Vilja taka yfir rekstur heilsugæslunnar

Horft yfir Reykjanesbæ.
Horft yfir Reykjanesbæ.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, lýsti því yfir á íbúafundi í
Njarðvíkurskóla í gær að hann teldi mikilvægt að bærinn tæki yfir
heilsugæsluna af ríkinu og kæmi að stjórnun Heilbrigðisstofnunar
Suðurnesja.

„Við höfum byggt upp góða menntun og breytt viðhorfi til menntunar í
Reykjanesbæ. Við höfum umbylt umhverfisásýnd bæjarins og gert vönduðustu
þjónustumiðju landsins í þágu aldraðra íbúa. Við höfum byggt á
tónlistarhefð, byggt tónlistar- og ráðstefnumiðstöð og lagt grunn að vel
launuðum og fjölbreyttum störfum fyrir alla íbúa. Eigum við ekki að vinna á
sama hátt með heilbrigðisþjónustuna og færa hana frá ríkinu? „ spurði Árni

„Af ellefu þáttum sem tilheyra fyrirmyndarsveitarfélagi hefur ríkið m.a.
fulla stjórn yfir lögreglu og heilbrigðisþjónustu. Lögreglan sinnir sínu
hlutverki mjög vel hér á Suðurnesjum en við þurfum að styrkja heilsugæsluna
og heilbrigðisþjónustuna. Við byggjum aðeins gott samfélag hér ef þessir
þættir eru í lagi. Við viljum að aðstaða íbúa í þessum efnum sé til
fyrirmyndar og við getum gert hana þannig ef við fáum einhverju ráðið“
sagði Árni.

„Ég vil að við bjóðumst til að taka yfir heilsugæsluna frá ríkinu og koma
einnig að stjórnun Heilbrigðisstofnunar“.

Á fundinum kom fram að hann hafi átt fyrstu viðræður við heilbrigðisráðherra sem vilji gjarnan ræða hlutverk sveitarfélaga í stjórn heilsugæslunnar og aðkomu þeirra að stjórnum sjúkrastofnana á landsbyggðinni.