244. fundur

24.09.2020 17:00

244. fundur stjórnar Reykjaneshafnar haldinn fimmtudaginn 24. september 2020 kl. 17:00. Fundurinn var Teams fjarfundur.

Mættir: Hjörtur Magnús Guðbjartsson formaður, Hanna Björg Konráðsdóttir aðalmaður, Kristján Jóhannsson aðalmaður, Sigurður Guðjónsson aðalmaður, Úlfar Guðmundsson aðalmaður og Halldór Karl Hermannsson hafnarstjóri.


1. Fjármál Reykjaneshafnar (2020010192)

Hafnarstjóri fór yfir ýmis mál er snerta fjármál Reykjaneshafnar.

2. Fjárhagsáætlun Reykjaneshafnar fyrir árið 2021 (2020080143)

Hafnarstjóri kynnti stöðu í vinnslu fjárhagsáætlunar Reykjaneshafnar fyrir árið 2021.

3. Hafnasamband Íslands (2020021399)

a. Fundargerð 425. fundar Hafnasambands Íslands frá 24.08.2020. Lögð fram til kynningar.

b. Drög að reglugerð um vigtun og skráningu sjávarafla. Í samráðsgátt stjórnvalda eru drög að nýrri reglugerð um vigtun og skráningu sjávarafla. Hafnarstjóri fór yfir þær breytingar sem gerðar eru tillögur um í drögunum frá núgildandi reglugerð. Eftirfarandi var lagt fram: Í drögum að reglugerð um vigtun og skráningu sjávarafla sem nú er til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda virðist sem allar tillögur þar gangi út á að íþyngja höfnum varðandi fyrirkomulag og umgjörð við vigtun sjávarafla á hafnarvog. Í því felst m.a. krafa um aukinn mannafla og tækjabúnað, en því fylgir aukinn rekstrarkostnaður fyrir hafnir sem nemur milljónum króna. Flestar fiskihafnir landsins eiga í erfiðleikum með að ná endum saman í sínum rekstri og mega ekki við neinum kostnaðarauka. Stjórn Reykjaneshafnar telur að í fyrrnefndum drögum sé haldið í þveröfuga átt í framkvæmd vigtunar sjávarafla miðað við það sem er að gerast í þjóðfélaginu almennt. Með þeirri tækni sem er til staðar í dag er auðvelt að byggja upp nýtt fyrirkomulag við vigtun sjávarafla sem er mun hagkvæmara en núverandi fyrirkomulag og gefur höfnum landsins möguleika á að hagræða í rekstri sínum til kostnaðarminnkunar. Stjórn Reykjaneshafnar skorar á stjórn Hafnasambands Íslands að Hafnasambandið beiti sér fyrir því tekið verði upp fyrirkomulag fjarvigtunar hjá öllum höfnum landsins sem fjármagnað og þjónað verði af fiskveiðieftirliti Fiskistofu fyrir hönd ríkisvaldsins. Slíkt myndi auðvelda Fiskistofu hlutverk sitt við eftirlit með umgengni um nytjastofna sjávar og fiskveiðum en jafnframt gefa höfnum landsins möguleika til hagræðingar og nýta þar með bestu fáanlegu tækni hverju sinni öllum til hagsbóta. Samþykkt samhljóða.

Fylgigögn:

Fundargerð 425. fundar stjórnar Hafnasambands Íslands
Drög að reglugerð um vigtun og skráningu sjávarafla

4. Hafnarmannvirki Reykjaneshafnar (2020030194)

Hafnarstjóri upplýsti að hann ásamt fulltrúa frá Skipasmíðastöð Njarðvíkur hf. hefur mætt hjá bæjarráðum Grindavíkurbæjar, Suðurnesjabæjar og Sveitarfélagsins Voga ásamt stjórn Samtaka sveitarfélaga á Suðurnesjum þar sem þeir hafi kynnt þá uppbyggingu sem fyrirhugðuð er í Njarðvíkurhöfn og kemur fram í viljayfirlýsingu milli Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur hf., Reykjanesbæjar og Reykjaneshafnar frá 19.08.2020. Eftirfarandi bókanir fylgdu í framhaldi hverrar heimsóknar:
• 312. fundur bæjarráðs Sveitarfélagsins Voga 02.09.2020: Bæjarráð tekur undir stuðning við verkefnið, sem er til þess fallið að bæta atvinnuástandið á Suðurnesjum. Bæjarráð hvetur ríkisvaldið til að styðja við verkefnið á allan mögulegan hátt, enda brýnt nú þegar atvinnuástandið á Suðurnesjum er afar bágborið.
• 1556. fundur bæjarráðs Grindavíkurbæjar 08.09.2020: Bæjarráð tekur vel í hugmyndir um skipaþjónustuklasa í Njarðvíkurhöfn og lýsir fullum stuðningi við verkefnið.
• 759. fundur stjórnar SSS 16.09.2020: Stjórn S.S.S. þakkar góða kynningu og lýsir yfir stuðningi við verkefnið. Stjórnin hvetur jafnframt ríkisvaldið til að styðja við verkefnið á allan mögulegan hátt enda verkefnið bæði atvinnuskapandi og gjaldeyrisskapandi. Verkefni sem þetta eykur fjölbreytileika atvinnulífs á Suðurnesjum
• 58. fundur bæjarráðs Suðurnesjabæjar 23.09.2020: Bæjarráð lýsir stuðning við verkefnið sem er til þess fallið að styrkja stoðir atvinnulífs á Suðurnesjum. Bæjarráð hvetur ríkisvaldið til að styðja við verkefnið á allan mögulegan hátt.
Farið var yfir hver væru næstu skref í framvindu málsins.

Fylgigögn:

Fundargerð 759. fundar stjórnar Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum
Bókun á 1556. fundi bæjarráðs Grindavíkur
Fundargerð 58. fundar bæjarráðs Suðurnesjabæjar
Bókun á 312. fundi bæjarráðs Sveitarfélagsins Voga

5. Landslög (2020050255)

Á fundinn undir þessum lið mætti Unnar S. Bjarndal sviðsstjóri stjórnsýslusviðs RNB. Farið var yfir fund sem sviðsstjóri stjórnsýslusviðs RNB og hafnarstjóri áttu með Garðari Garðarssyni hrl. í tilefni bréfs hans frá 21.07.2020 og tekið var fyrir á 243. fundi stjórnarinnar 13.08. s.l.

6. Suðurnesjabær (2020090376)

Bréf Suðurnesjabæjar, dags. 28.08.2020, þar sem óskað er eftir því að fulltrúar Sandgerðishafnar, Reykjaneshafnar og Grindavíkurhafnar taki upp viðræður um hugsanlega möguleika og tækifæri til framtíðar í samstarfi þessara hafna með það markmið að styrkja rekstur þeirra. Eftirfarandi var lagt fram: Stjórn Reykjaneshafnar telur rétt að skoða þá möguleika sem falist geta í samstarfi viðkomandi hafna með hagræðingu að leiðarljósi. Fulltrúum úr stjórn og hafnarstjóra er falið að taka þátt í þeim viðræðum fyrir hönd Reykjaneshafnar. Samþykkt samhljóða.

Fylgigögn:

Viðræður um mögulegt samstarf um rekstur hafna á Suðurnesjum - erindi frá Suðurnesjabæ

7. Hringrás ehf. (2020090375)

Hafnarstjóri fór yfir samkomulag milli Reykjaneshafnar annars vegar og Hringrásar ehf. hins vegar frá 18.03.2016 ásamt seinni tíma viðaukum. Fyrir liggur að forsendur til uppgjörs eru til staðar og kynnti hafnarstjóri drög að uppgjöri. Eftirfarandi var lagt fram: Stjórn Reykjaneshafnar samþykkir fyrirliggjandi uppgjör og heimilar hafnarstjóra að ganga frá greiðslum á grundvelli þess. Samþykkt samhljóða.

8. Upplýsingagjöf hafnarstjóra (2020010519)

Hafnarstjóri fór yfir stöðu ýmissa mála er varðar starfsemi hafnarinnar.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19:00. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 6. október 2020.