283. fundur atvinnu- og hafnarráðs Reykjanesbæjar var haldinn á skrifstofu Reykjaneshafnar að Víkurbraut 11 þann 13. febrúar 2024, kl. 16:00
Viðstaddir: Hjörtur Magnús Guðbjartsson formaður, Alexander Ragnarsson, Kristján Jóhannsson, Sigurður Guðjónsson og Úlfar Guðmundsson.
Að auki sat fundinn Halldór Karl Hermannsson sviðsstjóri atvinnu- og hafnarsviðs og Mikael Máni Hjaltason fulltrúi ungmennaráðs Reykjanesbæjar.
1. Ársreikningur Reykjaneshafnar 2023 (2024010264)
Farið var yfir stöðuna á endurskoðun ársreiknings Reykjaneshafnar vegna ársins 2023.
2. Fundargerð stjórnar Hafnasambands Íslands 15. janúar 2024 (2024020132)
Fundargerð 460. fundar Hafnasambands Íslands frá 15. janúar 2024 lögð fram.
Fylgigögn:
Fundargerð 460. fundar Hafnasambands Íslands
3. Hafnasambandsþing 2024 (2024020130)
Bréf Hafnasambands Íslands dags. 23. janúar 2024 þar sem boðað er til hafnasambandsþings 24.-25. október 2024.
Fylgigögn:
Boðun hafnasambandsþings 2024
4. Njarðvíkurhöfn – dýpkun hafnar (2023080391)
Halldór K. Hermannsson sviðsstjóri atvinnu- og hafnarsviðs fór yfir tillögu að endurskoðuðum útboðsgögnum vegna dýpkunar Njarðvíkurhafnar.
Atvinnu- og hafnarráð samþykkir fyrirliggjandi tillögu að útboði og og felur sviðsstjóra að fylgja eftir framkvæmd þess.
5. Atvinnustefna Reykjanesbæjar (2023020501)
Farið var yfir stöðuna á vinnu við atvinnustefnu Reykjanesbæjar.
6. Samráðsnefnd um þróun hafnarsvæða (2024010265)
Farið var yfir þau mál sem til umfjöllunar eru hjá samráðsnefnd um þróun hafnarsvæða.
7. Aðalfundur Cruise Iceland (2024020131)
Tölvupóstur frá Cruise Iceland dags. 8. febrúar 2024 þar sem boðað er til aðalfundar Cruise Iceland þann 3. apríl 2024.
Atvinnu- og hafnarráð felur Halldóri K. Hermannssyni sviðsstjóra að sækja aðalfundinn fyrir hönd Reykjaneshafnar.
8. Bílastæðasjóður Reykjanesbæjar (2022100414)
Tölvupóstur frá Reykjanesbæ dags. 18. janúar 2024 þar sem óskað er umsagnar um drög að samþykkt um Bílastæðasjóð Reykjanesbæjar.
Atvinnu- og hafnarráð telur fyrirliggjandi drög ná vel yfir það hlutverk sem samþykktinni er ætlað að ná fram og gerir ekki athugasemd við þau.
9. Jafnréttisáætlun Reykjanesbæjar 2023-2027 (2022080621)
Tölvupóstur frá Reykjanesbæ dags. 25. janúar 2024 þar sem óskað er umsagnar um drög að Jafnréttisáætlun Reykjanesbæjar 2023-2027.
Atvinnu- og hafnarráð fagnar framkomnum drögum og telur þau fanga mjög þann jafnréttisanda sem Reykjanesbær hefur lagt upp með sem atvinnurekandi gagnvart starfsfólki sveitarfélagsins.
10. Vefstefna Reykjanesbæjar 2023-2027 (2023060380)
Tölvupóstur frá Reykjanesbæ dags. 6. febrúar 2024 þar sem óskað er umsagnar um drög að vefstefnu Reykjanesbæjar 2024-2027.
Atvinnu- og hafnarráð lýsir ánægju sinni með framkomin drög að vefstefnu og aðgerðaáætlun hennar fyrir Reykjanesbæ og stofnanir hans. Stefnan er vel unnin með mælanlegum markmiðum til viðmiðunar til næstu ára, sem skapar skýra sýn á það sem stefnt er að.
11. Fitjabakki 8 - ósk um breytingu á lóðarleigusamningi (2023060234)
Bréf frá Mörkinni lögmannsstofu hf. fyrir hönd lóðarhafa á Fitjabakka 8 þar sem óskað er breytingar á 8. grein lóðarleigusamnings lóðarinnar. Með tilvísun í yfirstandandi jarðhræringar og eldsumbrot á Reykjanesi er óskað eftir að tilgreindir tímafrestir í viðkomandi grein framlengist um eitt ár frá því sem þar er tilgreint.
Atvinnu- og hafnarráð samþykkir viðkomandi ósk um breytingu á 8. grein.
12. Orkuöryggi á Suðurnesjum (2023020244)
Atvinnu- og hafnarráð lýsir miklum áhyggjum af því öryggisleysi sem íbúar og lögaðilar á Suðurnesjum búa við í orkuafhendingu á svæðinu. Á nýliðinni helgi brást afhending á heitu vatni til notenda með tilheyrandi erfiðleikum þegar eldsumbrot tóku í sundur heitavatnslögn frá Svartsengi til svæðisins. Í fjóra sólarhringa var svæðið heitavatnslaust og var orðið ansi kalt í híbýlum íbúa áður en heita vatnið fór að streyma að nýju. Á tímabili leit út fyrir að viðkomandi ástand gæti orðið mun lengra en vegna útsjónarsemi og ósérhlífni ábyrgðar- og viðgerðaraðila varð raunin önnur. Eiga þeir miklar þakkir skildar fyrir það starf. En þessi atburður sýndi svo um munaði hve orkuafhending á Suðurnesjum er ótrygg, ekki bara í heitu vatni heldur er þessi staða líka til staðar í afhendingu á rafmagni og köldu vatni. Atvinnu- og hafnarráð hvetur til þess að bæjarstjórn beiti sér af festu í að tryggja orkuöryggi til svæðisins í framtíðinni svo sambærilegt ástand og var um síðustu helgi skapist ekki aftur.
13. Norðurál Helguvík ehf. (2020080524)
Farið var yfir drög að frumvarpi til úthlutunar úr þrotabúinu.
14. Mælaborð atvinnu- og hafnarsviðs (2024010270)
Halldór K. Hermannsson sviðsstjóri fór yfir mælaborð atvinnu- og hafnarsviðs.
15. Upplýsingagjöf sviðsstjóra (2024010271)
Halldór K. Hermannsson sviðsstjóri atvinnu- og hafnarsviðs fór yfir stöðu ýmissa mála er varða starfsemi sviðsins.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17:30. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 20. febrúar 2024.