Tríó í Duushúsum

Tríóið
Tríóið

Sunnudaginn 24. október kl. 16:00 verða skemmtilegir tónleikar haldnir í Bíósal Duushúsa. Ingibjörg Guðjónsdóttir, sópran, Herdís A. Jónsdóttir, víóla og Sólveig A. Jónsdóttir píanó munu flytja gestum fjölbreytta efnisskrá.

Þar má heyra íslensk sönglög , óperuaríur og lög úr erlendum söngleikjum þar sem söngröddin, víólan og píanóið munu óma í blönduðum samsetningum og útsetningum íslenskra og erlendra tónskálda. Víólan, sem oft er sögð hljóma líkust mannsröddinni, ljær íslensku sönglögunum nýjan hljóm. Seinni hluti efnisskrárinnar er svo helgaður erlendum tónverkum frá 19. og 20. öld en þær stöllur enda á léttum nótum með þekktum lögum úr söngleikjum í útsetningu þeirra sjálfra.

Aðgangseyrir kr. 2.000 en ókeypis fyrir eldri borgara og nemendur.

Tónleikarnir eru samstarfsverkefni Félags íslenskra tónlistarmanna, Tónlistarfélags Reykjanesbæjar, Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og Menningarsviðs Reykjanesbæjar og eru styrktir af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu.