184. fundur

29.04.2016 11:22

184. fundur í Stjórn Reykjaneshafnar var haldinn fimmtudaginn 28. apríl 2016, kl. 17:15 á skrifstofu Reykjaneshafnar að Víkurbraut 11, 230 Reykjanesbæ.

Mættir: Davíð Páll Viðarsson formaður, Einar Þ Magnússon aðalmaður, Hjörtur M Guðbjartsson aðalmaður, Hanna Björg Konráðsdóttir aðalmaður, Guðlaugar H Sigmundsson, sviðsstjóri umhverfissviðs Reykjanesbæjar og Halldór Karl Hermannsson, hafnarstjóri. Kristján Jóhannsson, aðalmaður boðaði forföll á síðustu stundu.

1. Úthlutun lóða á atvinnu- og iðnaðarsvæðum Reykjaneshafnar – verklagsreglur.
Lögð voru fram meðfylgjandi drög að verklagsreglum:

Lóðarframboð: Stjórn Reykjaneshafnar skilgreinir þær lóðir sem eru til úthlutunar hverju sinni á atvinnu- og iðnaðarsvæðum Reykjaneshafnar. Viðkomandi lóðir eru afhentar grófjafnaðar með burðarhæfu efni 60 cm. undir gólfkóta með allt að +/- 10 cm. frávikum, nema Stjórn Reykjaneshafnar samþykki annað fyrirkomulag.

Fyrirspurn um lóð: Umhverfissvið Reykjanesbæjar svarar öllum almennum fyrirspurnum varðandi lóðarmál á atvinnu- og iðnaðarsvæðum Reykjaneshafnar eins og er með aðrar lóðir Reykjanesbæjar. Ósk umfram fyrirliggjandi lóðarframboð er vísað til hafnarstjóra/Stjórnar Reykjaneshafnar.

Lóðarumsókn: Lóðarumsókn um lóð á atvinnu- og iðnaðarsvæðum Reykjaneshafnar er móttekin af umhverfissviði og tekin til afgreiðslu í Umhverfis- og skipulagsráði. Samþykki USK-ráð umsóknina þarf hún staðfestingu hjá Stjórn Reykjaneshafnar áður en hún telst samþykkt.
,
Lóðargjald: Lóðargjald á atvinnu- og iðnaðarsvæðum Reykjaneshafnar er samsett af uppbyggingargjaldi lóðar annars vegar og gatnagerðargjaldi lóðar hins vegar.

• Uppbyggingargjald felur í sér grófjöfnun lóðar, þ.e. fjarlægja mold og fylla upp með burðarhæfum kjarna. Uppbyggingargjald er einingarverð á fermetra og margfaldast upp í samræmi við stærð lóðarinnar.
• Gatnagerðargjald er í samræmi við lög nr. 153/2006 um gatnagerðargjald og samþykkt nr. 120/2008 um gatnagerðargjöld í Reykjanesbæ.

Útreikningur lóðargjalds: Þegar lóðarumsókn er samþykkt eru reiknað út lóðargjald vegna lóðarinnar samkvæmt eftirfarandi ferli:

• Byggingarfulltrúi Reykjanesbæjar reiknar út gatnagerðargjald vegna lóðar í samræmi við reglur Reykjanesbæjar og skilar til Reykjaneshafnar til innheimtu. Ef veita á afslátt af gatnagerðargjaldi skal það gert í samræmi við reglur Reykjanesbæjar um álagningu gatnagerðargjalds og með samþykki Stjórnar Reykjaneshafnar.
• Hafnarstjóri Reykjaneshafnar reiknar út uppbyggingargjald vegna lóðar í samræmi við gjaldskrá Reykjaneshafnar. Ef veita á afslátt af uppbyggingargjaldi lóðar skal það samþykkjast af Stjórn Reykjaneshafnar.

Samkomulag um úthlutun lóðar og greiðslu lóðargjalds: Þegar að úthlutun lóðar á atvinnu- og iðnaðarsvæðum Reykjaneshafnar hefur verið samþykkt og útreikningur lóðargjalds liggur fyrir er gengið frá samkomulagi þar sem úthlutun lóðarinnar er staðfest, afhending lóðarinnar tímasett, ákvæði um skil á lóð, lóðargjald vegna lóðarinnar tilgreind og greiðslufyrirkomulag skilgreint.

Greiðsla lóðargjalds: Staðfestingargjald vegna úthlutaðrar lóðar á atvinnu- og iðnaðarsvæðum Reykjaneshafnar er 25% af lóðargjaldi, þ.e. uppbyggingar- og gatnagerðargjald lóðarinnar, ásamt virðisaukaskatti og ber að greiða það innan mánaðar frá úthlutun lóðarinnar, að öðrum kosti fellur úthlutunin úr gildi án sérstakrar tilkynningar þar um. Eftirstöðvara greiðast með veðskuldabréfi á 1. veðrétt í viðkomandi lóð sem lóðarhafi skal gefa út fyrir afhendingu lóðarinnar. Skuldabréfið skal vera verðtryggt miðað við vísitölu neysluverðs (grunnvísitala samkvæmt samningi) með 10 afborgunum á 6 mánaða fresti, fyrsti gjalddagi 6 mánuðum frá undirritun veðskuldabréfsins.

Lóðarleiga: Lóðarleigusamningur vegna lóðarinnar skal gerður þegar greiðsla vegna lóðarinnar er frágengin og gildir til 50 ára. Lóðarleiga miðast við fasteignarmat lóðar og miðast við gjaldskrá Reykjanesbæjar. Innheimta hennar hefst við afhendingu lóðarinnar.

Skil lóðar: Skil á lóð á atvinnu- og iðnaðarsvæðum Reykjaneshafnar er háð samþykki Stjórnar Reykjaneshafnar. Fallist Stjórn Reykjaneshafnar á að lóð sé skilað er lóðargjald endurgreitt á sama hátt og með sömu skilmálum og giltu um greiðslu þess til Reykjaneshafnar að frádreginni umsýsluþóknun sem nemur 1% af álögðu lóðargjaldi og að frádreginni lóðarleigu og öðrum gjöldum sem kunna að varða lóðina. Endurgreitt lóðargjald er verðtryggt miðað við vísitölu neysluverðs til þess tíma er endurgreiðsla á sér stað, en ber ekki vexti. Endurgreiðsla staðfestingargjalds lóðar er þó óverðtryggt. Endurgreitt lóðargjald ber ekki virðisaukaskatt.

Fyrir liggur að Umhverfis- og skipulagssvið Reykjanesbæjar (USK) þarf að samþykkja aðkomu sína í þessari framkvæmd. Stjórn Reykjaneshafnar samþykkir þessar verklagsreglur við úthlutun lóða á atvinnu- og iðnaðarsvæðum Reykjaneshafnar með fyrirvara um samþykki USK.

2. Gjaldskrá Reykjaneshafnar 2016 – breyting á 12. grein.
Lagt er til að 12. grein í gjaldskrá Reykjaneshafnar fyrir árið 2016 verði breytt og hljóði þannig eftir breytingu:

Almenn regla:
Lóðargjald atvinnu- og iðnaðarsvæðum Reykjaneshafnar er samsett af uppbyggingargjaldi lóðar annars vegar og gatnagerðargjaldi lóðar hins vegar.

• Uppbyggingargjald felur í sér grófjöfnun lóðar, þ.e. fjarlægja mold og fylla upp með burðarhæfum kjarna. Uppbyggingargjald er kr. 2.040.- á fermetra og margfaldast upp í samræmi við stærð lóðarinnar.
• Gatnagerðargjald er í samræmi við lög nr. 153/2006 um gatnagerðargjald og samþykkt nr. 120/2008 um gatnagerðargjöld í Reykjanesbæ.

Staðfestingargjald vegna úthlutaðrar lóðar á atvinnu- og iðnaðarsvæðum Reykjaneshafnar er 25% af lóðargjaldi, þ.e. uppbyggingar- og gatnagerðargjald lóðarinnar, ásamt virðisaukaskatti og ber að greiða það innan mánaðar frá úthlutun lóðarinnar, að öðrum kosti fellur úthlutunin úr gildi án sérstakrar tilkynningar þar um. Eftirstöðvara greiðast með veðskuldabréfi á 1. veðrétt í viðkomandi lóð sem lóðarhafi skal gefa út fyrir afhendingu lóðarinnar. Skuldabréfið skal vera verðtryggt miðað við vísitölu neysluverðs (grunnvísitala samkvæmt samningi) með 10 afborgunum á 6 mánaða fresti, fyrsti gjalddagi 6 mánuðum frá undirritun veðskuldabréfsins.

Lóðargjald innifelur ekki í sér byggingarleyfisgjöld sem greiðast hjá byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar eða tengigjöld veitna.

Samþykkt samhljóða.

3. Ársreikningur Hafnarsambands Íslands fyrir árið 2015.
Ársreikningur Hafnarsambands Íslands lagður fram. Stjórn Reykjaneshafnar gerir ekki athugasemd við ársreikninginn.

4. Skýrsla um stöðu á vinnumarkaði í mars 2015.
Lagðar fram tölur frá Vinnumálastofnun um stöðuna á vinnumarkaði í mars 2016. Einnig var lagt fram yfirlit yfir þróun atvinnuleysis í Reykjanesbæ frá árinu 2001 til 2016, viðmiðunarmánuðir mars, og yfirlit yfir þróun atvinnuleysis í Reykjanesbæ s.l. ár eftir kyni, aldursbili, menntun, ríkisfangi, starfsgreinum og atvinnugreinum. Í Reykjanesbæ voru 258 einstaklingar á atvinnuleysisskrá í mars. Það fækkaði um 190 einstaklinga á atvinnuleysisskrá frá sama mánuði 2015. Heildarfjöldi skráðra atvinnulausra á Suðurnesjum öllum var 351 í mars.

5. Fjármál Reykjaneshafnar.
Hafnarstjóri fór yfir stöðu viðræðna við kröfuhafa hafnarinnar. Eftirfarandi var lagt fram:

Stjórn Reykjaneshafnar samþykkir hér með að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð 65.000.000 kr. til 10 ára, í samræmi við samþykkta skilmála lánveitingarinnar sem liggja fyrir fundinum. Er lánið tekið til endurfjármögnunar afborgana lána Reykjaneshafnar hjá Lánasjóði sveitarfélaga, sem fellur undir lánshæf verkefni, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006. Jafnframt er Halldóri Karli Hermannssyni, kennitala ekki birt, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga f.h. Reykjaneshafnar sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari. Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu láns þessa, ásamt vöxtum, verðbótum og kostnaði stendur einföld óskipt ábyrgð eigenda sem er Reykjanesbær sbr. heimild í 2. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og setja þau til tryggingar tekjur sínar sbr. 2. mgr. 68. gr. sömu laga.

Samþykkt samhljóða.

6. Upplýsingargjöf hafnarstjóra.
Hafnarstjóri fór yfir stöðu ýmissa mála er varðar rekstur hafnarinnar.

7. Önnur mál.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið.

Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 3. maí 2016.