Vel heppnuð starfsgreinakynning fyrir nemendur í 8. og 10. bekk

Á fimmtudaginn 26. september, fór fram starfsgreinakynning fyrir nemendur í 8. og 10. bekkjum á Suðurnesjum í Íþróttahúsinu í Keflavík. Kynningin var haldin af Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum í samstarfi við Þekkingarsetur Suðurnesja, sem sá um skipulagningu og framkvæmd viðburðarins.

Nemendur fengu tækifæri til að fræðast um þau fjölbreyttu störf sem í boði eru á Suðurnesjum. Reykjanesbær var með kynningarbás þar sem starfsfólk sveitarfélagsins kynnti fjölbreytt störf og verkefni innan sveitarfélagsins. Starfsfólkið sat fyrir svörum og gaf nemendum innsýn í starf sitt, sem skapaði líflegar umræður og veitti mikilvæga fræðslu um starfsmöguleika í nærumhverfinu.

Nemendur sýndu áhuga á þeim tækifærum sem kynnt voru, og starfsfólkið á svæðinu var ánægt með jákvæðar viðtökur og virka þátttöku. Viðburðurinn er mikilvægur liður í því að undirbúa ungt fólk fyrir framtíðina og aðstoða það við að taka upplýstar ákvarðanir um menntun og störf.