 5. febrúar milli kl. 9:00 og 11:00. Hvatningarverðlaunin Orðsporið verður í ár veitt þeim sem hefur eða hafa lagt sitt af mörkum við að fjölga körlum í leikskólum landsins.
Leikskólakennarastéttin er að langstærstum hluta kvennastétt og því liggur áherslan í að fjölga karlmönnum í stéttinni. Sem kunnugt er er Haraldur Freyr Gíslason leikskólakennari og tónlistarmaður formaður Félags leikskólakennara og því góð fyrirmynd fyrir unga menn sem vilja mennta sig í leikskólakennarafræðum. Í leikskólanum Gimli hafa í gegnum tíðina starfað dágóður hópur karla og verða þeir sem hafa verið og eru í starfi á Gimli í sérstakri móttöku á opna húsinu. Þá munu piltarnir upplýsa gesti um skólastarfið og svara spurningum þeirra sem heimsækja leikskólann Gimli.
Þetta er í 9. sinn sem haldið er upp á Dag leikskólans. Hvatt er til að starfsfólks og stjórnendur noti daginn til kynna það mikilvæga starf sem fram fer í leikskólum landsins. Þann 6. febrúar árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín en þar sem daginn ber upp á laugardag verður dagskrá dagsins færð fram um einn dag.
Hvatningarverðlaunin Orðspor verða veitt í fjórða sinn við hátíðlega athöfn í Bíó Paradís 5. febrúar kl. 13:30. Á sama tíma verða úrslit í samkeppni um besta tónlistarmyndbandið kynnt en þar var markmiðið að varpa ljósi á mikilvægi náms og starfs í leikskólum landsins.
Dagur leikskólans er samstarfsverkefni Félags leikskólakennara, Félags stjórnenda leikskóla, Mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra.
Meðfylgjandi myndir eru úr leikskólanum Gimli.