Í nóvembermánuði bauðst nemendum á unglingastigi í grunnskólum Reykjanesbæjar að taka þátt í stuttmyndasamkeppni í tengslum við lestrarupplifunina Skólaslit 2: Dauð viðvörun.
Nemendur nýttu nóvembermánuð til að vinna myndirnar, skrifa handrit, skipuleggja tökur og framkvæmd. Keppnin fór fram þann 12. desember sl. í stóra sal Sambíóanna í Keflavík fyrir fullum sal af nemendum sem skemmtu sér konunglega enda myndirnar frábærar, vel gerðar og skemmtilegar.
Þrír skólar tóku þátt að þessu sinni en það voru nemendur í Akurskóla, Holtaskóla og Háaleitisskóla sem sendu inn myndir. Kynnar hátíðarinnar voru þau Betsý Ásta Stefánsdóttir og Daníel Örn Gunnarsson. Dómnefndina skipuðu fulltrúar frá Fjörheimum og tilkynnti Ólafur Bergur Ólafsson formaður dómnefndar úrslitin.
Horfa á myndband
Nemendur í 9. bekk í Akurskóla báru sigur úr býtum að þessu sinni þær, Sóley Guðjónsdóttir, Alexandra Rós Þorkelsdóttir, Julia Blasik og Thelma Lind Kolbeinsdóttir með myndina Uppvakningar Reykjanesbæjar.