Frá Keflavíkurflugvelli. Mynd með frétt um skipulagsreglurnar á vef samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytis. Ljósmynd: Isavia
Í samræmi við heimild í 59. gr. laga um loftferðir, nr. 60 frá 1998, hefur samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra ákveðið að setja skipulagsreglur fyrir Keflavíkurflugvöll.
Með reglunum er verið að festa í sessi skipulag hindranaflata vallarins og þar með takmarkanir á hæðum húsa, trjáa og annarra mannvirkja á tilteknum svæðum. Eru hindranafletir þessir byggðir á skilgreiningum alþjóðlegra skuldbindinga íslenska ríkisins sem innleiddar hafa verið í íslenskan rétt með lögum nr. 60/1998 um loftferðir og reglugerð 75/2016 um kröfur og stjórnsýslumeðferð er varða flugvelli samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 216/2008. Einnig er verið að festa í sessi eftir ákvæðum sömu skuldbindinga, laga og reglugerða, takmörkun á notkun leysigeisla innan tiltekinna svæða.
Tilgangur og markmið reglnanna er:
- að tryggja flugöryggi vallarins með því að binda í skipulag hæðartakmarkanir sem nauðsynlegar eru vegna öryggis flugvallarstarfseminnar
- að einfalda umfjöllun og ákvarðanatöku um hæðir húsa innan og í nágrenni flugvallarins
- að tryggja flugöryggi vallarins og flugumferðar með því að binda í skipulag takmarkanir á notkun leysigeisla
Tillaga að skipulagsreglum fyrir Keflavíkurflugvöll er hér með auglýst til kynningar en tillagan er til sýnis á skrifstofu Isavia í Flugstöð Leifs Eiríkssonar frá og með 29. júlí til og með 13. september. Hægt er að nálgast tillöguna á heimasíðu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, http://www.srn.is, og á heimasíðu ISAVIA ohf. http://www.isavia.is.
Fara á vef samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytis
Fara á vef Isavia
Skorað er á fasteignaeigendur á svæðinu og aðra hagsmunaaðila að kynna sér fyrirliggjandi drög að reglum. Opið er fyrir umsagnir í samráðsgáttinni, http://www.samradsgatt.is, til og með 13. september nk. Eftir þann tíma verður ekki tekið við athugasemdum. Litið er svo á að þeir sem gera ekki athugasemdir við tillöguna teljist samþykkir henni.
Fara á samráðsgátt
Eftir kynningartíma verða athugasemdir og ábendingar sem berast teknar til ítarlegrar athugunar. Verði ákveðið að ráðast í breytingar á tillögunni vegna athugasemdanna verða slíkar breytingar kynntar hlutaðeigandi áður en gengið verður endanlega frá reglunum. Auglýsing um gildistöku reglnanna verður birt í Lögbirtingablaðinu. Nánari upplýsingar veitir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið í síma 545 8200 eða srn@srn.is.