1011. fundur

22.01.2015 00:00

1011. fundur bæjarráðs Reykjanesbæjar haldinn 22. janúar 2015 að Tjarnargata 12, kl: 09:00

Mættir : Friðjón Einarsson formaður, Guðbrandur Einarsson aðalmaður, Gunnar Þórarinsson aðalmaður, Böðvar Jónsson aðalmaður, Kristinn Þór Jakobsson áheyrnarfulltrúi, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri, Baldur Guðmundsson varamaður og Hjörtur Zakaríasson fundarritari.

1. Skipulagsbreytingar (2014110407)
Fulltrúar Capacent gera grein fyrir stöðu mála.
1. mál. Skipulagsbreytingar.
Mættur var Arnar Jónsson frá Capacent er grein fyrir stöðu mála.
Markmið verkefnisins voru eftirfarandi:
• Að vinna með stjórnendum Reykjanesbæjar að greiningu og mati á núverandi verkefnum sviða, verkaskiptingu og samstarfi sviða og forgangsröðun verkefna.
• Að kanna hvort og þá hvernig væri unnt að ná fram hagræðingu og auka skilvirkni í framkvæmd verkefna sviða með sameiningu, einföldun eða öðrum breytingum á stjórnun og stjórnskipulagi sveitarfélagsins.
• Að vinna tillögu að nýju stjórnskipulagi fyrir sveitarfélagið leiði greining í ljós veikleika eða úrbótatækifæri á núverandi skipan.
• Að móta á grunni greiningar úrbótaáætlun sem lýsir nýju eða breyttu stjórnskipulagi, virkni þess, verkaskiptingu aðila og forgangsröðun verkefna til samræmis við áherslur sveitarfélagsins.

Eftirfarandi tillögur eru gerðar að breytingum á stjórnskipulagi Reykjanesbæjar sem hafa það að leiðarljósi að efla starfsemina og styrkja form og virkni miðlægrar þjónustu þvert á fagsvið bæjarins, fækka og einfalda skipan verkefna fagsviða og móta stig af stigi enn öflugra embættismannakerfi til að koma stefnumörkun kjörinna fulltrúa í Reykjanesbæ til framkvæmdar.
Nýtt stjórnskipurit Reykjanesbæjar
1. Lagt er til að bæjarráð Reykjanesbæjar samþykki að starfsemi Reykjanesbæjar skiptist í þrjú fagsvið og tvö stoðsvið.

Fagsviðin nefnist: fræðslusvið, velferðarsvið og umhverfissvið. Stoðsviðin nefnist stjórnsýslusvið og fjármálasvið.

Lagt er til að stjórnendur sviða nefnist sviðsstjórar og þeim verði settar hlutverka- og starfslýsingar sem feli í sér lýsingu á hlutverki stjórnenda hjá Reykjanesbæ. Samhliða er lagt til að einum aðila á hverju sviði verði falið að gegna hlutverki staðgengils sviðsstjóra en að hlutverkið verði eingöngu virkt við fjarvistir sviðsstjóra sem eru lengri en ein vika.

2. Lagt er til að komið verði á laggirnar stjórnsýslusviði hjá Reykjanesbæ sem hafi forystu um þróun vinnubragða, annist þjónustu við bæjarráð og bæjarstjórn, leiði úrbætur á sviði gæðamála þvert á fagsvið bæjarins, sinni þróun og útfærslu markaðs- og kynningarmála og vinni náið með mannauðsstjóra að þróun og viðhaldi mannauðs. Stjórnandi sviðsins nefnist sviðsstjóri stjórnsýslusviðs.

3. Lagt er til að menningarsvið verði lagt niður sem sérstakt svið en verkefni þess felld undir stjórnsýslusvið og samþætt að hluta við markaðs- og kynningarmál, ferðamál og atvinnumál. Í því felst að menningartengd starfsemi á vegum Reykjanesbæjar verði tengd með skýrum hætti við markaðs- og kynningarstarf á vegum bæjarins en tilgangur þess er annars vegar að auka samfellu milli viðburðastjórnunar og kynningar- og markaðsmála og hins vegar að tengja menningarmálin við ferðamál og atvinnumál.

4. Lagt er til að til að á stjórnsýslusviði verði til nýtt starf menningarfulltrúa sem sinni þróun og útfærslu á menningarstarfsemi á vegum Reykjanesbæjar og verði næsti yfirmaður þeirra sem eru í forsvari fyrir þau menningarhús sem Reykjanesbær rekur.

5. Lagt er til að starf starfsþróunarstjóra verði lagt niður í núverandi mynd og að til verði nýtt starf mannauðsstjóra Reykjanesbæjar sem verði ætlað að styðja sviðsstjóra og aðra stjórnendur hjá Reykjanesbæ í sínu hlutverki sem stjórnendur mannauðs.

6. Lagt er til að komið verði á laggirnar sérstæðu fjármálasviði sem annast fjárreiður, áætlanagerð og þróar og útfærir umbætur á sviði rekstrareftirlits og styður stjórnendur og starfsmenn Reykjanesbæjar á því sviði. Stjórnandi sviðsins nefnist sviðsstjóri fjármálasviðs.

7. Lagt er til að nafni fjölskyldu- og félagssviðs verði breytt og það kallist velferðarsvið. Sviðinu verði falið að leiða forvarnarmál í samvinnu við fræðslusvið auk þess að annast tómstundamála aldraða. Samhliða er lagt til að vinnu við úrbætur á verklagi sviðsins verði flýtt.

8. Lagt er til að nafni umhverfis- og skipulagssviðs verði breytt í umhverfissvið og það skilgreint sem fagsvið. Sviðinu verði falið að samþætta vinnu eignasjóðs á sviði viðhalds og rekstur fasteigna við viðhald og rekstur eigna Fasteigna Reykjanesbæjar. Dagleg fjármálaleg umsýsla verði að öðru leyti á höndum fjármálasviðs og ráðstöfun félagslegs húsnæðis verði sem fyrr sinnt af velferðarsviði.

9. Lagt er til að íþrótta- og tómstundasvið verði lagt niður sem sérstakt svið en verkefni þess felld undir fræðslusvið og utan forvarnarmála og tómstundamála aldraðra sem verði falin velferðarsviði.

10. Lagt er til að á fræðslusviði verði til nýtt starf íþrótta- og tómstundafulltrúa á fræðslusviði sem sinni þróun og rekstri málaflokksins undir forystu sviðsstjóra fræðslusviðs.

11. Lagt er til að sú breyting verði á ráðum Reykjanesbæjar að atvinnumál verði klofin frá atvinnu- og hafnarráði og til verði annars vegar sérstætt markaðs- og atvinnuráð sem sinnt verður af starfsmönnum stjórnsýslusviðs og hins vegar sérstætt hafnarráð sem annist stefnumörkun og rekstur Reykjaneshafna. Samhliða er lagt er til að atvinnu- og  hafnasvið verði ekki hluti af yfirstjórn Reykjanesbæjar en tryggja þarf gott samstarf um atvinnuuppbyggingu sem tengist hafnsækinni starfsemi innan sveitarfélagsins.

Nýtt skipurit fyrir Reykjanesbæ samþykkt með 3 atkvæðum meirihlutans gegn 2 atkvæðum minnihlutans.

Böðvar Jónsson lagði fram eftirfarandi bókun:
Skipulag þjóni áherslum –
Atvinnu, menntun, menningu, íþróttum og fjármálum.

Sjálfstæðismenn telja sjálfsagt að endurskoða stjórnskipulag bæjarins til að gera það sem markvissast. Oftast gildir þó sú regla í litlu samfélagi að „veldur hver á heldur“. Þannig er það sjaldnast skipulagið sjálft sem ákvarðar hvort vel er unnið, heldur þeir sem halda um stjórnvölinn og starfsfólkið sjálft.

Breyting á stjórnskipulagi sveitarfélags er viðamikið og vandasamt verkefni. Æðibunugangur og fljótfærni eru aldrei vænleg til árangurs þegar slíkar breytingar eru fyrirhugaðar.
Tillaga að breyttu skipuriti Reykjanesbæjar var fyrst lögð fram á bæjarráðsfundi nú í dag, 22.janúar 2015 en aðeins er ein vika síðan að fyrstu hugmyndir að mögulegu skipuriti voru lagðar fram fyrir bæjarráðsmenn með kröfu um algeran trúnað. Þær hugmyndir hafa því hvorki fengið umfjöllun hjá bæjar- og varabæjarfulltrúum sem ekki sitja í bæjarráði, nefndarfólki bæjarins né verið til umfjöllunar meðal starfsmanna sem gætu komið með gagnlegar og mikilvægar ábendingar áður en ákvörðun er tekin. Við teljum því ótækt að taka ákvörðun um nýtt skipurit á sama fundi og tillagan er lögð fram og vera enn eitt dæmið um mistök, fljótfærni og klaufaskap meirihlutans þegar kemur að starfsmannamálum sveitarfélagsins.

Í þeirri stuttu vinnu og umfjöllun sem fram hefur farið vegna mótunar nýs skipurits fyrir Reykjanesbæ höfum við Sjálfstæðismenn lagt áherslu á að sérhvert samfélag hefur sínar áherslur. Gott stjórnskipulag er byggt utan um þessar áherslur.
Áherslur okkar samfélags hafa verið og eiga að vera að: styrkja atvinnustoðir með fjölbreyttari og betur launuðum störfum, skóla í fremstu röð, áhugavert menningarsamfélag og góðri aðstöðu fyrir unga fólkið til íþrótta- og tómstunda. Þetta eru forsendur fyrir því að hér verði áfram gott samfélag sem eftirsóknarvert er að búa í.

Því leggjum við til að þessar áherslur komi fram í sjálfstæðum sviðum innan bæjarins, fagsviðum og stoðsviðum. Við Sjálfstæðismenn teljum því betra að fagsviðin verði fjögur og stoðsviðin þrjú

FAGSVIÐIN
1.        Fræðslusvið (FRÆ),
2.        Fjölskyldu- og félagssvið (FFR),
3.        Umhverfis- og skipulagssvið(USK) .
4.        Atvinnusvið

STOÐSVIÐIN
1.      Stjórnsýslusvið
2.      Markaðs, Menningar- íþróttasvið (MMI)
3.      Fjármálasvið

Áður en kemur til sjálfstæðs Atvinnusviðs verði horft til sömu verkefna hjá SSS og Þróunarfélagi Keflavíkur og kannað hvaða skipulag muni henta atvinnuuppbyggingu best. Þangað til heyri atvinnumálin áfram undir Atvinnu- og hafnaráð.
Samhliða breytingu á íþróttasviði verði kannaðir kostir og gallar þess að færa rekstrarlega stjórn íþróttahúsa til USK eða semja við íþróttafélög um rekstur þeirra að einhverju eða öllu leyti.
Forvarnarstarf verði vistað undir stjórn Markaðs- Menningar- og Íþróttasviðs þar sem það kemur m.a. inn á forvarnir á mörgum sviðum í menntun, menningu, íþróttum, umferð, skipulagi, barna- og unglingavernd.

Sú ákvörðun að fella íþrótta- og tómstundamál undir Fræðslusvið teljum við ekki skynsamlegt. Þar eru felld undir sama hatt lögbundin verkefni sveitarfélags á sviði fræðslumála við ólögbundið verkefni sem er margvíslegur stuðningur við uppbyggingu íþrótta- og tómstundamála. Reynslan í slíkum tilfellum hefur sýnt að hið lögbundna hefur alltaf yfirhöndina og þurfi að draga saman seglin tímabundið t.d. vegna fjárhagsaðstæðna er óhikað gengið fyrst á þann þátt sem ekki er lögbundinn, oft án þess að það verkefni hafi verið ígrundað.

Mikilvægt er að benda á að sú ákvörðun sem meirihlutinn hefur tekið í þessu sambandi svo og þær tillögur sem Sjálfstæðismenn leggja hér fram munu ekki hafa mikil áhrif á launakostnað sveitarfélagsins eins og hann er í dag. Þau sérsvið sem starfsrækt eru í dag munu með nýju skipuriti verða sérstakar skrifstofur eða deildir og launamunur, hvort sem stjórnendur verða skráðir sviðsstjórar eða deildarstjórar, mun verða hverfandi þegar upp  er staðið.

Böðvar Jónsson og Baldur Þ. Guðmundsson.

Kristinn Jakobsson lagði fram eftirfarandi bókun:  Er sammála í meginatriðum þeim tillögum að nýju stjórnskipulagi Reykjanesbæjar en harma þann flýti á afgreiðslu málsins.

2. Tillögur að gjaldskrá FFR 2015. (2015010022)
Bæjarráð samþykkir tillögurnar.

3. Erindi Lögreglustjórans á Suðurnesjum - Uppsögn á samkomulagi við veitingarmenn í Reykjanesbæ ásamt minnisblaði frá Útideild Reykjanesbæjar (2015010582)

Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að ræða við Lögreglustjórann á Suðurnesjum um erindið.

4. Starfsmannamál - barnavernd (2014120196)
Óskað er heimildar að ráða í 100% stöðurgildi vegna fæðingarorlofs og veikinda starfsmanns.
Bæjarráð samþykkir erindið 5-0.

5. Starfsmannamál - Akurskóla og Heiðarsel (2014120198)
Bæjarráð samþykkir erindi Akurskóla að ráða í 68,75% stöðuhlutfall í stað starfsmanns sem óskar eftir að hætta sem fyrst. Bæjarráð samþykkir að ráða leiðbeinanda í 100% stöðugildi í stað starfsmanns sem er í langvarandi veikindum og hefur ekki aukakostnað í för með sér skv. upplýsingum leikskólastjóra.

6. Fundargerð 94. fundar Fasteigna Reykjanesbæjar - Bókun 4, framtíðarskipan á rekstri (2015010586)
Bæjarráð samþykkir að verða við erindinu í bókun 4. Fundargerðin lögð fram að öðru leyti.

Fleira ekki gert og fundi slitið.
________________________________________

Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 3. febrúar 2015.
Bæjarstjórn samþykkir fundargerðina 11-0.