Stephen Lárus með leiðsögn í Listasafninu á laugardag

Frá listasafni.
Frá listasafni.

Laugardaginn 29. mars kl. 14.00 tekur á móti gestum, Stephen Lárus Stephen, annar tveggja manna sem bera nafnið Stefán og nú sýna í Listasafni Reykjanesbæjar. Þar mun hann fjalla um verk sín á sýningunni MANNLEGAR VÍDDIR sem opnuð var þann 15.mars sl. Leiðsögnin fer fram á ensku.

Bæði Stephen Lárus og Stefán Boulter hafa sérhæft sig í gerð mannamynda. Báðir eiga þeir erlenda feður og hafa sótt listmenntun sína til annarra landa, Stephen Lárus til Bretlands og Stefán til Noregs og Ítalíu. Að öðru leyti eru þeir afar ólíkir.

Stephen Lárus hefur getið sér gott orð fyrir portrettmyndir af ýmsum „opinberum“ Íslendingum. Málverk hans af Sólveigu Pétursdóttir, fyrrverandi Alþingismanni og forseta Alþingis, vakti nokkuð umtal þegar það var vígt fyrir tveimur árum; þetta málverk er að finna á sýningunni. Yfirlýst markmið Stephens er að koma á framfæri viðmóti fyrirsæta sinna, án þess að ganga of nærri einkalífi þeirra. Þarna er um að ræða jafnvægislist þar sem listmálarinn þarf að taka tillit til margra þátta, sjálfsvirðingar þeirra sem sitja fyrir, þjóðfélagsstöðu þeirra, og ekki síst þess hlutverks sem portrettmyndirnar eiga að gegna. Meðan á vinnuferlinu stendur er listmálarinn í stöðugu „viðræðusambandi“ við margar þekktustu mannamyndir listasögunnar; þær eru honum allt í senn áskorun, viðmið og hugmyndabanki. Hér gefst gullið tækifæri til að sjá saman komin mörg helstu portrett Stephens Lárusar hin síðari ár, en mörg þeirra hafa hvergi verið til sýnis opinberlega.

Á sýningunni er einnig að finna formyndir listamannanna að nokkrum sýndum verkum, allt frá frumdrögum til nákvæmra lokaútlistana. Sýningarstjóri er Aðalsteinn Ingólfsson.

Sýningin var opnuð þann 15. mars og stendur til 27. apríl 2014. Sjá nánar reykjanesbaer.is/listasafn

Sýningarsalur Listasafns Reykjanesbæjar er í Duushúsum, Duusgötu 2-8, 230 Reykjanesbæ.
Opið 12-17 virka daga og 13-17 um helgar. Aðgangur ókeypis.