Frá samkomunni í Duus Safnahúsum.
Ljósanótt var nú haldin í 16. sinn og að þessu sinni var lagt upp með nokkrar breytingar í huga. Ákveðið hafði verið að draga úr kostnaði bæjarfélagsins við hátíðina en höfða þess í stað með ákveðnari hætti til bæjarbúa og fyrirtækja með von um gott framlag, bæði í formi viðburða og fjármagns því svona hátíð er ekki gerð úr engu og gerist ekki af sjálfu sér!
Í fáum orðum sagt þá gengu óskir Ljósanefndar eftir, því bæjarbúar brugðust vel við og fjöldi nýrra viðburða sá dagsins ljós og mörg fyrirtæki lögðu verkefninu lið. S.l. föstudag var styrktar- og stuðningsaðilum Ljósanætur svo þakkaður stuðningurinn í formlegri móttöku í Duus Safnahúsum á sama tíma og menningarverðlaun bæjarins voru veitt.
Fram kom í máli bæjarstjóra, Kjartans Más Kjartanssonar, að virk þátttaka bæjarbúa sjálfra yrði meiri með hverju árinu sem liði og þeirra framlag ásamt fjárhagslegum styrktaraðilum gerði það að verkum að Ljósanótt væri orðin ein af helstu menningarhátíðum landsins. Helstu styrktaraðilar Ljósanætur í ár voru Landsbankinn, Íslandsbanki, HS Orka, Nettó, Norðurál og Skólamatur og voru þeim og öðrum bakhjörlum færðar bestu þakkir.
Þau leiðu mistök urðu að nafn dyggs stuðningsaðila, Rafverkstæðis IB, féll út af listanum og biðjumst við velvirðingar á því.