1001. fundur

06.11.2014 15:02

1001. fundur bæjarráðs Reykjanesbæjar haldinn 6. nóvember 2014 að Tjarnargötu 12, kl: 09:00.

Mættir : Friðjón Einarsson formaður, Guðbrandur Einarsson aðalmaður, Gunnar Þórarinsson aðalmaður, Árni Sigfússon aðalmaður, Böðvar Jónsson aðalmaður, Kristinn Þór Jakobsson áheyrnarfulltrúi, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Hjörtur Zakaríasson bæjarritari sem jafnframt ritaði fundargerð.

1. Almenningssamgöngur í Reykjanesbæ (2014110011)
Framkvæmdastjóri umhverfis- og skipulagssviðs mætir á fundinn

Mættur var á fund bæjarráðs Guðlaugur Sigurjónsson framkvæmdarstjóri.  Frestað til næsta fundar.

2. Minnisblað um NPA þjónustusamninga (2014110055)
Framkvæmdastjóri fjölskyldu- og félagsþjónustusviðs mætir á fundinn

Mætt var fund bæjarráðs Hera Ósk Einarsdóttir settur framkvæmdastjóri FFR.  Bæjarráð samþykkir að fresta málinu um sinn.

3. Ósk um umsögn um tillögu til þingsályktunar um aðgerðaráætlun til að efla fjarheilbrigðisþjónustu (2014100511)
http://www.althingi.is/altext/144/s/0027.html

Lagt fram.

4. Tilkynning framkvæmdastjóra EBÍ um ágóðahlutagreiðslu 2014 (2014100432)
Ágóðahlutur Reykjanesbæjar á árinu nemur kr. 3.550.500,-.

5. Kjarasamningur við Félag íslenskra hljómlistarmanna  (2014110013)
Lagt fram.

6. Áætluð úthlutun framlags vegna sérþarfa fatlaðra nemenda í grunnskólum fjárhagsárið 2015 (2014090011)
Bæjarráð felur bæjarstjóra að senda inn leiðréttingar eða ný gögn vegna greiningar á nemendum til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

7. Frummatsskýrsla um framleiðslu kísilmálms á vegum Thorsil í Helguvík - drög að umsögn til Skipulagsstofnunar (2014100311)
Bæjarráð samþykkir að gera umsögn skipulagsfulltrúa að sinni með smávægilegum breytingum í e. lið ,,vöktun"  vegna framleiðslu á allt að 110.000 tonnum af kísilmálmi á vegum Thorsil.  Bæjarstjóra falið að afgreiða málið í samræmi við það.

8. Yfirdráttarheimild hjá Íslandsbanka (2014110070)
Bæjarstjóri gerir grein fyrir málinu

Bæjarráð samþykkir að framlengja núverandi heimild til 1. nóvember 2019.

9. Bréf innanríkisráðuneytisins v/skil á fjárhagsáætlun áranna 2015-2018 (2014100409)
Innanríkisráðuneytið heimilar frest til að skila inn fjárhagsáætlun áranna 2015-2018.

10. Viðauki við samning um ráðgjöf KPMG (2014030489)
Bæjarráð samþykkir viðaukann en heildarkostnaður er áætlaður kr. 5,6 - 7,6 m.kr. auk VSK en bæjarsjóður mun sækja til Jöfnunarsjóðs til greiðslu á samningi þessum.

11. Greining á kostnaði vegna yfirvinnu og akstursstyrkja (2014110062)
Tillaga að afgreiðslu:
Bæjarráð Reykjanesbæjar samþykkir, að höfðu samráði við framkvæmdastjóra sviða bæjarins, eftirfarandi aðgerðir með það að markmiði að lækka launatengdan kostnað um 250 milljónir.

1. Dregið verði úr yfirvinnu starfsmanna eins og framast er unnt. Þannig verði unnið að endurskoðun opnunartíma og verklags einstakra stofnana og vaktakerfi endurskoðuð. Yfirvinna verði einungis heimil gegn samþykki næsta yfirmanns, beri brýna nauðsyn til. Þó skal yfirvinna heimil þegar um útselda tíma til þriðja aðila er að ræða, eins og t.d. hjá Reykjaneshöfn, Hljómahöll og víðar.

2. Öllum ákvæðum um fasta yfirvinnu í ráðningasamningum verði sagt upp og fastlaunasamningar í heild og samningar sem innifela ákvæði um önnur laun endurskoðaðir.

3. Áfram verður unnið að innleiðingu tímaskráningarkerfis í öllum stofnunum og fyrirtækjum bæjarins og því verki hraðað eftir því sem unnt er.

4. Ákvæðum um fasta bifreiðastyrki í ráðningarsamningum  verði sagt upp en greitt verði fyrir akstur samkvæmt akstursdagbók að fenginni heimild næsta yfirmanns. Akstri skal haldið í lágmarki.

Greinargerð:
Á 999. fundi bæjarráðs þann 23. október, var eftirfarandi samþykkt undir lið nr. 1, atriði nr. 4 á dagskrá fundarins:
„Bæjarráð samþykkir að unnin verði sérstök greining á launagreiðslum innan sveitarfélagsins, þ.m.t. greiðslum vegna yfirvinnu, bifreiðastyrkjum og öðrum greiðslum, sem eru utan kjarasamninga.  Niðurstöður liggi fyrir sem fyrst, eigi síðar en 30. nóvember 2014.“

Greiningin liggur nú fyrir og kemur þar fram að 750 starfsmenn hafi fengið greidda yfirvinnu um mánaðamótin september/október 2014.  Heildarfjöldi yfirvinnutíma var 9.233 en nærri þriðjungur er vegna fastrar yfirvinnu. Heildarupphæð yfirvinnu sem greidd var um þessi mánaðamót var 32,8 milljónir króna, eða jafnvirði 393,6 milljóna króna á ársgrundvelli.

Þá fengu 205 starfsmenn greitt fyrir akstur um þessi sömu mánaðamót að upphæð 10,2 milljónir króna eða jafnvirði 122,2 milljóna króna á ársgrundvelli.

Þá eru 28 starfsmenn sem eru með fastlaunasamning sem innifelur bæði laun og ótiltekna fasta yfirvinnu og 18 starfsmenn með greiðslur sem kallast „önnur laun“.

Í ljósi niðurstöðu áðurnefndrar greiningar telur bæjarráð rétt að grípa til þessara aðhaldsaðgerða og leggja þannig lóð á vogarskálarnar í hagræðingu í rekstri sveitarfélagsins.

Tillagan samþykkt með 3 atkvæðum meirihlutans.  Böðvar Jónsson greiðir atkvæði á móti og Árni Sigfússon situr hjá.

12. Yfirlit yfir laun bæjarfulltrúa og nefndarmanna hjá Reykjanesbæ (2014110066)
Kristinn Jakobsson lagði fram eftirfarandi tillögu: 
Legg til að frá og með 1. janúar 2015 falli föst laun bæjarráðsmanna niður og einungis verði greitt fyrir setu á stökum fundum bæjarráðs. Þessi skipan mála verði allt þar til skuldahlutfall bæjarsjóðs komist undir 150%. Þetta gæti verið táknrænt framtak bæjarráðs til þeirra aðgerða sem framundan eru og um leið sparað 28,5 milljónir á kjörtímabilinu.

Tillagan felld með 5-0.

Guðbrandur Einarsson lagði fram eftirfarandi bókun: Ég hafna framkominni tillögu Kristins Jakobssonar og mun leggja fram tillögu í sama máli á næsta bæjarráðsfundi.

Yfirlitið lagt fram að öðru leyti.

13. Tillögur um hækkun tekna (2014110063)
Í samræmi við sveitarstjórnarlög og yfirmarkmið og heimildir sem samþykkt voru á 999. fundi bæjarráðs sem snúa að rekstri og aukinni framlegð A-hluta bæjarsjóðs samþykkir bæjarráð Reykjanesbæjar að auka tekjur með því að hækka bæði útsvar og fasteignaskatta á A-stofn (íbúðarhúsnæði).  Sú leið felur í sér að útsvar hækkar frá og með 1. janúar 2015 um 0,53 prósentustig, fer úr 14,52% í 15,05%, sem er hlutfallshækkun upp á 3,62% og bætir fjárhagsstöðu bæjarsjóðs um 200 milljónir króna.  Jafnframt hækki fasteignaskattur úr 0,3 prósentustig í 0,5 frá sama tíma. Það leiðir til tekjuaukningar fyrir bæjarsjóð um 255 milljónir króna.

Þessi blandaða leið ætti að auka tekjur bæjarsjóðs Reykjanesbæjar um 455 milljónir króna á árinu 2015 m.v. núgildandi útsvarsstofn og fasteignamat.

Með þessari hækkun er Reykjanesbær í hópi 34 sveitarfélaga af rúmlega 70 sveitarfélögum á landinu sem eru með jafnháa eða hærri álagningarprósentu fasteignaskatts.

14. Kostnaður við Ljósanótt (2014110072)
Lagt fram.

15. Rekstraruppgjör janúar - ágúst 2014 (2014050353)
Lagt fram.

16. Erindi frá EFS - fjármál Reykjanesbæjar (2014110075)
Bæjarráð tekur undir álit EFS nefndarinnar um nauðsyn þess að gengið verði til samninga við innanríkisráðherra um fjárhagsleg málefni sveitarfélagsins.  Slíkt samkomulag felur í sér formlega staðfestingu á fyrirhuguðum aðgerðum bæjarstjórnar („Sóknin“) og þeim markmiðum sem stefnt er að til að bæta fjárhag Reykjanesbæjar vegna þess vanda sem skapast hefur á undanförnum árum. Bæjarstjóra falið að hefja viðræður við innanríkisráðherra hið fyrsta.

17. Önnur mál (2014010041)
Kristinn Jakobsson óskaði bókað: 
Allt frá því að núverandi formaður bæjarráðs var kosinn til embættisins hefur hann einhliða úrskurðað að áheyrnarfulltrúum sé óheimilt að undirrita fundargerðir þeirra funda sem þeir sitja. Formaðurinn hefur vitnað til lögfræðiálits sem honum hefur ekki enn tekist að leggja fram þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um.  Mér er misboðið að vera bannað að rita undir fundargerðir þeirra funda samkvæmt einhliða ákvörðun formanns bæjarráðs.

Fleira ekki gert og fundi slitið.
__________

Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 18. nóvember 2014.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks greiða atkvæði á móti 11. máli og vísa í bókun.  Bæjarstjórn samþykkir fundargerðina að öðru leyti 11-0.