Frá framtíðarþingi sem haldið var á Nesvöllum sl. vor.
Stofnfundur U3A Suðurnes verður haldinn laugardaginn 16. september kl.14:00 í sal MSS, Krossmóum 4, Reykjanesbæ. Allir eru hjartanlega velkomnir. Nú þegar hafa á fjórða tug einstaklinga skrá sig sem stofnfélaga í deildinni en skráning mun halda áfram og standa út árið 2017. Í undirbúningshópi eru fulltrúar úr flestum sveitarfélögum á Suðurnesjum.
Undanfarið hefur starfshópur starfað að undirbúningi stofnunar Háskóla þriðja æviskeiðsins á Suðurnesjum, U3A Suðurnes. Hefur það verið gert með góðri leiðsögn frá U3A Reykjavík sem er hluti af alþjóðlegri hreyfingu U3A sem starfar í yfir þrjátíu löndum víða um heim með hundruðum þúsunda meðlima. Engin skilyrði eru fyrir þátttöku og engin próf tekin. Með orðinu háskóli er átt við upprunalegu merkingu orðsins sem er hópur fólks sem vill eyða tíma sínum í að fræðast.
Rannsóknir sýna að það er öllum mikilvægt, allt lífið, að viðhalda andlegri virkni, ekki síður þó komið sé á efri ár. Þess vegna er það þarft hverjum og einum að finna áhugaverð verkefni og tileinka sér nýja þekkingu á meðan að heilsan leyfir. Miðað er við að þriðja æviskeiðið hefjist um fimmtugt, strax þá er þörf á að huga að verkefnum þessa æviskeiðs.
Dagskrá fundarins er eftirfarandi:
- Sagt frá undirbúningi stofnunar U3A Suðurnes
- Ávarp frá U3A Reykjavík
- Samþykkt kynnt og lögð fyrir
- Kosningar, formaður, fjórir stjórnarmenn, tvo skoðunarmenn reikninga
- Kaffi/tónlistaratriði
- Hugmyndir að námskeiðum
- Undirbúningshópur hættir, ný stjórn tekur við, ávarp formanns
- Önnur mál
- Fundi slitið/nýr formaður
„Gerðu það sem þú getur, með því sem þú hefur, þar sem þú ert.“ -Theodore Roosesvelt
Undirbúningshópinn skipa Jónína Holm, Garði, Halldóra Magnúsdóttir, Vogum, Sæunn Hulda Guðmundsdóttir, Sandgerði, Magdalena Olsen, Reykjanesbæ, Jenný Emilía Olsen, Reykjanesbæ og Erna M. Sveinbjarnardóttir, Garði.