677. fundur

04.06.2024 17:00

677. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, haldinn í Merkinesi, Hljómahöll, 4. júní 2024, kl. 17:00

Viðstaddir: Guðbergur Reynisson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Helga Jóhanna Oddsdóttir, Hjörtur M. Guðbjartsson, Margrét A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir, Róbert Jóhann Guðmundsson, Sverrir Bergmann Magnússon, Trausti Arngrímsson og Valgerður Björk Pálsdóttir. Í forsæti var Guðný Birna Guðmundsdóttir.

Að auki sátu fundinn Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Hrefna Gunnarsdóttir ritari.

Bjarni Páll Tryggvason boðaði forföll, Róbert Jóhann Guðmundsson sat fyrir hann.
Díana Hilmarsdóttir boðaði forföll, Trausti Arngrímsson sat fyrir hana.
Sigurrós Antonsdóttir boðaði forföll, Hjörtur M. Guðbjartsson sat fyrir hana.

Samþykkt 11-0 að færa bæjarstjórnarfund sem á að vera 18. júní fram til 11. júní.

1. Fundargerðir bæjarráðs 23. og 30. maí 2024 (2024010003)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar. Til máls tóku Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Helga Jóhanna Oddsdóttir, Hjörtur M. Guðbjartsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Kjartan Már Kjartansson, Margrét A. Sanders, Valgerður Björk Pálsdóttir.

Hjörtur M. Guðbjartsson greiðir ekki atkvæði í níunda máli fundargerðar bæjarráðs frá 30. maí 2024.

Fundargerðirnar samþykktar að öðru leyti 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 1468. fundar bæjarráðs 23. maí 2024
Fundargerð 1469. fundar bæjarráðs 30. maí 2024

2. Fundargerð stjórnar Eignasjóðs 16. maí 2024 (2024010212)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir og Guðný Birna Guðmundsdóttir.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 10. fundar stjórnar Eignasjóðs 16. maí 2024

3. Fundargerð sjálfbærniráðs 22. maí 2024 (2024010210)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Guðný Birna Guðmundsdóttir.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 51. fundar sjálfbærniráðs 22. maí 2024

4. Fundargerð atvinnu- og hafnarráðs 23. maí 2024 (2024010206)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Hjörtur M. Guðbjartsson.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 286. fundar atvinnu- og hafnarráðs 23.05.24

5. Fundargerð menntaráðs 24. maí 2024 (2024010202)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Sverrir Bergmann Magnússon, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Guðbergur Reynisson, Margrét A. Sanders, Valgerður Björk Pálsdóttir og Margrét Þórarinsdóttir.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 374. fundar menntaráðs 24. maí 2024

6. Samþykkt um gjaldtöku innviða- og byggingarréttargjalds í Reykjanesbæ – síðari umræða (2024010545)

Guðný Birna Guðmundsdóttir fylgdi málinu úr hlaði. Forseti gaf síðan orðið laust um samþykkt um gjaldtöku innviða- og byggingarréttargjalds í Reykjanesbæ.

Til máls tók Margrét A. Sanders (D) og lagði fram eftirfarandi bókun:

„Sjálfstæðisflokkurinn leggst ekki gegn því að lagt verði á gjald vegna innviða og byggingarréttar í Reykjanesbæ en gerir hér grein fyrir ákvörðun sinni og forsendum að baki.

Í bókun bæjarráðs um álagningu innviða- og byggingarréttargjalds og fjárfestingarþörf sveitarfélagsins, þann 16. maí síðastliðinn segir m.a. „Það er alveg ljóst að þrátt fyrir að rekstur sveitarfélagsins gangi smám saman betur mun veltufé frá rekstri úr grunnstarfsemi A-hluta bæjarsjóðs ekki duga til að standa straum af slíkum fjárfestingum“. Þarna er vísað til fjárfestinga í nýjum leik-og grunnskólum, íþróttamannvirkjum, menningarhúsum og margvíslegum úrræðum á vegum félagsþjónustunnar svo eitthvað sé nefnt.

Við Sjálfstæðismenn þekkjum vel að Reykjanesbær hefur lengi glímt við áskoranir vegna mikillar fjölgunar íbúa og uppbyggingu innviða sem sú fólksfjölgun hefur krafist. Á árunum 2004-2013 nam fjölgun íbúa í sveitarfélaginu til dæmis hátt í 33% og á árunum 2014 - 2023 fjölgaði enn um 48%. Það er því ljóst að fyrirhyggja Sjálfstæðisflokksins í uppbyggingu innviða hefur komið sér vel fyrir núverandi meirihluta, en nú þarf að grípa til aðgerða.

Skuldaviðmið sveitarfélagsins árið 2009, eftir fjármálahrunið, var 396,5% og náði meirihluti Sjálfstæðisflokks skuldaviðmiðinu niður um 168 prósentustig á fimm árum, frá árinu 2010 til ársins 2014. Þetta tókst á sama tíma og ráðist var í mikla uppbyggingu innviða, svo sem við gatnagerð í Dalshverfi 2, byggingu Hljómahallar, Nesvalla, íþróttamannvirkja o.m.fl. Vinstri meirihluti Samfylkingar, Framsóknar og Beinnar leiðar hefur lækkað skuldaviðmiðið á síðastliðnum 10 árum, frá árinu 2014, um 140 prósentustig með mikilli hækkun skatta og fasteignagjalda, á sama tíma og meirihlutinn frestaði uppbyggingu innviða eða hélt henni í lágmarki. Innviðir sem þegar voru til staðar þegar meirihlutinn tók við árið 2014, hafa fyrir löngu verið nýttir til fulls og jafnvel lokað eða þeir nýttir í öðrum tilgangi en upphaflega var ætlað. Þannig hefur meirihlutanum tekist að koma í veg fyrir nýframkvæmdir í innviðum sem nú skella á okkur af fullum þunga.

Þrátt fyrir að tekjur bæjarsjóðs hafi aukist um 15 milljarða á ári og samstæðunnar um yfir 20 milljarða síðustu tíu ár, hafa skuldir haldið áfram að hækka að krónutölu. Þá fékk sveitarfélagið háar upphæðir úr svokölluðum Magmabréfum, marga milljarða umfram skráð verðmæti þeirra, sem þó dugði ekki til lækkunar skulda en skýrir það að hægt var að byggja Stapaskóla án lánsfjár framan af.

Ljóst er að þrátt fyrir mikla árlega tekjuaukningu bæjarsjóðs, dugar hún ekki til að standa straum af uppbyggingu innviða, frekar en áður, án þess að auka þurfi skuldsetningu sveitarfélagsins.

Sjálfstæðisflokkurinn styður því þessar aðgerðir sem styðja við lausn þeirra áskorana sem framundan eru.

Ef Reykjanesbær ætlar að vera eftirsóttur kostur til búsetu, bjóða uppá góða þjónustu við íbúa, til dæmis leikskóla fyrir börn frá 18 mánaða aldri, byggja grunnskóla, byggja upp íþróttaaðstöðu, styðja við öfluga menningu í sveitarfélaginu og svo mætti lengi telja, þarf að leita öflugri leiða til að sveitarfélagið geti verið sjálfbært til lengri tíma. Mikilvægast er að efla atvinnulíf á svæðinu, auka tekjur enn meira með fjölgun vel launaðra starfa og þannig draga úr hækkun skatta og gjalda á einstaklinga og atvinnulíf.“

Margrét Sanders, Guðbergur Reynisson og Helga Jóhanna Oddsdóttir Sjálfstæðisflokki.

Forseti gerði fundarhlé kl. 18:41.
Fundur aftur settur kl. 19:12

Til máls tók Guðný Birna Guðmundsdóttir (S) og lagði fram eftirfarandi bókun:

„Nú liggur fyrir samþykkt um innviða- og byggingarréttargjöld til samþykkis í fyrsta skipti hjá Reykjanesbæ.

Ástæðan fyrir því að Reykjanesbær er að leggja þetta mál fyrir núna og mikilvægi þess fyrir sveitarfélagið er vegna þeirrar miklu og hröðu uppbyggingar sem hefur átt sér stað undanfarin ár en einnig vegna þeirrar uppbyggingar sem mun eiga sér stað á næstu áratugum. Fólksfjölgun í Reykjanesbæ og á Suðurnesjum ár hvert hefur verið gríðarleg undanfarin ár en íbúar Reykjanesbæjar voru 14.907 í mars árið 2015 en eru í mars 2024, níu árum síðar, orðnir 23.388 sem er 57% fjölgun á níu árum eða fjölgun um 8.481 íbúa.

Öll þessi hraða fjölgun kallar á öfluga uppbyggingu innviða líkt og leik- og grunnskóla en einnig hjúkrunarheimilis, frístundaúrræð, menningartengda starfsemi o.s.frv. Ljóst er að við þurfum sem sveitarfélag að fá auknar tekjur til að standa undir þessari miklu uppbyggingu sem gert er ráð fyrir að verði um 50-60 milljarðar á næstu 10 árum. Fá ef einhver sveitarfélög eru þess megnug að standa undir slíkri stækkun, hvað þá á þessum mikla hraða.

Varðandi atriði sem komu fram í bókun Sjálfstæðisflokksins vill meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar árétta eftirfarandi:

• Sagt var frá mikilvægi uppbyggingar innviða Sjálfstæðisflokksins fyrir 10-20 árum. Þessir innviðir voru mjög dýrir og ótímabærir þar sem hverfið var ekki risið og kostaði okkur mjög mikið.
• Rætt var um skuldaviðmið og hversu vel Sjálfstæðisflokkurinn hafi staðið sig í að koma viðmiðinu niður en það er alveg skýrt að þegar skipt var um meirihluta í bæjarstjórn Reykjanesbæjar var skuldahlutfallið tæp 244% árið 2014 en er í dag 121%. Við tókum við sveitarfélagi í fjárhagskröggum og að segja í opinberri bókun að við höfum verið að fresta innviða uppbyggingu og komið í veg fyrir nýframkvæmdir í mörg ár er einfaldlega rétt þar sem við vorum á barmi gjaldþrots árið 2014.
• Veltufé frá rekstri hefur verið jákvætt mörg undanfarin ár hjá Reykjanesbæ sem segir til um hversu vel reksturinn stendur undir afborgunum af lánum og fjárfestingum.
• Þegar horft er til veltufé frá rekstri á hvern íbúa hefur það verið mest hjá Reykjanesbæ undanfarin 10 ár eða fór úr 18.948 kr. árið 2014 í 184.786 kr. árið 2023.
• Við höfum undanfarin 10 ár ávallt gætt þess að tekjur séu yfir gjöldum ásamt afgangi til framkvæmda til að lenda ekki aftur í þessum erfiðu fjárhagsaðstæðum.
• Við höfum á sama tíma lækkað álagningarhlutfall fasteignaskatts til að draga úr álögum á íbúa, sem er einn af tveimur tekjustofnum sveitarfélagsins.
• Á sama tíma höfum við leyst til okkar aftur allar eignir okkar af Fasteign, byggt skóla og leikskóla og ráðist í miklar úrbætur sem gríðarleg þörf var á í fasteignum sveitarfélagsins.

Innviða- og byggingarréttargjöld eru skynsamleg fyrir okkar sveitarfélag í uppbyggingu til framtíðar og er í samræmi við það sem önnur sveitarfélög hafa gert.

Við þurfum að vera sjálfbær í rekstri til framtíðar og það erum við að gera með þessari samþykkt.“

Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir(B), Róbert Jóhann Guðmundsson (B), Trausti Arngrímsson (B), Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Hjörtur M. Guðbjartsson (S), Sverrir Bergmann Magnússon (S), og Valgerður Björk Pálsdóttir (Y).

Til máls tóku Margrét A. Sanders, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Guðný Birna Guðmundsdóttir og Margrét Þórarinsdóttir.

Samþykkt um gjaldtöku innviða- og byggingarréttargjalds í Reykjanesbæ samþykkt 11-0.

7. Samþykkt um meðhöndlun úrgangs nr. 426/2005 úrsögn- fyrri umræða (2024050512)

Guðný Birna Guðmundsdóttir fylgdi málinu úr hlaði. Enginn fundarmanna tók til máls.

Samþykkt um meðhöndlun úrgangs nr. 426/2005 úrsögn vísað til seinni umræðu í bæjarstjórn 11. júní 2024.

8. Samþykkt um meðhöndlun úrgangs - fyrri umræða (2023110265)

Guðný Birna Guðmundsdóttir fylgdi málinu úr hlaði. Enginn fundarmanna tók til máls.

Samþykkt um meðhöndlun úrgangs vísað til seinni umræðu í bæjarstjórn 11. júní 2024.

9. Húsnæðisáætlun Reykjanesbæjar 2024 – fyrri umræða (2023100145)

Guðný Birna Guðmundsdóttir fylgdi málinu úr hlaði. Enginn fundarmanna tók til máls.

Húsnæðisáætlun Reykjanesbæjar 2024 vísað til seinni umræðu í bæjarstjórn 11. júní 2024.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19:35