Viðburðir - vikuna 5. til 10. maí

Viðburðadagatal Súlunnar
Viðburðadagatal Súlunnar

Menningarstofnanir í Reykjanesbæ hafa nú tekið höndum saman um að færa menninguna heim til fólks á meðan það hefur ekki kost á að stunda hana með öðrum hætti. Yfir 50 viðburðir af ýmsum toga eru í undirbúningi hjá þeim og eru sumir þeirra þegar farnir að líta dagsins ljós og halda áfram að gera það jafnt og þétt á meðan á samkomubanni stendur. Vikulega birtist auglýsing þar sem megin dagskrá allra stofnana verður að finna á einum stað svo fólk geti betur áttað sig á hvað er í boði, hvar og hvenær en óhætt er að segja að þar kenni ýmissa grasa. 

 

Daglegt streymi frá Bókasafninu kl. 15 auk fjölmargra viðburða

Meðal viðburða má nefna að Bókasafnið stendur fyrir hugleiðsluhádegi, notalegri sögustund fyrir börnin með Höllu Karen, krakkajóga auk þess að streyma ýmsu úr starfsemi safnsins, svo sem pokasaumi og kynningu á erlendu efni safnsins. Að sögn Stefaníu Gunnarsdóttur forstöðumanns safnsins er mikil eftirvænting í herbúðum starfsfólks fyrir verkefninu.

Ljósmyndir, leiðsagnir og sögulegur fróðleikur frá Byggðasafninu

Byggðasafn Reykjanesbæjar birtir daglega mynd dagsins úr myndasafni byggðasafnsins með tilheyrandi fróðleik, m.a. verða birtir sögumolar frá Árna Daníel Júlíussyni sagnfræðingi sem nú starfar við ritun á sögu Keflavíkur 1949-1994. Myndirnar eru eins og inngangur að sérstökum ljósmyndavef safnsins sem til stendur að setja í loftið á næstu vikum. Á vefnum mun fólk geta skoðað myndir, leitað eftir leitarorðum, pantað myndir og ekki síst verður auðvelt fyrir fólk að senda inn ábendingar og upplýsingar um hverja mynd. Þetta er langþráður vefur og mun án efa verða mörgum gleðiefni um ókomna tíð. Þá er ætlunin að vikulega verði boðið upp á stafræna leiðsögn á netinu um sýningar og geymslur safnsins og verður fyrsta leiðsögnin um sýninguna Varnarlið í verstöð í fylgd Helga Biering þjóðfræðings.

Nýjar heimildamyndir um yfirstandandi sýningar og fróðleikur um myndlist frá Listasafninu

Listasafn Reykjanesbæjar mun daglega deila fróðlegu efni um myndlist til áhugasamra. Því til viðbótar hefur Helga Þórsdóttir, nýr safnstjóri safnsins, unnið að gerð stuttra heimildarmynda með viðtölum við listamenn og sýningarstjóra þeirra sýninga sem nú eru í gangi í safninu, „Sögur úr Safnasafni“ og „Lífangar.“