1455. fundur bæjarráðs Reykjanesbæjar, haldinn á Tjarnargötu 12, 15. febrúar 2024, kl. 08:15
Viðstaddir: Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir formaður, Bjarni Páll Tryggvason, Margrét A. Sanders, Sverrir Bergmann Magnússon og Valgerður Björk Pálsdóttir.
Að auki sátu fundinn Margrét Þórarinsdóttir áheyrnarfulltrúi, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Hrefna Gunnarsdóttir ritari.
Guðný Birna Guðmundsdóttir boðaði forföll, Sverrir Bergmann Magnússon sat fyrir hana.
1. HB64 – uppbygging í Helguvík-Bergvík (2023100396)
Bergný Jóna Sævarsdóttir sjálfbærnistjóri og Elín R. Guðnadóttir yfirverkefnastjóri frá Kadeco, Halldór Karl Hermannsson sviðsstjóri atvinnu- og hafnarsviðs og Margrét Lilja Margeirsdóttir verkefnastjóri skipulagsmála mættu á fundinn.
Kynnt var samstarfsverkefni Reykjanesbæjar, Suðurnesjabæjar og Kadeco um uppbyggingu á svæðinu upp af Helguvíkurhöfn.
Bæjarráð þakkar fyrir góða kynningu.
2. Hlíðarhverfi - uppbygging þriðja áfanga (2023010644)
Guðlaugur H. Sigurjónsson sviðsstjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs mætti á fundinn.
Lögð fram drög að viðauka við samning um uppbyggingu þriðja áfanga Hlíðarhverfis.
Bæjarráð felur Kjartani Má Kjartanssyni bæjarstjóra að undirrita samninginn með fyrirvara um staðfestingu bæjarstjórnar.
3. Listahátíð barna (2024010394)
Þórdís Ósk Helgadóttir sviðsstjóri menningar- og þjónustusviðs og Helga Þórsdóttir, safnstjóri Listasafns Reykjanesbæjar mættu á fundinn.
Lagt fram erindi um breytingu á fyrirkomulagi Listahátíðar barna sem mun efla þátttöku grunnskólanna í Reykjanesbæ listahátíðinni.
Bæjarráð lýsir yfir ánægju með erindið.
Fylgigögn:
Listahátíð barna 2024
4. Umsögn vegna rekstrarleyfis – Just Wingin It 12 ehf., Fitjar 2 (2024010489)
Erindi Sýslumannsins á Suðurnesjum vegna umsóknar um rekstrarleyfi í flokki II-C. Lagðar fram umsagnir byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar, Brunavarna Suðurnesja og Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja. Bæjarráð samþykkir umsóknina fyrir sitt leyti með vísan til fyrirliggjandi umsagna.
5. Fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga 26. janúar 2024 (2024010369)
Lögð fram til kynningar fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Fylgigögn:
Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga - 942
6. Fundargerð heilbrigðisnefndar Suðurnesja 7. febrúar 2024 (2024010176)
Lögð fram til kynningar fundargerð heilbrigðisnefndar Suðurnesja.
Fylgigögn:
HES-309. fundur 07.02.2024
7. Fundargerðir neyðarstjórnar 9., 10. og 11. febrúar 2024 (2024020134)
Lagðar fram til kynningar fundargerðir neyðarstjórnar.
Með því að smella hér opnast fundargerðir neyðarstjórnar.
Bókun bæjarráðs:
„Bæjarráð Reykjanesbæjar harmar þá stöðu sem kom upp í sveitarfélaginu í framhaldi af eldsumbrotum í Sundhnúkagíg þann 8. febrúar síðastliðinn, þrátt fyrir þær miklu forvarnir sem var búið að vinna að á svæðinu til að vernda mikilvæga innviði.
Í kjölfarið var neyðarstigi Almannavarna lýst yfir vegna skorts á heitu vatni og var því ekki aflétt fyrr en fimm sólarhringum síðar.
Efst í okkar huga er þakklæti til allra þeirra aðila af landinu öllu sem unnu að því að koma aftur á tengingum og lágmarka frekara tjón. Árangur sem þessi næst ekki nema með samstilltu átaki og þrotlausri vinnu.
Það er léttir að hvorki í atburðinum sjálfum né í aðgerðum í framhaldi af honum hafi orðið alvarleg slys á fólki, það skiptir mestu máli. Það er þó ljóst að tjón samfélagsins alls vegna afleiðinga eldsumbrotanna er mikið. Þó að ástand sé nú orðið stöðugt leggur bæjarráð Reykjanesbæjar ríka áherslu á að áfram verði unnið að því af fullum krafti að tryggja að viðlíka ástand skapist ekki aftur. Atburðurinn sýndi fram á að dekkstu sviðsmyndir geta raungerst.
Aðgerðir og samstaða íbúa, starfsfólks sveitarfélagsins og atvinnuveitenda í Reykjanesbæ skipti sköpum þegar koma að því að lágmarka frekara tjón og áhrif af atburðinum, fyrir það ber að þakka. Stuðningur hins opinbera, annarra sveitarfélaga og einkaaðila um land allt hafa ekki farið framhjá okkur, hann hefur verið ómetanlegur og veitt öllum á svæðinu hugarró og styrk.
Framundan eru fjölmörg verkefni sem þarf að leysa hratt og örugglega. Reykjanesbær mun sem talsmaður og hagsmunagæsluaðili íbúa svæðisins, vinna sleitulaust að framgangi þeirra þar til öruggt er að sjálfsagðir innviðir og þjónusta sé tiltæk og áreiðanleg og veikum hlekkjum útrýmt.
Í undirbúningi er boðun íbúafundar þar sem að aðgerðir sem nú þegar eru í framkvæmd verða kynntar sem og framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru.“
Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir (B), Bjarni Páll Tryggvason (B), Margrét A. Sanders (D), Sverrir Bergmann Magnússon (S), Margrét Þórarinsdóttir (U) og Valgerður Björk Pálsdóttir (Y).
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 9:45. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 20. febrúar 2024.