674. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, haldinn í Merkinesi, Hljómahöll, 16. apríl 2024, kl. 17:00
Viðstaddir: Bjarni Páll Tryggvason, Díana Hilmarsdóttir, Guðbergur Reynisson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Helga Jóhanna Oddsdóttir, Margrét A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir, Sigurrós Antonsdóttir, Sverrir Bergmann Magnússon og Valgerður Björk Pálsdóttir. Í forsæti var Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Að auki sátu fundinn Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Hrefna Gunnarsdóttir ritari.
1. Fundargerðir bæjarráðs 4. og 11. apríl 2024 (2024010003)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar. Til máls tóku Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Valgerður Björk Pálsdóttir, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Bjarni Páll Tryggvason og Kjartan Már Kjartansson.
Fundargerðirnar samþykktar 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 1461. fundar bæjarráðs 4. apríl 2024
Fundargerð 1462. fundar bæjarráðs 11. apríl 2024
2. Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 5. apríl 2024 (2024010213)
Forseti gaf orðið laust um eftirfarandi mál fundargerðarinnar frá 5. apríl til sérstakrar samþykktar.
Annað mál fundargerðarinnar drög að Bílastæðasjóð - umsagnir (2022100414) samþykkt 11-0 án umræðu.
Fjórða mál fundargerðarinnar Leirdalur 7-9 - fjölgun íbúða á lóð (2024040037) samþykkt 11-0 án umræðu.
Fimmta mál fundargerðarinnar Faxabraut 7 - fyrirspurn um hækkun á þaki (2024030067) samþykkt 11-0 án umræðu.
Sjötta mál fundargerðarinnar Brekadalur 69 - fyrirspurn um staðsetningu bílskúrs (2024030290) samþykkt 11-0 án umræðu.
Sjöunda mál fundargerðarinnar Birkiteigur 1 (2024040039) samþykkt 11-0 án umræðu.
Ellefta mál fundargerðarinnar drög að Fráveitusamþykkt Reykjanesbæjar (2024030272) samþykkt 11-0 án umræðu.
Forseti gaf orðið laust. Til máls tók Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Fundargerðin samþykkt að öðru leyti 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 335. fundar umhverfis- og skipulagsráðs 5. apríl 2024
3. Fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs 9. apríl 2024 (2024010207)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Valgerður Björk Pálsdóttir, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Bjarni Páll Tryggvason og Kjartan Már Kjartansson.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 181. fundar íþrótta- og tómstundaráðs 9. apríl 2024
4. Fundargerð lýðheilsuráðs 9. apríl 2024 (2024010208)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 47. fundar lýðheilsuráðs 9. apríl 2024
5. Fundargerð velferðarráðs 11. apríl 2024 (2024010214)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Sigurrós Antonsdóttir og Díana Hilmarsdóttir.
Til máls tók Margrét A. Sanders (D) og lagði fram eftirfarandi bókun:
Mál 4 frá fundargerð velferðarráðs 11. apríl:
„Sjálfstæðisflokkurinn samþykkir ekki samning við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið um samræmda móttöku 250 flóttamanna. Ástæðan er eftirfarandi:
1. Samningurinn gildir frá 1. janúar 2024 og það fjármagn sem greiða á stendur ekki undir þeim kostnaði sem fallið hefur á Reykjanesbæ.
2. Síðasti samningur gerði ráð fyrir að flóttamönnum í samræmdri móttöku myndi vera fækkað í 150 fyrir árslok 2023. Það gekk ekki eftir.
3. Enn eru umsækjendur um alþjóðlega vernd allt of margir í Reykjanesbæ og hefur illa tekist að fækka þeim.
Auk þessara 250 sem nú skal samið um, voru þann 31. desember 2023 1.119 hælisleitendur (umsækjendur um alþjóðlega vernd) að auki í Reykjanesbæ.
Sjálfstæðisflokkurinn harmar að álagið vegna flóttafólks valdi því að þjónusta sveitarfélagsins við bæjarbúa, þar með þau 33% íbúa sem eru af erlendu bergi brotin, sé ekki betri en raun ber vitni. Sveitarfélagið er komið langt yfir þolmörk. Hælisleitendum í Reykjanesbæ verður að fækka.“
Margrét Sanders, Guðbergur Reynisson og Helga Jóhanna Oddsdóttir bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins
Til máls tók Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (U) og lagði fram eftirfarandi bókanir:
Mál 2 frá fundargerð velferðarráðs 11. apríl:
„Ég er sammála velferðarráði og tek undir með að brýn þörf er fyrir fjölnota þjónustuúrræði fyrir fötluð börn og ungmenni. Það er mjög mikilvægt að fötluð börn njóti sambærilegra lífsgæða og aðrir þjóðfélagsþegnar.
Ég tek undir með velferðarráði að mikilvægt er að koma á starfshópi sem á að greina og skoða möguleika á hentugu húsnæði undir þetta brýna verkefni.
Velferðarráð leggur til að skoða þann möguleika að Hlévangur verði skoðaður með það að leiðarljósi að breyta húsnæði sem hentar fjölnota þjónustuúrræð fyrir fötluð börn ásamt því að kostnaðargreina þær breytingar.
Þegar ég las þetta þá rak ég upp stór augu þar sem að væntanlega verður Hlévangi ekki lokað á næstunni.
Nýtt hjúkrunarheimili mun ekki geta tekið við íbúum Hlévangs. Heilbrigðisráðherra er búinn að gefa út að Reykjanesbær fær 30 rými á nýja hjúkrunarheimilinu sem er í byggingu en ekki 60 eins og til stóð. Í ljósi þeirra eldsumbrota sem hafa átt sér stað í Grindavík munu Grindvíkingar fá 30 rými.
Nú þegar eru 33 einstaklingar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja að bíða eftir að komast inn á hjúkrunarheimili og annar eins fjöldi á biðlista. Ég spyr því meirihlutann hvort að hann telji að það sé raunhæft að skoða Hlévang fyrir þetta brýna verkefni?“
Mál 4 frá fundargerð velferðarráðs 11. apríl:
„Enn og aftur ætlar meirihluti Framsóknar, Samfylkingar og Beinnar leiðar að gera nýjan samning við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið um samræmda móttöku flóttafólks. Ég hef áður gagnrýnt þessi áform meirihlutans.
Rétt er að rifja upp reynsluna af fyrri þjónustusamningi og allt samráðsleysið við Reykjanesbæ, ef meirihlutinn er búinn að gleyma því.
Framsóknarflokkur, Samfylking og Bein leið sáu sig knúin til að gera síðasta samning til þess að endurheimta hluta af þeim fjármunum sem sveitarfélagið hafði lagt til vegna mikils fjölda flóttafólks á svæðinu. Það var talið nauðsynlegt og því var haldið fram að Reykjanesbær myndi ekki þurfa að greiða með samningnum. Það reyndist ekki rétt. Reykjanesbær þurfti að greiða með síðasta samningi, sem rann út um áramótin.
Það er greinilegt að meirihlutinn ætlar að halda þessari vegferð áfram í andstöðu við mikinn meirihluta íbúa. Þessi samningur gildir í sex mánuði og mun Reykjanesbær skuldbinda sig til að taka á mót allt að 250 einstaklingum, fjölskyldum og pörum. Þegar síðasti samningur var samþykktur var hann samþykktur með þeim fyrirvara að gerð yrði viljayfirlýsing um fækkun flóttafólks í bænum. Fækka átti í samræmdri móttöku flóttafólks úr 350 einstaklingum niður í 150 fyrir árslok árið 2023 þegar samningnum lyki. Við þann samning var ekki staðið af hálfu ríkisins og í árslok 2023 voru 264 einstaklingar í samræmdri móttöku flóttafólks. Fækkunin var því einungis 86 einstaklingar í stað 150.
Það er greinilegt að meirihlutinn ætlar að láta eins og ekkert hafi í skorist og samþykkja þennan nýja samning þrátt fyrir að loforð ríkisins, sem voru skrifuð í samninginn gengu ekki eftir.
Það verður áhugavert að sjá þegar þessum nýja samningi lýkur, hve mikið fé Reykjanesbær hefur þurft að greiða með samningnum.
Það er miður hvað meirihlutinn er í litlu sambandi við íbúa bæjarfélagsins og vilja þeirra í þessu máli. Meirihlutinn virðist heldur ekki skilja að nú þurfa önnur sveitarfélög að taka þennan bolta.
Við erum löngu komin langt yfir þolmörk. Enn og aftur vil ég minna meirihlutann á að kannanir hafa sýnt að allt að 85% íbúa á Suðurnesjum telja að fækki beri hælisleitendum á svæðinu.
Á það ber okkur að hlusta.
Á það hlusta ég og segi því nei.
Ég mun samþykkja fundargerð velferðarráðs en segja nei við endurnýjun á samningnum.“
Margrét Þórarinsdóttir, Umbót
Margrét Þórarinsdóttir (U) bar upp tillögu um að samþykkt velferðarráðs í fjórða máli fundargerðarinnar að alþjóðateymi og ráðgjafar- og virkniteymi velferðarsviðs Reykjanesbæjar verði sameinuð verði vísað til bæjarráðs til frekari umræðu.
Tillagan felld með 7 atkvæðum meirihlutans.
Til máls tóku Sigurrós Antonsdóttir, Helga Jóhanna Oddsdóttir, Bjarni Páll Tryggvason, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Valgerður Björk Pálsdóttir, Kjartan Már Kjartansson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Margrét Þórarinsdóttir, Margrét A. Sanders og Guðbergur Reynisson.
Margrét Þórarinsdóttir (U), Margrét A. Sanders (D), Guðbergur Reynisson (D) og Helga Jóhanna Oddsdóttir (D) greiða atkvæði á móti endurnýjun þjónustusamnings um samræmda móttöku flóttafólks frá fjórða máli fundargerðarinnar. Fundargerðin samþykkt að öðru leyti 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 431. fundar velferðarráðs 11. apríl 2024
6. Fundargerð menntaráðs 12. apríl 2024 (2024010202)
Áður en orðið var gefið laust um fundargerðina bar forseti fram tillögu í máli þrjú, Endurbætur á skólalóðum grunnskóla. Þar er farið yfir vinnu starfshóps um endurbætur á skólalóðum, gert er ráð fyrir 60 milljónum í verkefnið í ár. Í glærusýningu kemur fram að ákveðið hefur verið að fara af stað í ár með verkefnið í Akurskóla og Njarðvíkurskóla. Forseti hefur fengið ábendingar um að skólalóðin við Háaleitisskóla sé illa farin og leggur því fram þá tillögu að vísa viðkomandi lið til bæjarráðs til frekari rýningar og upplýsingaöflunar. Samþykkt 11-0.
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Sverrir Bergmann Magnússon.
Fundargerðin samþykkt að öðru leyti 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 373. fundar menntaráðs 12. apríl 2024
7. Flutningur Bókasafns Reykjanesbæjar - svar við fyrirspurn (2022110463)
Forseti gaf orðið laust. Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri tók til máls og gaf svör við fyrirspurn sem Margrét Þórarinsdóttir bæjarfulltrúi Umbótar lagði fram á síðasta bæjarstjórnarfundi 2. apríl 2024.
“Á síðasta fundi bæjarstjórnar þ. 2. apríl sl. lagði Margrét Þórarinsdóttir, bæjarfulltrúi Umbótar, fram bókun um skoðun sína á því að ég hafi lýst mig vanhæfan til frekari aðkomu að fyrirhuguðum flutningi bókasafnsins í Hljómahöll. Í bókuninni beindi hún m.a. til mín eftirfarandi spurningu:
Spurning Margrétar Þórarinsdóttur:
Hvernig rökstyður bæjarstjóri ákvörðun sína um að hann sé vanhæfur með tilliti til stjórnsýslulaga og sveitarstjórnarlaga?
Svar Kjartan Más Kjartanssonar:
Í almennri hæfisreglu sveitarstjórnarréttar samkvæmt 2. mgr. 20 gr. sveitarstjórnarlaga felst að starfsmanni sveitarfélags ber að víkja sæti við meðferð máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt megi ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af.
Almennt þegar starfsmaður eða nefndarmaður telur huglæga viljaafstöðu sína til máls vera með þeim hætti að draga megi hæfi viðkomandi með réttu í efa verður almennt að leggja til grundvallar að slík huglæg afstaða sæti ekki endurskoðun annarra.
Þegar um slíkar matskenndar hæfisreglur er að ræða verður jafnframt að hafa í huga að tilgangur þeirra er að tryggja að ákvarðanir og ráðstafanir stjórnvalda séu þannig að fyrirbyggja að starfsmaður fjalli um mál þar sem með réttu megi efast um óhlutdrægni viðkomandi.
Í ljósi langra og ríkra tengsla undirritaðs og fjölskyldu hans við starfsemi tónlistarskólans, baráttu fyrir aðstöðu skólans og að lokum aðkomu að stofnun Rokksafns Íslands og stjórnarformennsku þegar safninu var komið á koppinn, var það mat undirritaðs að þau tengsl væru með þeim hætti að almennt mætti ætla að viljaafstaða mótaðist af því.
Með vísan til þess, vandaðra stjórnsýsluhátta og að síðustu þannig að enginn vafi væri til staðar um ákvarðanir og ráðstafanir Reykjanesbæjar í kjölfarið vegna þessa mikilvæga máls, taldi undirritaður að rétt væri að víkja sæti í málinu, með vísan til þeirra sjónarmiða sem liggja að baki matskenndri hæfisreglu 2. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga.“
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri.
Forseti gaf orðið laust. Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir.
8. Breyting á skipan fulltrúa í atvinnu- og hafnarráði (2024010091)
Úlfar Guðmundsson fer út sem aðalmaður í atvinnu- og hafnarráði, Jón Már Sverrisson tekur sæti hans.
Jón Már Sverrisson fer út sem varamaður í atvinnu- og hafnarráði, Gunnar Felix Rúnarsson tekur sæti hans.
Forseti bar upp tillögu um að fresta afgreiðslu um breytingu á skipan í atvinnu- og hafnarráði til næsta bæjarstjórnarfundar 7. maí og var það samþykkt 11-0.
9. Samþykkt um bílastæðasjóð Reykjanesbæjar - fyrri umræða (2022100414)
Guðný Birna Guðmundsdóttir fylgdi samþykktinni úr hlaði. Til máls tóku Margrét A. Sanders og Sigurrós Antonsdóttir.
Samþykkt um bílastæðasjóð Reykjanesbæjar vísað til seinni umræðu í bæjarstjórn 7. maí 2024.
10. Fráveitusamþykkt Reykjanesbæjar - fyrri umræða (2024030272)
Guðný Birna Guðmundsdóttir fylgdi samþykktinni úr hlaði. Til máls tók Helga Jóhanna Oddsdóttir
Fráveitusamþykkt Reykjanesbæjar vísað til seinni umræðu í bæjarstjórn 7. maí 2024.
11. Ársreikningur Reykjanesbæjar 2023 – fyrri umræða (2024040127)
Kjartan Már Kjartansson fylgdi ársreikningi Reykjanesbæjar 2023 úr hlaði.
Ársreikningi Reykjanesbæjar vísað til seinni umræðu í bæjarstjórn 7. maí 2024.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19:40.