1269. fundur bæjarráðs Reykjanesbæjar var haldinn í Merkinesi, Hljómahöll þann 14. maí 2020, kl. 08:00
Viðstaddir: Friðjón Einarsson, Guðbrandur Einarsson, Gunnar Þórarinsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Margrét A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir áheyrnarfulltrúi, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Hrefna Gunnarsdóttir ritari.
1. Samstarf Byggðastofnunar við fyrirtæki og atvinnulíf á Suðurnesjum (2020050169)
Aðalsteinn Þorsteinsson forstjóri Byggðastofnunar, Arnar Már Elíasson forstöðumaður fyrirtækjasviðs og Sigríður Elín Þórðardóttir forstöðumaður þróunarsviðs mættu á fundinn í gegnum fjarfundabúnað. Umræða var um starfsemi Byggðastofnunar á Suðurnesjum og hugsanlegt samstarf við Reykjanesbæ.
2. Drög að ársreikningi 2019 (2019110195)
Regína F. Guðmundsdóttir, fjármálastjóri mætti á fundinn og gerði grein fyrir ársreikningnum.
Bæjarráð samþykkir að vísa drögum að ársreikningi til endurskoðunar og til fyrri umræðu í bæjarstjórn 19. maí n.k.
3. EFF5 (2020010099)
Regína F. Guðmundsdóttir, fjármálastjóri mætti á fundinn. Bæjarstjóri fór yfir málefni Eignahaldsfélags Fasteignar (EFF5). Bæjarstjóra falið að vinna áfram í málinu.
4. Aðgengismál í mannvirkjum í umsjá Reykjanesbæjar (2020050172)
Guðlaugur H. Sigurjónsson sviðsstjóri umhverfissviðs mætti á fundinn og gerði grein fyrir stöðu á aðgengismálum í mannvirkjum sem eru í umsjá Reykjanesbæjar. Sviðstjóra umhverfissviðs falið að sækja um aukið fjármagn til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
5. Viðbrögð við efnahagslegum áhrifum/auknu atvinnuleysi vegna Covid 19 (2020040083)
Þórdís Ósk Helgadóttir forstöðumaður Súlunnar, Sigurgestur Guðlaugsson verkefnastjóri viðskiptaþróunar, Gunnar Víðir Þrastarson verkefnastjóri markaðsmála, Hrafnhildur Ýr Hafsteinsdóttir verkefnastjóri ferðamála og Guðlaugur H. Sigurjónsson sviðsstjóri umhverfissviðs mættu á fundinn og kynntu fyrirhugaðar aðgerðir Reykjanesbæjar í atvinnu-, mennta-, markaðs- og kynningarmálum.
Bæjarráð samþykkir samhljóða eftirfarandi bókun vegna úrræði stjórnvalda um sumarátaksstörf fyrir námsmenn:
„Bæjarráð fagnar úrræði stjórnvalda og lýsir yfir ánægju sinni með þann fjölda starfa sem ráðstafað hefur verið til sveitarfélagsins. Bæjarráð samþykkir jafnframt að veita allt að 78 milljónum króna til að standa undir hlut sveitarfélagsins af kostnaði við úrræðið.“
Bæjarráð samþykkir samhljóða eftirfarandi bókun vegna sumarstarfa ungmenna fædd árið 2003:
„Bæjarráð samþykkir að bjóða ungmennum fæddum árið 2003 til starfa í vinnuskóla Reykjanesbæjar sumarið 2020. Bæjarráð samþykkir jafnframt að ráðstafa allt að 75 milljónum króna til að standa undir kostnaðarauka vinnuskólans vegna þessa.“
Minnt er á fyrirhugaðan íbúafund sem verður í beinu streymi kl. 17:30 í dag 14. maí á Facebook síðu Reykjanesbæjar. Slóð á íbúafundinn.
Fylgigögn:
Kynning á ferðaþjónustu í Reykjanesbæ 2020
Ferðumst innanlands - Reykjanesbær
6. Covid 19 – Viðbrögð Reykjanesbæjar (2020030360)
Bæjarráð samþykkir að útvíkka samþykktar aðgerðir frá 26. mars s.l. Það felur í sér að auka gjalddaga sem heimilt er að fresta úr tveimur í þrjá og nýta heimild til frestunar til ársins 2021.
Margrét A. Sanders (D) lagði fram eftirfarandi bókun:
„Á fundi íþrótta- og tómstundaráðs þann 14. apríl síðastliðinn var farið yfir stöðu íþróttahreyfingarinnar í Reykjanesbæ á tímum Covid-19 og fulltrúar þeirra fóru þar yfir skýrslur sínar. Staðan er vægast sagt svört. Á þeim fundi bókaði ráðið eftirfarandi:
Íþrótta- og tómstundaráð þakkar fyrir góðar kynningar og minnir á mikilvægi þess að standa vörð um íþróttastarf sveitarfélagsins og að hvergi verði slakað á stuðningi við íþróttahreyfinguna okkar. Sveitarfélagið, ríkið og þau fyrirtæki sem eru aflögufær verða að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að svo verði.
Mikilvægt er að Reykjanesbær stígi sterkt inn og styrki íþróttafélögin fjárhagslega þannig að þau neyðist ekki til að draga úr starfsemi. Ákvörðun um styrk þarf að liggja fyrir sem fyrst."
Margrét A. Sanders (D)
7. Hlíðarvegur 42 – 50 (2020040426)
Bæjarráð hafnar erindinu og felur bæjarstjóra að svara erindinu.
8. Plastlaus september 2020 - beiðni um styrk (2020050171)
Ársskýrsla 2019 lögð fram. Bæjarráð samþykkir að veita styrk að fjárhæð kr. 250.000. Tekið út af bókhaldslykli 21-011.
Fylgigögn:
Ársskýrsla 2019 - Plastlaus september
9. Fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga 8. maí 2020 (2020021082)
Fundargerð lögð fram.
Fylgigögn:
Fundargerð 883. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga
10. Fundargerðir neyðarstjórnar (2020030192)
Með því að smella hér opnast fundargerðir neyðarstjórnar.
11. Umsagnarmál frá nefndasviði Alþingis (2020010375)
a. Frumvarp til laga um breytingu á barnalögum, nr. 76/2003, með síðari breytingum (skipt búseta barns), 707. mál
Með því að smella hér opnast frumvarpið.
b. Frumvarp til laga um svæðisbundna flutningsjöfnun (niðurlagning flutningsjöfnunarsjóðs olíuvara), 734. mál
Með því að smella hér opnast frumvarpið.
c. Frumvarp til laga um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir, 662. mál
Með því að smella hér opnast frumvarpið.
Umsagnarmál lögð fram.
Bæjarráð samþykkir að taka eftirfarandi mál á dagskrá:
12. Frítt inná söfn Reykjanesbæjar sumarið 2020 (2020050303)
Bæjarráð samþykkir að aðgangur verði ókeypis í Hljómahöll og Duus hús 1. júní – 31. ágúst. Bókasafnið vill einnig koma á framfæri að bókasafnskort eru frí fyrir atvinnulausa.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 11:10. Fundargerð fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 19. maí 2020.