Að tillögu Almannavarna Ríkislögreglustjóra hefur verið tekin ákvörðun að bíða með að opna þjónustumiðstöð í Reykjanesbæ fyrir íbúa Grindavíkur. Unnið er að því að koma þjónustumiðstöð Almannavarna í Reykjavík í betra horf og munu þau bíða með að opna aðrar þar til reynsla hefur komist á starfsemina.
Þjónustumiðstöð Almannavarna í Reykjavík sem starfrækt er í samstarfi við Rauða Krossinn og Grindavíkurbæ var opnuð 15. nóvember sl. og er staðsett í Tollhúsinu við Tryggvagötu. Verkefni þjónustumiðstöðvar hafa til þessa einkum falist í stuðningi við íbúa Grindavíkurbæjar. Komin er upp góð aðstaða fyrir börn og barnafjölskyldur og hafa Grindvíkingar í ríkum mæli nýtt sér þjónustuna sem vex með hverjum degi. Rauði Krossinn býður upp á sálfélagslegan stuðning og félagsleg ráðgjöf er í boði á vegum starfsfólks Grindavíkurbæjar. Þá er einnig í boði fræðsla og ráðgjöf af ýmsu tagi í samræmi við þarfir og óskir íbúa Grindavíkur.
Grindvíkingar og aðrir íbúar á Reykjanesi eru hvattir til að nýta sér þjónustumiðstöðina sem er opin á virkum dögum frá kl. 10.00-18.00. Þá er einnig hægt að hafa samband í síma 855-2787 og í gegnum netfangið fyrirspurnir@almannavarnir.is