Horft yfir Keflavíkurkirkju og næsta nágrenni. Ljósmynd OZZO
Þjónusta Reykjanesbæjar er yfir landsmeðaltali í málefnum leik- og grunnskóla, menningarmálum, aðstöðu til íþróttaiðkunar og við að leysa úr erindum þeirra sem leitar til starfsfólks sveitarfélagsins. Þetta sýnir ný þjónustukönnun Gallup sem framkvæmd er árlega og sýnir þjónustustig 18 sveitarfélaga á landinu. Spurt er um 12 þjónustuþætti, auk samskipta við bæjarskrifstofur og úrlausn erinda, og niðurstöður sýndar á kvarðanum 1-5.
Þegar íbúar eru spurðir um hversu ánægðir eða óánægðir þeir eru með sveitarfélagið sem stað til að búa á, hækkar ánægjustig íbúa Reykjanesbæjar um 0,1 stig frá könnun í fyrra og skorar nú 3,9 stig. Meðaltalið er 4,2 stig. Þeir málaflokkar sem koma verst út úr könnun Gallup yfir allt landið eru skipulagsmál almennt, þjónusta við eldri borgara og fatlað fólk. Þar er þjónustan á kvarðanum fjórir eða undir. Í þeim málaflokkum leynast því tækifæri til að gera betur.
Þegar kemur að því að svara hvaða þjónustu íbúar telja að sveitarfélagið þurfi helst að bæta eru heilbrigðismál/heilsugæsla oftast nefnd eða í 17% tilfella. Þá vega sorphirðu- og endurvinnslumál þungt þegar kemur að bættri þjónustu, einnig samgöngumál og þjónusta við eldri borgara. Aðrir málaflokkar vega minna.
Þeir svarendur sem komu athugasemdum á framfæri töldu hreinsun eða þrif í umhverfi helst ábótavant, einnig aðhalds- og sparnaðaraðgerðir, bættar samgöngur/gatnakerfi, lægri gjöld og bætt skipulag/skipulagsmál.