Veðrið lék við íbúa Reykjanesbæjar í gær sem þrömmuðu fylktu liði á hátíðarsvæðið við Hafnargötu undir dynjandi trommuslætti og logandi kyndlum sem lýstu leiðina fyrir álfakóng og drottningu sem stóðu tignarleg á vagni með fjölmenna hirð álfa, púka og bæjarbúa sem fylgdu í kjölfar þeirra.
Þátttakan og stemningin í ár var með eindæmum góð en talið er að um nokkur þúsund manns hafi tekið þátt í dagskránni sem var hátíðleg og í anda þrettándans með hinum hefðbundnu áramótasöngvum sem fluttir voru af Karlakór Keflavíkur og Kvennakór Suðurnesja ásamt álfakóngi og drottningu. Auk þess fluttu tónlist Léttsveit Tónlistarskólans og Jólahljómsveit skólans. Tröllastelpan Fjóla stýrði dagskránni af sinni alkunnu hógværð! Brennan og kakóið voru á sínum stað og glöddu og yljuðu ungum sem öldnum. Botninn var loks sleginn í dagskrána með glæsilegri flugeldasýningu að hætti Björgunarsveitarinnar Suðurnes og er óhætt að segja að við bæjarbúar séum aldrei sviknir þegar að sýningum hennar kemur. Sannarlega góður endir á gleðilegri jólahátíð.