Virkniþing Velferðarnets Suðurnesja var haldið síðastliðinn fimmtudag. Virkniþingið var opinn viðburður fyrir íbúa Suðurnesja, þar sem gestum og gangandi var boðið að koma og skoða úrval af virkni á Suðurnesjum. Létt stemning var á staðnum og fjöldi fólks lagði leið sína í Blue-höllina.
Alls tóku 28 aðilar þátt frá frjálsum félagasamtökum og úrræðum á vegum ríkis og sveitarfélaga. Þau voru með kynningarbása þar sem þau kynntu starf sitt og hvöttu fólk til að taka þátt í skipulögðu virknistarfi.
Markmið virkniþingsins var að íbúar yrðu meðvitaðir um framboð á virkniúrræðum á svæðinu, en sérstök áhersla var lögð á að bjóða starfsfólki, sem vinnur með íbúum, svo það geti miðlað upplýsingum áfram til þeirra sem þurfa á aukinni virkni að halda.
Halla Tómasdóttir, forseti lýðveldisins, opnaði þingið með ræðu um mikilvægi virkni og lagði áherslu á hvernig aukin virkni gæti leitt til betri tengsla á milli fólks og betri líðan. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hélt einnig ræðu um mikilvægi verkefnisins, en félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hefur verið ötull stuðningsaðili Velferðarnets Suðurnesja.
Lalli töframaður var virknistjóri og voru tónlistaratriði frá Elísu Tan Doro-On og Sigurði Baldvin Ólafssyni, nemendum í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, Davíð Má Guðmundssyni, Hæfingarstöðinni og frá Regnbogaröddum, barnakór Keflavíkurkirkju.
Velferðarnet Suðurnesja þakkar öllum þeim sem tóku þátt með kynningum, skemmtunum, heimsóknum eða með annars konar þátttöku kærlega fyrir.