1004. fundur

27.11.2014 15:21

1004. fundur bæjarráðs Reykjanesbæjar haldinn 27. nóvember 2014 að Tjarnargötu 12, kl: 09:00.

Mættir : Friðjón Einarsson formaður, Guðbrandur Einarsson aðalmaður, Gunnar Þórarinsson aðalmaður, Böðvar Jónsson aðalmaður, Kristinn Þór Jakobsson áheyrnarfulltrúi, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri, Magnea Guðmundsdóttir varamaður og Hjörtur Zakaríasson fundarritari.

1. Sóknin - hagræðing um 500 milljónir - stöðuskýrsla (2014110194)
Oddur Jónsson hjá KPMG gerir grein fyrir stöðu mála.  Gögn lögð fram á fundinum.

Mættur var Oddur Jónsson frá KPMG á fundinn.

2. 1. mál bæjarráðs 20/11´14 - gjaldskrá 2015 (2014110322)
Bæjarráð samþykkir gjaldskránna 5-0.  Böðvar Jónsson, Magnea Guðmundsdóttir og Kristinn Jakobsson gera fyrirvara um niðurfellingu á umönnunargreiðslum til foreldra.

3. Aðgerðir í launamálum - nánari útfærsla (2014110062)
Aðgerðir í launamálum, nánari útfærsla

Samkvæmt samhljóða ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar er nauðsynlegt að auka
framlegð A-hluta bæjarsjóðs um a.m.k. 900 milljónir króna með aðgerðum sem annars vegar lúta að aukningu tekna en hins vegar að hagræðingu í rekstri. Þetta var samþykkt í þeim tilgangi að ná fjárhagslegum markmiðum um skuldaviðmið, eins og lög gera ráð fyrir. Í samræmi við það var samþykkt í bæjarstjórn þann 18. nóvember sl. að auka skatttekjur um 455 milljónir með hækkun útsvars og fasteignaskatta.  Á hinn bóginn er ætlunin að ná ofangreindu markmiði um framlegðaraukningu með hagræðingu í rekstri með því að lækka útgjöld um 500 milljónir. Annars vegar með lækkun launakostnaðar, s.s. yfirvinnu og aksturspeningum, og hins vegar með lækkun annarra útgjalda.

Í framhaldi af samþykkt bæjarstjórnar á sama fundi var hafist handa við að segja upp  launaliðum sem snerta yfirvinnu og aksturspeninga og hefur viðkomandi starfsmönnum sem hafa þegið slíkar greiðslur verið tilkynnt um uppsögn þessara liða.  Þetta er gert til þess að hægt sé að ráðast í þær lækkanir á launaliðum sem nauðsynlegar kunna að teljast.
Við nánari greiningu á mögulegum lækkunum á útgjöldum vegna hagræðingar í rekstri hefur komið í ljós að aðgerðir er lúta að öðrum útgjöldum en launaliðum gefa tækifæri til lækkunar um allt að 350 milljónir. Það þýðir að hægt er að fara hægar í sakirnar hvað varðar hagræðingu á launaliðum. Með þessa vitneskju að leiðarljósi samþykkir bæjarráð að áfangaskipta aðgerðum,  sem miða að því að einungis sé greitt fyrir unna yfirvinnu, sem hér segir:
1. Heildarlaun, utan akstursstyrkja, þ.e. grunnlaun, yfirvinna (föst, unnin eða óunnin) og „önnur laun“, lækki að hámarki um 15% miðað við meðal heildarlaun í september, október og nóvember 2014, þegar breytingarnar taka gildi. Hjá flestum verður það 1. mars 2015. Öll yfirvinna verði þó nákvæmlega skráð frá sama tíma. Ef fjöldi skráðra unninna yfirvinnutíma lækkar það mikið að heildarlaun lækki meira en 15%, fyrir utan akstur, gildir þetta viðmið. 
2. Fastlaunasamningum verði sagt upp. Almennu starfsfólki með slíka samninga verði boðnir nýir samningar sem byggjast á grunnlaunum og unninni yfirvinnu en ákvæði 1 og 4 taki einnig til þessara starfsmanna.
3. Heimilt verði að gera nýja fastlaunasamninga við stjórnendur með mannaforráð og aðra lykil starfsmenn, með sérstöku leyfi bæjarstjóra.
4. Heimilt verði að semja á ný um fasta yfirvinnu við aðra starfsmenn frá 1. jan. 2016 , byggt á upplýsingum og skráningu unninnar yfirvinnu á tímabilinu mars-desember 2015.
5. Þann 1. okt. 2015 breytist viðmiðið í lið 1. í 25% miðað við meðallaun í september, október og nóvember 2014 og frá 1. jan. 2016 verði aðgerðirnar komnar að fullu til framkvæmda.

Með þessari áfangaskiptingu aðgerða munu markmið, sem lagt var upp með í byrjun, nást. Í öllum þessum hagræðingaraðgerðum er haft að leiðarljósi að um leið og svigrúm skapast til að draga auknar álögur á íbúa Reykjanesbæjar til baka, verður það gert.

Tillagan samþykkt með 3 atkvæðum. Böðvar Jónsson og Magnea Guðmundsdóttir sitja hjá.

4. Úttekt á stjórnun og stjórnskipulagi Reykjanesbæjar  (2014110407)
Bæjarráð samþykkir að ráða Capacent ráðgjöf vegna úttektarinnar en áætlaður kostnaður við verkið nemur kr. 2.712.500,-.

5. Samningur um kaup á tækjum af sjúkraþjálfunarstöðinni Átak ehf. - áður á dagskrá bæjarráðs 24/7´14 (2014070266)
Bæjarráð samþykkir kaup á búnaði skv.  fyrirliggjandi gögnum að upphæð allt að  kr. 14.500.000,-.  vegna sjúkraþjálfunar á hjúkrunarheimilinu á Nesvöllum.

6. Skipan varamanna í svæðisskipulagsnefnd Suðurnesja (2014100008)
Bæjarráð samþykkir að skipa Guðna Jósep Einarsson og Unu Maríu Unnarsdóttur sem varamenn í svæðisskipulagsnefnd Suðurnesja.

7. Aðventutónleikar í Keflavíkurkirkju til styrktar orgelsjóði (2014110380)
Bæjarráð getur ekki orðið við erindinu að þessu sinni.

8. Ósk um ráðningu afleysingarstarfsmanns í Björginni (2014110409)
Bæjarráð samþykkir erindið.

9. Ósk um ráðningu afleysingarstarfsmanns í launadeild (2014110404)
Bæjarráð samþykkir erindið.

10. Ósk um ráðningu í viðbótarstöður í baðvörslu (2014110402)
Erindinu frestað þar til tillögur um skipulagsbreytingar liggja fyrir.

11. Starfsmannaráðningar á fræðsluskrifstofu (2014110405)
Bæjarráð samþykkir lið 1 og 2 en lið 3 vísað til fjárhagsáætlunargerðar.

12. Ósk um umsögn um tillögu til þingsályktunar um millilandaflug um Vestmannaeyjaflugvöll og Ísafjarðarflugvöll (2014110357)
http://www.althingi.is/altext/144/s/0123.html

Lagt fram.

13. Ósk um umsögn um tillögu til þingsályktunar um flutning Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar (2014110379)
http://www.althingi.is/altext/144/s/0078.html

Bæjarráð vísar í fyrri ályktanir bæjarstjórnar Reykjanesbæjar.

14. Ósk um umsögn um tillögu til þingsályktunar aum kaup ríkisins á Grímstöðum á Fjöllum. (2014010041)
Lagt fram.

15. Erindi starfsmanna bæjarskrifstofu. (2014010041)
Bæjarstjóra falið að svara erindinu.

Fleira ekki gert og fundi slitið.
__________

Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 2. desember 2014.
Bæjarstjórn samþykkir fundargerðina 11-0. Breytingartillaga á gjaldskrá Reykjanesbæjar 2015 samþykkt 11-0.