999. fundur

23.10.2014 13:02

999. fundur bæjarráðs Reykjanesbæjar haldinn 23. október 2014 að Tjarnargötu 12, kl: 09:00.

Mættir : Friðjón Einarsson formaður, Gunnar Þórarinsson aðalmaður, Árni Sigfússon aðalmaður, Böðvar Jónsson aðalmaður, Kristinn Þór Jakobsson áheyrnarfulltrúi,  Anna Lóa Ólafsdóttir varamaður, Kjartan M. Kjartansson bæjarstjóri og Hjörtur Zakaríasson fundarritari.

1. Skýrsla KPMG (2014030489)
Skýrslan verður lögð fram á fundinum

Skýrsla KPMG um fjárhagsstöðu og framtíðarhorfur bæjarsjóðs og samstæðu  Reykjanesbæjar lögð fram.
Ákveðið var samhljóða í tíð fyrrverandi bæjarstjórnar að vinna umrædda skýrslu og núverandi bæjarstjórn hefur unnið áfram í samræmi við það. Er því full samstaða um niðurstöður hennar.
Í skýrslunni eru settar fram tillögur að markmiðum  um aðgerðir í rekstri bæjarsjóðs, verkefnum sem snúa að B-hluta fyrirtækjum, áherslum í fjárfestingum og aðgerðum vegna efnahags. Bæjarráð  þakkar fyrir greinargóða og ítarlega skýrslu.

1) Bæjarráð samþykkir að fara í sérstaka aðgerðaráætlun í samræmi við tillögur KPMG.  Áætlunin beri nafnið "Sóknin".
Jafnframt er samþykkt að fram fari opinn kynningarfundur fyrir íbúa Reykjanesbæjar, fjölmiðla og aðra sem áhuga hafa á efni skýrslunnar. Fundurinn verði í Stapa, miðvikudaginn 29.október kl. 20:00 þar sem skýrsluhöfundar ásamt bæjarstjóra verði til svara um efni hennar.

2) Bæjarráð samþykkir yfirmarkmið sem snúa að rekstri og aukinni framlegð A-hluta bæjarsjóðs. Í því felst að ná fram a.m.k. 900 milljón króna aukinni framlegð í rekstri bæjarsjóðs á árinu 2015 og næstu ár þar á eftir. Til að byrja með verði markmiðinu náð með 500 milljón króna hagræðingu í rekstri sveitarfélagsins og 400 milljón króna auknum tekjum. Nánari útfærsla verður lögð fram á næstu vikum, í síðasta lagi í fjárhagsáætlun ársins 2015 í lok nóvember n.k.

3) Bæjarráð samþykkir að fram fari endurskoðun á skipulagi og skipuriti Reykjanesbæjar með það að markmiði að auka skilvirkni og hagræða í rekstri. Tillögur liggi fyrir eigi síðar en 1.febrúar 2015.

4) Bæjarráð samþykkir að unnin verði sérstök greining á launagreiðslum innan sveitarfélagsins, þ.m.t. greiðslum vegna yfirvinnu, bifreiðastyrkjum og öðrum greiðslum, sem eru utan kjarasamninga. Niðurstöður liggi fyrir sem fyrst, eigi síðar en 30.nóvember 2014.

5) Bæjarráð samþykkir tímabundið bann við nýráðningum starfsfólks innan bæjarskrifstofunnar og að reynt verði að manna lausar stöður með núverandi starfsfólki. Jafnframt verði ekki endurráðið í stöður undirstofnana nema með sérstöku samþykki bæjarráðs.


Skýrslan lýsir kröfu um aðgerðir án þess að vænst sé nýrra atvinnuverkefna sem ekki hafa nú þegar samninga að baki. Verði til ný atvinnuverkefni mun það styrkja fjárhagsstöðu bæjarins en bæjarráð er sammála um að það breyti ekki, á allra næstu misserum, þeim áformum sem hér eru sett fram.

Tímasetning helstu verkþátta lögð fram.

2. Fundargerð stjórnar Þekkingarseturs Suðurnesja 30/9´14 (2014040211)
Lagt fram.

3. Ósk um umsögn um frumvarp til laga um vegalög ( gjaldtaka af umferð o.fl., EES-reglur) (2014100282)
http://www.althingi.is/altext/144/s/0161.html

Lagt fram.

4. Ósk um umsögn um frumvarp til laga um framhaldsskóla (2014100281)
http://www.althingi.is/altext/144/s/0243.html

Lagt fram.

5. Beiðni um styrk vegna viðtala við elstu íbúa sveitarfélagsins (2014100047)
Bæjarráð getur ekki orðið við erindinu.

6. Kortlagning og kynning á þjóðhagslegum áhrifum Auðlindagarðsins (2014100247)
Bæjarráð tekur jákvætt í erindið.

7. Beiðni Hagstofu Íslands um athugasemdir við talningarsvæði vegna manntals 2011 (2014100245)
Bæjarráð hefur engar athugasemdir við talningarsvæðin.

8. Erindi Alþjóðlegrar kirkju Guðs og Embætti Jesú Krists varðandi Austurgötu 13 (2014100310)
Bæjarráð samþykkir erindið og felur bæjarstjóra málið.

9. Skipan í svæðisskipulagsnefnd Suðurnesja (2014100008)
Skipa þarf tvo fulltrúa og tvo til vara

Bæjarráð samþykkir að skipa Kjartan M. Kjartansson og Guðlaug Sigurjónsson fulltrúa Reykjanesbæjar.


10. 6. mál bæjarráðs 24/9´14 - skipan fulltrúa í Öldungaráð Suðurnesja (2014040416)
Skipa þarf tvo fulltrúa og tvo til vara

Bæjarráð samþykkir að tilnefna sem aðalfulltrúa  Davíð Pál Viðarsson og Hönnu B. Konráðsdóttur og til vara Guðnýju Birnu Guðmundsdóttur og Ásu Eyjólfsdóttur.

11. Tillaga að Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Garðs 2013-2030 (2014030389)
Lagt fram.

12. Erindi stjórnar Þroskahjálpar á Suðurnesjum v/húsnæðismál  (2014100197)
Bæjarráð er reiðubúið að standa við fyrri yfirlýsingu frá 29. ágúst 2013, en getur ekki orðið við erindinu eins og það er lagt  fram nú.

Fleira ekki gert og fundi slitið.
__________

Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 4. nóvember 2014.
Bæjarstjórn samþykkir fundargerðina 11-0.