Myndatexti: Már Gunnarsson píanónemandi nýtti tækifærið og spilaði fyrir gesti kaffihúss og listmarkaðs. Ljósmynd: Víkurfréttir
Á dögunum afhenti Velferðarsvið Reykjanesbæjar 800.000 króna styrk til langveikra/fatlaðra barna í Reykjanesbæ. Upphæðin safnaðist í tónlistarverkefninu „Frá barni til barns“ sem nemendur hljómborðsdeildar Tónlistarskóla Reykjanesbæjar tóku þátt í á vormánuðum. Styrkurinn fór til Eikarinnar, deildar fyrir börn með einhverfu í Holtaskóla, skammtímavistunarinnar Heiðarholts og til tveggja fatlaðra barna sem þurfa að sækja þjónustu á höfuðborgarsvæðið.
Píanó-, harmoniku- og hljómborðsnemendur Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, ásamt kennurum sínum, efndu á vordögum til tónlistarverkefnisins „Frá barni til barns“. Því var hleypt af stokkunum laugardaginn 14. apríl sl. Þá var efnt til sérstakrar dagskrár í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar þar sem haldin var tónleikaröð í tónleikasalnum Bergi. Auk þess var efnt til listmarkaðar þar sem listamenn á sviði myndlistar, ritlistar, tónlistar, ljósmyndunar og ýmiss konar handverks gáfu verk sín. Einnig var starfrækt kaffihús við listmarkaðinn og nýttu nokkrir píanó- og harmonikunemendur tækifærið og léku fyrir gesti kaffihússins.
Á þeim mánuði sem hægt var að styrkja verkefnið söfnuðust alls 800.000 krónur. Þann 21. júní sl. var Velferðarsviði Reykjanesbæjar afhent upphæðin til varðveislu og útdeilingar.
Með því að smella á þennan tengil opnast fyrri frétt frá verkefninu „Frá barni til barns“