1319. fundur bæjarráðs Reykjanesbæjar, haldinn í Merkinesi, Hljómahöll 12. maí 2021, kl. 08:00
Viðstaddir: Friðjón Einarsson formaður, Baldur Þ. Guðmundsson, Díana Hilmarsdóttir, Guðbrandur Einarsson, Margrét Sanders, Margrét Þórarinsdóttir áheyrnarfulltrúi og Hrefna Gunnarsdóttir ritari.
1. Fótboltavöllur við Hringbraut - sæti í stúku (2021050145)
Hafþór B. Birgisson íþrótta- og tómstundafulltrúi mætti á fundinn. Lögð fram beiðni um umsögn vegna erindis knattspyrnudeildar Keflavíkur um kaup á nýjum sætum í stúkuna.
Bæjarráð samþykkir kr. 2.000.000 til kaupa á sætum, tekið af bókhaldslykli 21-011-9220. Bæjarráð telur rétt að sætin verði keypt í samráði við Kristin Jakobsson innkaupastjóra og Knattspyrnudeild Keflavíkur.
2. Njarðvíkurskóli – niðurstaða útboðs (2021040120)
Guðlaugur H. Sigurjónsson sviðsstjóri umhverfissviðs og Tryggvi Þór Bragason deildarstjóri eignaumsýslu mættu á fundinn og fóru yfir niðurstöðu útboðs vegna framkvæmda við starfsmannaaðstöðu Njarðvíkurskóla.
Bæjarráð samþykkir að ganga að lægra tilboði sem er 4,1% yfir kostnaðaráætlun. Bæjarráð felur sviðsstjóra umhverfissviðs að ganga frá samningum við Ístak.
Fylgigögn:
Starfsmannaaðstaða Njarðvikurskóla - Niðurstaða útboðs
3. Húsnæði Myllubakkaskóla (2021050174)
Guðlaugur H. Sigurjónsson sviðsstjóri umhverfissviðs og Tryggvi Þór Bragason deildarstjóri eignaumsýslu mættu á fundinn. Lagt fram bréf frá skólastjórnendum Myllubakkaskóla.
Bæjarráð felur sviðsstjóra umhverfissviðs og deildarstjóra eignaumsýslu að vinna áfram í málinu.
4. Samkomulag - aðgengismál fatlaðs fólks (2021050175)
Guðlaugur H. Sigurjónsson sviðsstjóri umhverfissviðs og Tryggvi Þór Bragason deildarstjóri eignaumsýslu mættu á fundinn.
Lögð fram til kynningar samstarfsyfirlýsing samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Öryrkjabandalags Íslands um aðgengismál fatlaðs fólks.
Margrét Þórarinsdóttir (M) lagði fram eftirfarandi bókun:
„Óska eftir því að umhverfissvið geri úttekt á aðgengi fatlaðra á þessu kjörtímabili og jafnframt hve miklu fé hefur verið varið í málaflokkinn.“
Margrét Þórarinsdóttir, Miðflokki.
Bæjarráð felur sviðsstjóra umhverfissviðs og deildarstjóra eignaumsýslu að taka saman gögn og leggja fyrir bæjarráð.
Fylgigögn:
Samkomulag - aðgengismál fatlaðs fólks - 05.05.21 til Sambandsins og ÖBÍ
5. Endurskoðunarskýrsla (2021040123)
Sturla Jónsson og Theodór S. Sigurbergsson frá Grant Thornton endurskoðun ehf. og Regína F. Guðmundsdóttir fjármálastjóri mættu á fundinn gegnum fjarfundabúnað og kynntu drög að endurskoðunarskýrslu vegna endurskoðunar ársreiknings Reykjanesbæjar fyrir árið 2020.
6. Ársreikningur 2020 (2021040123)
Drög að ársreikningi Reykjanesbæjar 2020.
7. Dagvistun barna undir 2 ½ árs aldri (2021050176)
Lagt fram minnisblað frá Ingibjörgu Hilmarsdóttur leikskólafulltrúa.
Margrét Þórarinsdóttir (M) bar fram eftirfarandi spurningar:
1. Hvað eru mörg börn á biðlista inn á leikskóla Reykjanesbæjar?
2. Hver er áætlaður biðtími barna inn á leikskóla?
3. Hver er aldur þeirra barna sem eru á biðlista?
4. Hver er aldurssamsetning barna í leikskóla Stapaskóla?
5. Hve margir dagforeldrar starfa í Reykjanesbæ?
6. Hve margir dagforeldar hafa hætt á sl. 2 árum?
7. Hver er framtíðarstefna Reykjanesbæjar varðandi dagforeldra en á sl. 2 árum virðist hafa verið flótti úr starfsgreininni.
Margrét Þórarinsdóttir, Miðflokki.
Bæjarráð óskar eftir að leikskólafulltrúi taki saman svör við framlögðum spurningum.
8. Fjölþætt heilsuefling fyrir einstaklinga sem lifa með offitu (2021050159)
Lögð fram beiðni um stuðning sveitarfélagsins við samstarfsverkefni Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og Janusar heilsueflingar vegna verkefnisins Fjölþætt heilsuefling fyrir einstaklinga sem lifa með sjúkdóminn offitu.
Bæjarráð fagnar því að slíkt verkefni fari í gang en telur eðlilegt að það sé á forræði ríkisins. Reykjanesbær er nú þegar með samstarfssamning við Janus heilsueflingu. Reykjanesbær er fyrsta sveitarfélagið sem hóf samstarf við fyrirtækið á sviði heilsueflingar. Erindinu er því hafnað.
Fylgigögn:
Beiðni um styrk til heilsueflingar
9. Fundargerð sögunefndar Keflavíkur 28. apríl 2021 (2019050831)
Fundargerð lögð fram.
Fylgigögn:
Sögunefnd Keflavík 1949 - 11. fundur 28. apríl 2021
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:00. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 18. maí 2021.