Gylfi Jón Gylfason fræðslustjóri Reykjanesbæjar
Margir þættir hafa áhrif á hversu vel börnum gengur að nýta sér hæfileika sína til náms. Einn áhrifamesti þátturinn er áhugi barnsins sjálfs á náminu. Börnum sem hafa áhuga á námi gengur einfaldlega betur að læra og þau ná að jafnaði betri árangri en börn sem eru áhugalaus um nám. En hvað getur maður sem foreldri gert til að kveikja áhuga á námi hjá barninu?
Þitt viðhorf hefur áhrif. Eitt af því mikilvægasta sem hefur áhrif á áhuga barnsins, er þitt eigið viðhorf gagnvart skólanum og náminu. Rannsóknir sýna að hafi foreldrar jákvætt viðhorf gagnvart námi, er líklegast að barnið temji sér einnig jákvætt viðhorf gagnvart námi. Það er líka mikilvægt að barnið finni að þú og skólinn séu saman í liði og vinnið saman að því að barnið nái að laða fram þá hæfileika sem í því búa. Augljós leið til árangurs er til dæmis að gæta þess ætíð að tala vel og með virðingu um skólann, kennara og annað starfsfólk hans þegar barnið heyrir til.
Segðu barninu frá mikilvægi þess að sinna náminu vel. Sem foreldri geturðu líka gert ýmislegt til kveikja og viðhalda áhuga barnsins á náminu. Mundu að þú ert barninu fyrirmynd sem barnið ber mikla virðingu fyrir. Sem foreldri ættirðu til dæmis að ræða reglulega við barnið þitt eða unglinginn um gildi náms í sjálfu sér og hver tengslin eru milli lífshamingju, eftirsóknarverðra starfa, góðra launa og námsárangurs. Í þessu samhengi eru iðni, ástundun og samviskusemi þættir sem þú ættir að leggja sérstaka áherslu á, en þessir eiginleikar eru eftirsóttir óháð starfsvettvangi.
Gerðu heimanámið skemmtilegt, það kveikir áhuga. Kannski er eitt það mikilvægasta sem þú getur gert til að vekja áhuga barnsins á námi að kappkosta að gera þann hluta af náminu sem að þér snýr skemmtilegan. Ég nefni hér sérstaklega heimanámið. Ef þú sem foreldri temur þér að líta á tímann sem fer í heimanám sem gæðastund með barninu þínu fremur en álag eða kvöð, ertu komin langt með að láta barninu líða vel meðan það er að læra, og það er auðvitað undirstaða þess að það hafi áhuga á náminu. Þú einsetur þér einfaldlega að heimanámið verði skemmtilegt með festu, jákvæðni og húmor í bland. Ef foreldrið er jákvætt og vel upplagt í heimanáminu er líklegast að barnið verði það líka.
Umbunaðu markvisst og notaðu umbunarkerfi.
Gylfi Jón Gylfason fræðslustjóri Reykjanesbæjar