651. fundur

04.04.2023 17:00

651. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, haldinn í Stapa, Hljómahöll 4. apríl 2023, kl. 17:00

Viðstaddir: Alexander Ragnarsson, Birgitta Rún Birgisdóttir Bjarni Páll Tryggvason, Díana Hilmarsdóttir, Friðjón Einarsson, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Helga Jóhanna Oddsdóttir, Hjörtur M. Guðbergsson, Margrét Þórarinsdóttir, Sverrir Bergmann Magnússon og Valgerður Björk Pálsdóttir. Í forsæti var Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir.

Að auki sat fundinn Hrefna Gunnarsdóttir ritari.

Guðný Birna Guðmundsdóttir boðaði forföll, Hjörtur M. Guðbergsson sat fyrir hana.
Margrét A. Sanders boðaði forföll, Alexander Ragnarsson sat fyrir hana.
Guðbergur Reynisson boðaði forföll, Birgitta Rún Birgisdóttir sat fyrir hann.

1. Fundargerðir bæjarráðs 23. og 30. mars 2023 (2023010005)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar.

Fundargerðirnar samþykktar 11-0 án umræðu.

Fylgigögn:

Fundargerð 1411. fundar bæjarráðs 23. mars 2023
Fundargerð 1412. fundar bæjarráðs 30. mars 2023

2. Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 31. mars 2023 (2023010014)

Forseti gaf orðið laust um eftirfarandi mál fundargerðarinnar frá 31. mars til sérstakrar samþykktar.

Fimmta mál fundargerðarinnar Hólagata 20 - breytt lóðamörk (2022100106) samþykkt 11-0 án umræðu.
Sjöunda mál fundargerðarinnar Víðidalur 19 - fyrirspurn um sólstofu (2023030506) samþykkt 11-0 án umræðu.
Tíunda mál fundargerðarinnar Háaleiti 15 - bílskúr (2023030410) samþykkt 11-0 án umræðu.

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Valgerður Björk Pálsdóttir.

Forseti leggur til að öðru máli fundargerðarinnar verði frestað. Var það samþykkt 11-0.

Fundargerðin samþykkt að öðru leyti 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 312. fundar umhverfis- og skipulagsráðs 31. mars 2023

3. Fundargerð lýðheilsuráðs 21. mars 2023 (2023010011)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Díana Hilmarsdóttir.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 36. fundar lýðheilsuráðs 21. mars 2023

4. Fundargerð velferðarráðs 22. mars 2023 (2023010015)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.

Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir og lagði fram eftirfarandi bókun:

2. mál frá fundargerð velferðarráðs frá 22. mars 2023:

„Síðastliðinn föstudag sat ég Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem málefni flóttafólks og hælisleitenda var á dagskrá. Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra var með framsögu og svaraði spurningum úr sal.

Eftirfarandi spurningar lagði ég fyrir ráðherra.

1. Frumvarpið sem var kynnt á vef Stjórnarráðsins um að heimila leigu á iðnaðar- og skrifstofuhúsnæði fyrir hælisleitendur. Hvers vegna var farið af stað án nokkurs samráðs við sveitarfélögin?

2. Nú hefur verið unnið að því að koma í veg fyrir að erlendir verkamenn séu hýstir í ólöglegu iðnaðarhúsnæði. Er þetta frumvarp ekki alveg þvert á það? Mun það ekki setja slæmt fordæmi?

3. Ef sveitarfélögin munu leggjast gegn frumvarpinu sem ég tel að þau muni gera, mun þá ríkisstjórnin draga það til baka? Með þessu frumvarpi er ríkisstjórnin að taka skipulagsvaldið af sveitarfélögum. Finnst ráðherra það eðlilegt?

Ráðherra brást illa við réttmætum spurningum mínum og athugasemdum sem íbúar hafa komið á framfæri við mig.
Við höfum séð að ráðuneytið hefur verið að taka blokk eftir blokk til leigu til að leigja undir hælisleitendur og þeir sem eru að missa leigusamninga sína á þessu ári fá ekki endurnýjun á samningi og eru sendir á götuna.

Mín skoðun er sú að ráðuneytið verði að falla frá þessum gjörningi sínum að reka fólk úr íbúðum sínum svo leigja megi hælisleitendum. Við sem samfélag getum ekki samþykkt slík vinnubrögð og verðum að standa fastar gegn stjórnvöldum.

Ég tel að ráðherra geri sér enga grein fyrir því hve staðan er alvarleg hér vegna mikils fjölda hælisleitenda. Hann lofaði að fækka þeim en hefur ekki staðið við það heldur þvert á móti þá fjölgar þeim. Í dag eru um 1000 manns í úrræðum ríkisins á Ásbrú sem samsvarar rúmlega 20% allra umsækjenda um alþjóðlega vernd á síðasta ári.

Ég ítreka það sem ég hef áður sagt hér og fjölmargir sem til þekkja hafa bent á að Reykjanesbær er löngu kominn að þolmörkum við móttöku flóttafólks. Við hér í Reykjanesbæ höfum svo sannarlega staðið okkur vel í móttöku flóttafólks. Við vorum frumkvöðlar og boðin og búin að aðstoða flóttafólk. Ríkisvaldið þakkar hins vegar fyrir sig með því að senda enn fleira flóttafólk til okkar án nokkurs samráðs, þrátt fyrir að sveitarfélagið sé komið langt yfir þolmörk. Ef þetta frumvarp sem mun heimila leigu á iðnaðar- og skrifstofuhúsnæði mun ganga í gegn þá er samfélagið okkar komið í ógöngur og við búin að missa tökin á þeim fjölda sem kemur hingað.“

Margrét Þórarinsdóttir, Umbót

Til máls tók Helga Jóhanna Oddsdóttir og lagði fram eftirfarandi bókun:

2. mál frá fundargerð velferðarráðs frá 22. mars 2023:

„Við bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hörmum þá stöðu sem upp er komin í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd og leggjum því fram þessa bókun. Í upphafi skal þess getið að gera verður greinarmun á umsækjendum um alþjóðlega vernd annars vegar og flóttafólki, sem fellur undir samning Reykjanesbæjar við ríkið um samræmda móttöku flóttafólks hins vegar.

Reykjanesbær hefur gert samning um samræmda móttöku flóttafólks. Sá samningur tekur til um 350 manns sem við tökum á móti, styðjum við aðlögun að samfélaginu og er markmiðið að minnka umfang samningsins á samningstímanum.

Reykjanesbær gerði fyrst samning um þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd árið 2004. Sá samningur hefur þróast í áranna rás og þeim sem þar falla undir fjölgað jafnt og þétt.

Þróun undanfarinna ára er þó í engum takti við þann fjölda sem nú hefur fengið húsnæði í sveitarfélaginu og telur yfir 1.000 manns og fer hratt fjölgandi. Þessi fjölmenni hópur fólks er í umsjá Vinnumálastofnunar og er okkur í Reykjanesbæ gert að hlíta einhliða ákvörðun stofnunarinnar um að útvega þessum fjölmenna hópi húsnæði í Reykjanesbæ með tilheyrandi áhrifum á innviði okkar og mannlíf.

Ekki hefur verið gerður samningur um þjónustu við þennan gífurlega fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd en um leið og Vinnumálastofnun hefur útvegað þeim hópi húsnæði, ber okkur skylda til að veita þeim ýmiss konar þjónustu og aðgengi að innviðum sveitarfélagsins. Enginn fyrirvari hefur verið gefinn um áform Vinnumálastofnunar um að setja hér í hús hátt í 1.000 manns og því erum við ávallt að bregðast við því að efla þjónustu okkar og innviði til að mæta þessari fjölgun, eftir á.

Áhrifin á íbúa sveitarfélagsins eru þegar orðin víðtæk. Nú síðast berast fréttir af því að leigusalar kjósa að leigja Vinnumálastofnun húsnæði frekar en íbúum sveitarfélagsins. Jafnvel virðist hagkvæmara að leggja niður rekstur hótels, segja öllu starfsfólki upp vinnunni og leigja ríkinu herbergin.

Á fundi með bæjarfulltrúum Reykjanesbæjar þann 21. mars sl. var Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra spurður spurningarinnar “hvers vegna setur Vinnumálastofnun allt þetta fólk í húsnæði í Reykjanesbæ?” Ráðherra svaraði því til að “það er svo mikið laust húsnæði í Reykjanesbæ”.

Við erum ekki viss um að það sé upplifun íbúa Reykjanesbæjar sem eru á leigumarkaði að hér sé allt fullt af lausu húsnæði. Sjálfsagt skal engan undra að húsnæði losni hratt og örugglega ef betra leiguverð býðst frá ríkinu. Þrátt fyrir stöðuga og mjög hraða fjölgun, er eina loforð ráðherra að byggt verði húsnæði fyrir þennan hóp og að það húsnæði verði ekki byggt í Reykjanesbæ.

Það er nokkuð ljóst að ríkisvaldið hefur engin úrræði önnur en að þiggja allt húsnæði sem býðst. Það verða þó að teljast í hæsta máta óeðlileg vinnubrögð ríkisstofnunar að yfirbjóða leigu á almennum markaði með þeim afleiðingum að fjölskyldur missa húsnæði sitt. Fjölskyldur sem hér hafa sest að, lagt sitt af mörkum til samfélagsins og séð fram á bjarta framtíð í Reykjanesbæ lenda á götunni. Hvar endar þetta?

Vantraust til ríkisins og Vinnumálastofnunar í þessum efnum er réttilega ríkjandi á meðal íbúa sveitarfélagsins í ljósi þess hvernig mál hafa þróast og þess samráðsleysis sem einkennt hefur aðgerðir Vinnumálastofnunar.

Reykjanesbær er komin langt yfir þolmörk hvað varðar fjölda, því er það skýlaus krafa okkar að ekki verði frekari fjölgun á húsnæði og fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd í Reykjanesbæ.

Við förum einnig fram á að okkur og íbúum sveitarfélagsins verði kynnt hvernig Vinnumálastofnun hyggst standast freistinguna að þiggja enn fleiri leigurými þegar þau standa til boða. Það er ljóst að á meðan eftirspurn er frá ríkinu, traustum greiðanda sem gerir leigusamninga til langs tíma og á hærra leiguverði, verður framboðið til staðar. Ábyrgðin á að tryggja jafnari dreifingu umsækjenda um alþjóðlega vernd á milli sveitarfélaga er ríkisins og við hana verður það að standa.“

Helga Jóhanna Oddsdóttir, Alexander Ragnarsson og Birgitta Rún Birgisdóttir Sjálfstæðisflokki.

Forseti gaf orðið laust. Til máls tóku Friðjón Einarsson, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Helga Jóhanna Oddsdóttir og Bjarni Páll Tryggvason

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 419. fundar velferðarráðs 22. mars 2023

5. Fundargerð stjórnar Reykjaneshafnar 23. mars 2023 (2023010013)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Hjörtur M. Guðbjartsson, Alexander Ragnarsson og Helga Jóhanna Oddsdóttir.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 272. fundar Stjórnar Reykjaneshafnar 23.03.23

6. Fundargerð menningar- og atvinnuráðs 28. mars 2023 (2023010012)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Sverrir Bergmann Magnússon og Birgitta Rún Birgisdóttir.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 42. fundar menningar- og atvinnuráðs 28. mars 2023

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:00.