1297. fundur bæjarráðs Reykjanesbæjar, fjarfundur haldinn 3. desember 2020, kl. 08:00
Viðstaddir: Friðjón Einarsson formaður, Baldur Þ. Guðmundsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Guðbrandur Einarsson, Margrét A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir áheyrnarfulltrúi, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Hrefna Gunnarsdóttir ritari.
1. Stapaskóli – breytingar vegna leikskólastigs (2019051608)
Guðlaugur H. Sigurjónsson sviðsstjóri umhverfissviðs og Gróa Axelsdóttir skólastjóri Stapaskóla mættu á fundinn. Lagt var fram minnisblað um að færa leikskólastig yfir í bráðabirgðahúsnæðið sem hingað til hefur verið nýtt sem skólahúsnæði.
Bæjarráð samþykkir erindið.
2. Gervigrasvöllur við Reykjaneshöll – niðurstöður opnunar tilboða í flóðlýsingu (2020120028)
Guðlaugur H. Sigurjónsson sviðsstjóri umhverfissviðs mætti á fundinn. Lögð fram tilboð í lýsingu við gervigrasvöll vestan Reykjaneshallar.
Bæjarráð samþykkir að gengið verði að tilboði Metatron sem var lægstbjóðandi með 92,59% af kostnaðaráætlun. Sviðsstjóra umhverfissviðs, Guðlaugi H. Sigurjónssyni er falið að ganga frá verksamningi.
Fylgigögn:
Tilboð í lýsingu við gervigrasvöll vestan Reykjaneshallar
3. Gjaldskrá 2021 (2020110443)
Lögð fram gjaldskrá Reykjanesbæjar fyrir árið 2021.
4. Fjárhagsáætlun 2021-2024 (2020060158)
Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri gerði grein fyrir málinu.
Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri lagði fram eftirfarandi bókun:
„Vegna bókunar og tillögu bæjarfulltrúa Miðflokksins þann 1. des. sl. um 10% niðurskurð fyrirhugaðra fjárheimilda allra sviða nema velferðarsviðs vill undirritaður taka fram eftirfarandi:
Eins og fram kom í tölvupósti undirritaðs til bæjarfulltrúa fyrir fundi bæjarráðs með sviðsstjórum og formönnum nefnda og ráða dagana 7. og 14. nóvember sl. var þar verið að kynna tillögur stjórnenda Reykjanesbæjar að skiptingu þeirra fjárhagsramma, sem bæjarráð hafði þegar samþykkt, niður á einstök verkefni og málaflokka. Í flestum tilfellum var það skoðun stjórnenda að rammarnir væru of þröngir og að þörf væri fyrir frekari fjárheimildir en um leið tekið fram að menn gerðu sér grein fyrir að slíkt væri óraunhæft í því ástandi sem nú ríkir. Reyndar samþykkti svo bæjarráð rýmri ramma fyrir velferðarsvið og fræðslusvið í kjölfar þessara funda en önnur svið ekki.
Fyrir fundina kom fram að stjórnendur væru búnir að velta við hverjum steini og treystu sér ekki til að leggja fram áætlanir sem gerðu ráð fyrir lægri útgjöldum. Að þeirra mati væri það ekki hægt nema að skerða þjónustu og það væri ákvörðun sem bæjarstjórn þyrfti að taka. Um leið var þess óskað að bæjarfulltrúar kæmu að málinu og hjálpuðu til við að finna eða leggja til leiðir til hagræðingar þar sem stjórnendur væru komnir á leiðarenda í þeim efnum. Slíkum tillögum þyrftu að fylgja útfærðar tillögur hvar ætti að hagræða og hvernig.
Er skemmst frá að segja að engar slíkar tillögur hafa borist frá bæjarfulltrúum eftir þessa kynningarfundi fyrr en áðurnefnd bókun var lögð fram í bæjarstjórn Reykjanesbæjar sl. þriðjudag, 1. des. Einnig vakti athygli undirritaðs að aðeins bárust fyrirspurnir til frekari glöggvunar frá 2 bæjarfulltrúum eftir fundina 7. og 14. nóv. sl. og var þeim svarað eins fljótt og hægt var. Ekki voru gerðar athugasemdir né frekari spurningar sendar né heldur bárust tillögur til hagræðingar eða skerðingar fjárframlaga eða þjónustu. Af því mátti ráða að bæjarfulltrúar hefðu fengið greinargóðar upplýsingar og hefðu skýra mynd af stöðunni.
Að þessu sögðu óska ég, fyrir hönd stjórnenda, eftir útfærðum tillögum bæjarfulltrúa Miðflokksins um hvar og hvernig hún sér fyrir sér að hægt sé að hagræða eða draga saman í rekstri. Í því skyni væri til dæmis gott að fá svar við eftirfarandi spurningum:
1. Í hvaða þáttum starfsemi Reykjanesbæjar sér bæjarfulltrúinn fyrir sér að hægt sé að hagræða?
2. Ef launum, þá hvernig? Með launaskerðingu, skertu starfshlutfalli eða uppsögnum?
3. Ef öðrum kostnaði, þá hvar? Í innkaupum aðfanga, aðkeyptri þjónustu, ólögboðnum verkefnum? Hverjum? Almenningssamgöngum, rekstri íþróttamannvirkja, menningarhúsa, tónlistarskóla, leikskóla? Annari starfsemi?“
Virðingarfyllst,
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri
Margrét Þórarinsdóttir Miðflokki lagði fram eftirfarandi bókun:
„Í bókun minni á bæjarstjórnarfundi þann 1. desember sl. kom fram að forsendur fjárhagsáætlunar Reykjanesbæjar væru byggðar á þjóðhagsspá Hagstofunnar frá því í júní, eins og kemur fram á bls. 5 í „Forsendur og Markmið Fjárhagsáætlunar Reykjanesbæjar“. Efnahagshorfur frá þeim tíma hafa versnað og birti Hagstofan nýja spá þann 1. október sl. Mikilvægt er að fjárhagsáætlun taki mið af nýjustu spám um hagvöxt og atvinnuleysi, það gerir hún ekki. Nauðsynlegt er því að uppfæra fjárhagsáætlunina miðað við réttar forsendur. Auk þess er mikilvægt að horfa til spár Seðlabankans sem kom út 1. nóvember síðast liðinn, en sú spá er dekkri en spá Hagstofunnar. Árið 2021 gerir Hagstofan ráð fyrir 3,9 % hagvexti en Seðlabankinn gerir ráð fyrir 2,3% hagvexti. Hvað atvinnuleysið varðar þá gerir Hagstofan ráð fyrir að það verði 6,8% á landsvísu en Seðlabankinn gerir ráð fyrir því að það verði 8,3%.
Hér í Reykjanesbæ er atvinnuleysið mun hærra og er það mikið áhyggjuefni. Meirihlutinn í Reykjanesbæ getur ekki sett fram fjárhagsáætlun sem byggð er á röngum forsendum um hagvöxt og atvinnuleysi, það gefur ekki rétta mynd af áætluðum tekjum og gjöldum sveitarfélagsins. Þá talaði ég fyrir mikilvægi þess að fá í þeirri vinnu sem fram undan er sviðmyndargreiningar með tilliti til hagvaxtar og atvinnuleysis. Nauðsynlegt er að hægræða í rekstri bæjarins vegna mikils samdráttar í tekjum og aukinna útgjalda sem einkum eru rakin til veirufaraldursins. Ég lagði því til að hagrætt yrði í stjórnsýslunni sem hefur blásið út í tíð þessa meirihluta. Gerð er því tillögum um 10% hagræðingu í stjórnsýslu bæjarins að velferðarsviði undanskildu. Það má öllum vera fullljóst að þegar talað er um hagræðingu í stjórnsýslunni/bákninu þá er ekki átt við lögbundna þjónustu og grunnþjónustu.
Bæjarfulltrúi Beinnar leiðar Guðbrandur Einarsson kaus að rangtúlka bókun mína frá bæjarstjórnarfundinum og fór hann með ósannindi í grein sinni á visir.is í gær. Þetta eru óheiðarleg vinnubrögð. Það kom skýrt fram í tillögu minni á bæjarstjórnarfundinum að sparnaðurinn myndi ekki ná til Velferðarsviðs. Það má öllum vera ljóst að sparnaðartillögur mínar ná ekki til starfsemi grunnskóla og leikskóla enda er rekstur skólanna hluti af þjónustu sem sveitarfélagið verður að veita samkvæmt lögum. Það er kaldhæðnislegt að oddviti sem situr í meirihluta í sveitarfélagi sem er ný komið undan Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga skuli bera sig saman við Reykjavíkurborg þar sem fjármálin eru öll í molum. Þessi greinarskrif dæma sig sjálf og voru í besta falli gerð til þess að beina athyglinni að þeirri staðreynd að fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 er ekki byggð á nýjustu spám um hagvöxt og atvinnuleysi þeirra opinberu aðila sem að framan er greint. Sú staðreynd er mikill álitshnekkur fyrir meirihlutann.“
Margrét Þórarinsdóttir, Miðflokki.
Friðjón Einarsson formaður bæjarráðs ítrekar ósk sína um að bæjarfulltrúar leggi fram nákvæmari tillögur um niðurskurð í rekstri bæjarfélagsins og á þann veg að hægt sé að vinna með þær niður á bókhaldslykla.
5. Samstarf sveitarfélaga um stafræna þróun (2019110248)
Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri kynnti verkefnið. Óskað er eftir samþykki um kostnaðarþátttöku sveitarfélaga vegna samstarfs um stafræna þróun.
Bæjarráð samþykkir erindið að upphæð kr. 2.821.739 og vísar því til fjárhagsáætlunargerðar 2021.
Fylgigögn:
Kynning á fjármögnun stafrænnar þróunar
6. Stytting vinnuvikunnar (2019100323)
Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri gerði grein fyrir erindi sem barst frá sviðsstjóra velferðarsviðs.
Bæjarráð samþykkir erindið og vísar því til fjárhagsáætlunargerðar 2021.
7. Starfsleyfi Kölku sorpeyðingarstöðvar sf. (2020110516)
Málinu frestað.
8. Málefni Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga (2020120016)
Margrét Þórarinsdóttir Miðflokki, fulltrúi í ráðgjafanefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga kynnti málið.
9. Fundargerð aðalfundar Samtaka orkusveitarfélaga 5. nóvember 2020 (2020100184)
Fundargerð aðalfundar Samtaka orkusveitarfélaga lögð fram.
Fylgigögn:
Fundargerð aðalfundar Samtaka orkusveitarfélaga 2020
10. Fundargerð Almannavarna Suðurnesja 27. nóvember 2020 (2020021373)
Fundargerðin lögð fram.
Fylgigögn:
Fundargerð almannavarna 27. nóvember 2020
11. Fundargerðir neyðarstjórnar (2020030192)
Með því að smella hér opnast fundargerðir neyðarstjórnar.
12. Umsagnarmál frá nefndasviði Alþingis (2020010375)
a. Frumvarp til laga um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum (markmið, áhættumat, sektir o.fl.), 311. mál
Með því að smella hér opnast frumvarpið.
b. Tillaga til þingsályktunar um bætta stjórnsýslu í umgengismálum, 104. mál
Með því að smella hér opnast þingsályktunartillagan.
c. Frumvarp til laga um opinberan stuðning við nýsköpun, 322. mál
Með því að smella hér opnast frumvarpið.
d. Frumvarp til laga um Tækniþróunarsjóð, 321. mál
Með því að smella hér opnast frumvarpið.
e. Tillaga til þingsályktunar um skákkennslu í grunnskólum, 106. mál
Með því að smella hér opnast þingsályktunartillagan.
f. Tillaga til þingsályktunar um félagsráðgjöf í grunn- og framhaldsskólum, 113. mál
Með því að smella hér opnast þingsályktunartillagan.https://www.althingi.is/altext/151/s/0114.html
Umsagnarmál lögð fram.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:00. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 15. desember 2020.