Reykjanesbær hefur tekið stórt skref í stafrænni þróun með innleiðingu nýs umsóknarviðmóts fyrir byggingarleyfi, þróað af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS). Fyrsta formlega umsóknin um byggingarleyfi með þessu nýja kerfi hefur nú þegar borist sveitarfélaginu. Þetta markar upphaf að samvinnu og einfaldun í ferli umsókna og útgáfu byggingarleyfa á Íslandi, sem miðar að því að stuðla að faglegri og betri mannvirkjagerð í framtíðinni.
Innleiðingin mun ekki einungis bæta upplifun notenda heldur einnig auka skilvirkni í vinnslu mála hjá sveitarfélaginu. Þessi nýja lausn leiðbeinir umsækjendum í gegnum ferlið og tryggir að öll gögn séu samræmd og í betri gæðum, sem einfaldar störf byggingarfulltrúa og annarra fagaðila.
Á sama tíma er hafinn undirbúningur að innleiðingu kerfisins hjá öðrum sveitarfélögum. Þróun kerfisins heldur áfram og næsti áfangi miðar að því að bæta afgreiðsluviðmót byggingarleyfa, þannig að öll samskipti frá umsókn til útgáfu leyfis verði samþætt og aðgengileg í einu kerfi. Þannig geta sveitarfélög tekið á móti umsóknum og afgreitt þær með skilvirkum hætti í einu og sama kerfinu og hönnuðir og aðrir notendur haft sameiginlega sýn á stöðu sinna mála frá umsókn til útgáfu leyfis.
Þetta framfaraskref undirstrikar áherslu Reykjanesbæjar á stafræna þróun og jákvæða uppbyggingu í bæjarfélaginu. Nánari upplýsingar um verkefnið má finna í meðfylgjandi myndbandi.