225. fundur

17.01.2019 00:00

225. fundur Stjórnar Reykjaneshafnar var haldinn fimmtudaginn 17. janúar 2019 kl. 17:00 á skrifstofu Reykjaneshafnar að Víkurbraut 11, 230 Reykjanesbæ.

Mættir: Hjörtur Magnús Guðbjartsson formaður, Kolbrún Jóna Pétursdóttir aðalmaður, Sigurður Guðjónsson aðalmaður, Úlfar Guðmundsson aðalmaður, Bjarki Már Viðarsson varamaður og Halldór Karl Hermannsson hafnarstjóri.

DAGSKRÁ

1. Fjármál Reykjaneshafnar. (2019010202)

a. Stefna frá Gildi lífeyrissjóður dags. 19.12.2018 með kröfu um greiðslu á kr. 17.094.942.- auk vaxta. Lögð fram til kynningar.

b. Afrit af bréfi dags. 19.12.2018 til Reykjanesbæjar frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu þar sem Reykjanesbæ er heimilað að veita Reykjaneshöfn fjárframlag vegna rekstrarársins 2018. Lagt fram til kynningar.

2. Ársreikningur 2018. (2019010201)

Ráðningarbréf við Grant Thornton endurskoðun ehf. vegna endurskoðunar á reikningum Reykjaneshafnar rekstrarárið 2018. Lagt er til að ráðningarbréfið verði samþykkt og hafnarstjóra falið að undirrita það. Samþykkt samhljóða.

3. Hólamið. (2018120133)

Hafnarstjóri kynnti samkomulagi milli Reykjanesbæjar og Reykjaneshafnar um afturköllun umboðs Reykjaneshafnar frá 03.07.2007 til umsýslu með lóðir á Iðnaðarsvæðinu að Hólamiðum. Lagt er til að samkomulagið sé samþykkt og hafnarstjóra falið að undirrita það. Samþykkt samhljóða.

4. Prókúra á reikninga Reykjaneshafnar (2019010198)

Reykjaneshöfn er með samning við Reykjanesbæ um greiðsluþjónustu. Vegna breytinga á starfsmannahaldi hjá Reykjanesbæ tengt þeirri þjónustu er lagt til að eftirfarandi fái prókúru á reikninga Reykjaneshafnar hjá Landsbanka og Íslandsbanka:

• Hrafnhildur H Ólafsdóttir, kennitala ekki birt.
• Regína F Guðmundsdóttir, kennitala ekki birt.

Jafnframt er lagt til að felldar verði niður prókúrur eftirfarandi á reikninga Reykjaneshafnar hjá Landsbanka og Íslandsbanka:

• Guðbjörg F Guðmundsdóttir, kennitala ekki birt.
• Sædís Kristjánsdóttir, kennitala ekki birt.
• Þórey I Guðmundsdóttir, kennitala ekki birt.

Samþykkt samhljóða.

5. Starfsmannamál (2018100171)

Starf hafnsögumanns hjá Reykjaneshöfn var auglýst laust til umsóknar í nóvember s.l. með umsóknarfrest til og með 3. desember 2018. Alls sóttu tíu aðilar um starfið en ein umsókn var síðan dregin til baka. Úrvinnsla umsókna hófst í framhaldinu og er henni nú lokið. Að úrvinnslunni komu hafnarstjóri, formaður Stjórnar Reykjaneshafnar og fulltrúi úr mannauðsdeild Reykjanesbæjar. Niðurstaða liggur fyrir og leggur hafnarstjóri til að Jóhannes Þór Sigurðsson verði ráðinn í starfið. Samþykkt samhljóða.

6. Hafnarsamband Íslands. (2019010204)

Tölvupóstur dags. 14.01.2019 frá Hafnasambandi Íslands þar sem kynntur er opinn fundur þann 24.1 nk. um aðgerðaráætlun um orkuskipti í íslenskum höfnum. Meðfylgjandi var dagskrá fundarins. Lagt fram til kynningar.

7. Íslenski sjávarklasinn. (2019010199)

a. Skýrsla Íslenska sjávarklasans um Verkefni og árangur sjávarklasans á árinu 2018. Lögð fram til kynningar.

b. Reykjaneshöfn hefur verið þátttakandi í Flutningahóp Íslenska sjávarklasans frá árinu 2012. Hafnarstjóri fór yfir aðkomu Reykjaneshafnar að starfi hópsins undanfarin ár.Lagt er til að Reykjaneshöfn hætti þátttöku í Flutningahóp Íslenska sjávarklasans og hafnarstjóra falið að tilkynna það til Íslenska sjávarklasans . Samþykkt samhljóð.

8. Upplýsingagjöf hafnarstjóra. (2019010196)

Hafnarstjóri fór yfir stöðu ýmissa mála er varðar starfsemi hafnarinnar.

9. Önnur mál. (2019010197)

a. Hafnarbakki 5. Tölvupóstur dags. 14.01.2019 frá Fasteignasölunni Ásberg þar sem kemur fram að kauptilboð liggur fyrir í fasteignina Hafnarbakka 5 260 Reykjanesbæ en Reykjaneshöfn hefur forkaupsrétt af viðkomandi eign. Óskað er eftir afstöðu Reykjaneshafnar um nýtingu á forkaupsréttinum. Lagt er til að Reykjaneshöfn nýti forkaupsréttinn og gangi inn í kauptilboðið. Samþykkt samhljóða.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19:00. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 22. janúar 2019.