276. fundur atvinnu- og hafnarráðs var haldinn mánudaginn 3. júlí kl. 16:00 á skrifstofu Reykjaneshafnar að Víkurbraut 11, 230 Reykjanesbæ.
Viðstaddir: Hjörtur Magnús Guðbjartsson formaður, Alexander Ragnarsson, Kristján Jóhannsson, Sigurður Guðjónsson og Úlfar Guðmundsson.
Að auki sat fundinn Halldór Karl Hermannsson sviðsstjóri atvinnu- og hafnarsviðs.
1. Atvinnu- og hafnarráð (2023060509)
Formaður kynnti að á 626. fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar þann 20. júní sl. var tekin fyrir endurskoðuð samþykkt um stjórn Reykjanesbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar og hún samþykkt. Í 57. grein samþykktarinnar 8. tölulið kom fram að stjórn Reykjaneshafnar yrði framvegis atvinnu- og hafnarráð Reykjanesbæjar. Einnig kynnti hann erindisbréf ráðsins sem samþykkt var á sama fundi bæjarstjórnar.
Atvinnu- og hafnarráð felur formanni og sviðsstjóra að fylgja eftir endurskoðun á samþykktum fyrir Reykjaneshöfn í samræmi við ofangreindar breytingar.
2. Hafnarmannvirki Reykjaneshafnar (2020030194)
Bréf frá Reykjanesbæ, dags. 21.06.23, með bókun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar varðandi deiliskipulag Njarðvíkurhafnar – suðursvæði. Þar kemur fram að ráðið telur skipulagsgögnin fullnægjandi og samþykkt sé að deiliskipulagið verði sent Skipulagsstofnun til endanlegrar afgreiðslu.
Fylgigögn:
Bókun umhverfis- og skipulagsráðs
3. Atvinnuþróunarstefna (2023020501)
Sviðsstjóri kynnti hugmynd að vinnustofu í tengslum við vinnslu atvinnustefnu Reykjanesbæjar.
Atvinnu- og hafnarráð samþykkir að sviðsstjóri vinni áfram í málinu og komi með endanlegar tillögur á næsta fundi.
4. Skemmtiferðaskip (2023010396)
Sviðsstjóri sagði frá fundi sem haldinn var föstudaginn 30. júní með fulltrúum Grindavíkurhafnar, Sandgerðishafnar og Markaðsstofu Reykjaness í framhaldi af erindi Reykjaneshafnar til þessara aðila um að kanna möguleika á sameiginlegri markaðssetningu hafna á Reykjanesi gagnvart skemmtiferðaskipum.
Atvinnu- og hafnarráð lýsir ánægju sinni með framvindu málsins og felur sviðsstjóra að vinna það áfram.
5. Aalborg Portland Íslandi (2023010395)
Fyrirliggjandi á fundinum eru drög að samkomulagi milli Reykjaneshafnar og Aalborg Portland Íslandi varðandi uppsetningu og afnot af bílavog við aðkomu að Norðurbakka Helguvíkurhafnar.
Atvinnu- og hafnarráð samþykkir fyrirliggjandi samningsdrög og felur sviðsstjóra að undirrita þau þegar endanleg staðsetning bílavogar liggur fyrir.
6. Fitjabakki 8 - lóðarleigusamningur (2023060234)
Unnar Steinn Bjarndal bæjarlögmaður mætti á fundinn undir þessum lið. Farið var yfir drög að lóðarleigusamningi milli Reykjaneshafnar og Lauga ehf. um lóðina Fitjabakka 8.
Atvinnu- og hafnarráð samþykkir fyrirliggjandi samning og felur sviðsstjóra að undirrita hann.
7. Stakksbraut – lóðir upp af Norðurbakka Helguvíkurhafnar (2020050255)
Áhugi er kominn fram um að hefja uppbyggingu nýrra hafnarmannvirkja í Helguvíkurhöfn. Í tengslum við þær hugmyndir getur þurft að breyta og aðlaga lóðarmörk við lóðir á Stakksbraut sem liggja að hafnarsvæðinu.
Atvinnu- og hafnarráð felur hafnarstjóra að opna viðræður við skipulagsyfirvöld varðandi þá möguleika sem geta verið í boði.
Fylgigögn:
Stakksbraut - lóðir upp af Norðurbakka Helguvíkurhafnar
8. Norðurál Helguvík ehf. (2020080524)
Farið var yfir stöðu mála er varðar þrotabúið.
9. Mælaborð atvinnu- og hafnarsviðs (2023050188)
Sviðsstjóri fór yfir rekstrarstöðu sviðsins fyrstu fimm mánuði ársins.
10. Upplýsingagjöf sviðsstjóra (2023020513)
Sviðsstjóri fór yfir stöðu ýmissa mála er varða starfsemi sviðsins.
11. Suðurnesjalína 2 (2023010306)
Á fundi sveitarstjórnar sveitarfélagsins Voga þann 30. júní sl. var samþykkt framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 og í framhaldi var undirritað samkomulag milli sveitarfélagsins og Landsnets um þá framkvæmd. Þar með hafa öll sveitarfélög sem koma að lagningu Suðurnesjalínu 2 veitt framkvæmdaleyfi sitt og ekkert því til fyrirstöðu að framkvæmdin hefjist.
Atvinnu- og hafnarráð fagnar því að ekkert hamlar lengur að Suðurnesjalína 2 verði reist til að tryggja orkuöryggi á Suðurnesjum. Í samskiptum fulltrúa atvinnumála í Reykjanesbæ við hina ýmsu aðila sem horfa til uppbyggingar í sveitarfélaginu hafa komið fram áhyggjur þeirra af því að nægjanleg orka sé ekki til staðar á svæðinu fyrir viðkomandi starfsemi. Nú hefur þessum óvissuþætti verið eytt sem skapar sóknarfæri og góðar undirstöður fyrir samfélagið til framtíðar.
Fylgigögn:
Suðurnesjalína 2 - frétt
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:15. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarráðs 6. júlí 2023.