Virkniþing Velferðarnets Suðurnesja haldið hátíðlegt

Virkniþing Velferðarnets Suðurnesja var haldið síðastliðinn fimmtudag. Virkniþingið var opinn viðburður fyrir íbúa Suðurnesja, þar sem gestum og gangandi var boðið að koma og skoða úrval af virkni á Suðurnesjum. Létt stemning var á staðnum og fjöldi fólks lagði leið sína í Blue-höllina.

Alls tóku 28 aðilar þátt frá frjálsum félagasamtökum og úrræðum á vegum ríkis og sveitarfélaga. Þau voru með kynningarbása þar sem þau kynntu starf sitt og hvöttu fólk til að taka þátt í skipulögðu virknistarfi.

Markmið virkniþingsins var að íbúar yrðu meðvitaðir um framboð á virkniúrræðum á svæðinu, en sérstök áhersla var lögð á að bjóða starfsfólki, sem vinnur með íbúum, svo það geti miðlað upplýsingum áfram til þeirra sem þurfa á aukinni virkni að halda.

Halla Tómasdóttir, forseti lýðveldisins, opnaði þingið með ræðu um mikilvægi virkni og lagði áherslu á hvernig aukin virkni gæti leitt til betri tengsla á milli fólks og betri líðan. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hélt einnig ræðu um mikilvægi verkefnisins, en félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hefur verið ötull stuðningsaðili Velferðarnets Suðurnesja.

Lalli töframaður var virknistjóri og voru tónlistaratriði frá Elísu Tan Doro-On og Sigurði Baldvin Ólafssyni, nemendum í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, Davíð Má Guðmundssyni, Hæfingarstöðinni og frá Regnbogaröddum, barnakór Keflavíkurkirkju.

Velferðarnet Suðurnesja þakkar öllum þeim sem tóku þátt með kynningum, skemmtunum, heimsóknum eða með annars konar þátttöku kærlega fyrir.