673. fundur

02.04.2024 17:00

673. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, haldinn í Merkinesi, Hljómahöll, 2. apríl 2024, kl. 17:00

Viðstaddir: Bjarni Páll Tryggvason, Díana Hilmarsdóttir, Guðbergur Reynisson, Guðný Birna Guðmundsdóttir , Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Helga Jóhanna Oddsdóttir, Margrét A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir, Sigurrós Antonsdóttir, Sverrir Bergmann Magnússon og Valgerður Björk Pálsdóttir. Í forsæti var Guðný Birna Guðmundsdóttir.

Að auki sátu fundinn Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Hrefna Gunnarsdóttir ritari.

1. Fundargerðir bæjarráðs 21. og 27. mars 2024 (2024010003)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar. Til máls tók Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir.

Til máls tók Helga Jóhanna Oddsdóttir (D) og lagði fram eftirfarandi bókun:

Mál 4 frá fundargerð bæjarráðs 21. mars og mál 5 frá fundargerð bæjarráðs 27. mars:

„Sjálfstæðisflokkurinn situr hjá í máli er tengist ráðningu verkefnastjóra við flutning bókasafnsins í Hljómahöll í fundargerðum bæjarráðs frá 21. og 27. mars sl.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur áður lagt áherslu á að ekki sé tímabært að taka ákvörðun um flutninginn fyrr en heildarmynd er komin á áhrifin á aðrar stofnanir og starfsemi Hljómahallar auk kostnaðaráætlunar við verkefnið í heild sinni. Ljóst er að kostnaðurinn við verkefnastjórn eingöngu slagar hátt upp í þá áætlun sem sett var fram í skýrslu forseta bæjarstjórnar þar sem rökin fyrir ákvörðun meirihlutans komu fram.“

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Helga Jóhanna Oddsdóttir, Margrét Sanders og Guðbergur Reynisson.

Til máls tóku Margrét A. Sanders og Kjartan Már Kjartansson.

Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (U) og lagði fram eftirfarandi bókanir:

Mál 4 frá fundargerð bæjarráðs 21. mars:

„Mér finnst nokkuð sérstakt að bæjarstjóri skuli lýsa sig vanhæfan til frekari vinnu við undirbúning verkefnisins. Það blasir við að bæjarstjóri er ósáttur við þær breytingar sem búið er að samþykkja að verði gerðar á Rokksafninu og flutningi bókasafnsins. Ég hefði nú haldið að það teldist ekki vera vanhæfi þó menn væru ósammála.

Ég spyr því háttvirtan bæjarstjóra sem er ráðinn embættismaður, hyggst hann lýsa sig vanhæfan í öðrum málum sem meirihlutinn felur honum að framkvæma og hann er ósammála hugmyndafræðilega?

Það eitt að vera ósammála er ekki grundvöllur fyrir ráðinn embættismann að lýsa sig vanhæfan. Stundum þarf að taka erfiðar ákvarðanir og þær lúta oftar en ekki að því að draga úr kostnaði og skera niður útgjöld. Kannski á bæjarstjóri erfitt með að taka erfiðar ákvarðanir og vill komast hjá því að vera bendlaður við ákvarðanatöku sem er erfið, en engu að síður nauðsynleg. En þetta er nú bara hluti af því að vera bæjarstjóri.

Í ljósi framgreinds óskar Umbót eftir því að bæjarstjóri svari eftirfarandi: Hvernig rökstyður bæjarstjóri ákvörðun sína um að hann sé vanhæfur með tilliti til stjórnsýslulaga og sveitarstjórnarlaga? Nú er langt um liðið síðan bæjarstjóri var skólastjóri Tónlistarskólans og ekki er hægt að sjá hvernig það starf lýtur að þessari ákvörðun, þannig það er nú varla gild ástæða.

Bæjarstjóri veit nákvæmlega hvers vegna það er nauðsynlegt að færa bókasafnið. Ný staðsetning í húsnæði Hljómahallar er sú besta í stöðunni, auk þess sem hún er mjög miðsvæðis í bæjarfélaginu. Þetta snýst allt um kostnað. Nýtt bókasafn kostar margfalt það sem hér er lagt upp með.“

Mál 5 frá fundargerð bæjarráðs 21. mars:

„Ég tek undir bókun bæjarráðs og fagna þessum kjarasamningum. Reykjanesbær ætlar að taka mið af yfirlýsingu ríkis og sveitarfélaga sem felur í sér að halda aftur af hækkun gjaldskráa. Það sem er sérstaklega ánægjulegt við kjarasamningana er að skólamáltíðir verði gerðar gjaldfrjálsar. Gunnskólinn á að vera gjaldfrjáls og þar sem talið skólamáltíðir.

Undirrituð hefur ítrekað lagt fram fyrirspurnir, bókanir og tillögur varðandi gjaldfrjálsan eða niðurgreiddan skólamat fyrir fjölskyldur í Reykjanesbæ. Tillögum mínum hefur verið mætt af áhugaleysi en meirihlutinn hefur ítrekað fellt tillögur mínar um gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Hins vegar hefur árangur náðst um systkinaafslátt þegar kemur að 3ja barni og aukin niðurgreiðsla eftir fjölda barna. Með innleiðingu þessa þá þarf ég ekki að koma með fleiri tillögur um gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Nú verða öll börn jöfn og geta neytt matar í skólum Reykjanesbæjar óháð efnahag foreldra.“

Margrét Þórarinsdóttir, Umbót.

Til máls tók Guðbergur Reynisson (D) og lagði fram eftirfarandi bókun:

Mál 6 frá fundargerð bæjarráðs 21. mars:

„Sjálfstæðisflokkurinn leggur eins og oft áður áherslu á að haft sé samráð við notendur íþróttamannvirkjanna svo sem UMFN og aðra sem nýta munu aðstöðuna.“

Guðbergur Reynisson, Helga Jóhanna Oddsdóttir og Margrét Sanders bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks.

Til máls tók Guðný Birna Guðmundsdóttir.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks sitja hjá í 4. máli fundargerðar bæjarráðs frá 21. mars og 5. máli fundargerðar bæjarráðs frá 27.mars. Fundargerðirnar samþykktar að öðru leyti 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 1459. fundar bæjarráðs 21. mars 2024
Fundargerð 1460. fundar bæjarráðs 27. mars 2024

2. Fundargerð atvinnu- og hafnarráðs 21. mars 2024 (2024010206)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Guðný Birna Guðmundsdóttir.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 284. fundar atvinnu- og hafnarráðs 21.03.24

3. Fundargerð stjórnar Eignasjóðs 21. mars 2024 (2024010212)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Margrét Þórarinsdóttir og Guðný Birna Guðmundsdóttir.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 8. fundar stjórnar Eignasjóðs 21. mars 2024

4. Fundargerð menningar- og þjónusturáðs 22. mars 2024 (2024010209)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Sverrir Bergmann Magnússon.

Til máls tók Guðbergur Reynisson (D) og lagði fram eftirfarandi bókun:

Mál 3 frá fundargerð menningar- og þjónusturáðs 22. mars:

„Við Sjálfstæðismenn teljum ekki ráðlegt að ræða úrsögn úr Reykjanesfólkvangi á meðan óvissuástand ríkir í Grindavík."

Guðbergur Reynisson, Helga Jóhanna Oddsdóttir og Margrét Sanders bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks.

Til máls tóku Sverrir Bergmann Magnússon, Margrét A. Sanders, Kjartan Már Kjartansson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Bjarni Páll Tryggvason, Guðbergur Reynisson og Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks sitja hjá í 3. máli fundargerðar menningar- og þjónusturáðs frá 22. mars. Fundargerðin samþykkt að öðru leyti 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 53. fundar menningar- og þjónusturáðs 22. mars 2024

5. Fundargerð sjálfbærniráðs 27. mars 2024 (2024010210)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Guðný Birna Guðmundsdóttir.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 49. fundar sjálfbærniráðs 27. mars 2024

6. Vefstefna Reykjanesbæjar - fyrri umræða (2023060380)

Sverrir Bergmann Magnússon fylgdi vefstefnu Reykjanesbæjar úr hlaði.

Forseti gaf orðið laust. Enginn fundarmanna tók til máls.

Vefstefnu Reykjanesbæjar vísað til seinni umræðu í bæjarstjórn 16. apríl 2024.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:15.