694. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, haldinn í Stapa, Hljómahöll, 1. apríl 2025, kl. 17:00
Viðstaddir: Birgitta Rún Birgisdóttir, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Bjarni Páll Tryggvason, Díana Hilmarsdóttir, Guðbergur Reynisson, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Margrét A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir, Sigurrós Antonsdóttir, Sverrir Bergmann Magnússon og Valgerður Björk Pálsdóttir. Í forsæti var Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Að auki sat fundinn Hrefna Gunnarsdóttir ritari.
Helga Jóhanna Oddsdóttir boðaði forföll, Birgitta Rún Birgisdóttir sat fyrir hana.
1. Fundargerðir bæjarráðs 19. og 27. mars 2025 (2025010003)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar.
Til máls tók Guðný Birna Guðmundsdóttir (S) og las upp eftirfarandi bókun sem samþykkt var á fundi bæjarráðs 27. mars 2025:
„Bæjarráð Reykjanesbæjar fordæmir vinnubrögð mennta- og barnamálaráðuneytis (MRN) að liggja með erindi um endurnýjun á umsókn frá Keili um að verða viðurkenndur einkaskóli á framhaldsskólastigi í 20 vikur, enda er það ekki í samræmi við góða stjórnsýslu. Bæjarráð leggur mikla áherslu á að fjarnámshlaðborðið og opna stúdentsbrautin verði sem fyrst viðurkennd enda hefur verið unnið í samráði við ráðuneytið að endurskilgreina Keili og vinna að fjárhagslegum stöðugleika, og kemur það því verulega á óvart að MRN viðurkenni ekki Keili sem einkaskóla á framhaldsskólastigi.
Keilir miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs óskaði eftir endurnýjun á umsókn um að verða viðurkenndur einkaskóli á framhaldsskólastigi til menntamálaráðuneytis 12. nóvember 2024 og bíður enn endanlegra svara. Þann 16. desember barst svar frá mennta- og barnamálaráðuneyti þess efnis að umsókn Keilis sé synjað vegna rekstrarvanda Keilis síðustu ár og fjárhagsstaða Keilis sé slík að Keilir uppfylli ekki skilyrði sem lýtur að fjárhagsmálefnum og tryggingum. Þrátt fyrir að Keilir hafi sýnt fram á að Keilir sé rekstrarlega stöðugur, hefur ekki borist svar við endurmat á umsókn. Sjö vikur eru síðan óskað var eftir endurmati í ljósi breyttrar rekstrarstöðu og tæpar 20 vikur síðan upphafleg umsókn var send til MRN.
Samstarfssamningur varðandi háskólabrú var gerður við Háskóla Íslands til næstu 4 ára. Það nám fellur undir ráðuneyti menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytis. Bæjarráð Reykjanesbæjar fagnar þeim samningi og telur farsælt að vera í samstarfi við HÍ um þetta metnaðarfulla nám.
Bæjarráð Reykjanesbæjar skorar á ráðherra mennta- og barnamála og þingmenn Suðurkjördæmis að beita sér fyrir því að framtíð náms og námsframboðs á Suðurnesjum verði tryggt.“
Undir bókunina taka bæjarfulltrúarnir Birgitta Rún Birgisdóttir (D), Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Bjarni Páll Tryggvason (B), Díana Hilmarsdóttir (B), Guðbergur Reynisson (D), Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir (B), Margrét A. Sanders (D), Margrét Þórarinsdóttir (U), Sigurrós Antonsdóttir (S), Sverrir Bergmann Magnússon (S) og Valgerður Björk Pálsdóttir (Y).
Fundargerðirnar samþykktar 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 1508. fundar bæjarráðs 19. mars 2025
Fundargerð 1509. fundar bæjarráðs 27. mars 2025
2. Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 21. mars 2025 (2025010011)
Forseti gaf orðið laust um eftirfarandi mál fundargerðarinnar frá 21. mars til sérstakrar samþykktar.
Fimmta mál fundargerðarinnar Dalshverfi 1. og 2. áfangi - breyting á deiliskipulagi (2023080307).
Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (U) og lagði fram eftirfarandi bókun:
Mál 5 – Dalshverfi 1. og 2. áfangi – breyting á deiliskipulagi
„Ég vil byrja á því að fagna því að íbúafundur var haldinn og að tekið var mark á athugasemdum íbúa. Það er grundvallaratriði að allar breytingar sem snerta íbúa séu kynntar þeim og að þeir hafi tækifæri til að taka þátt í umræðunni og koma á framfæri skoðunum sínum. Þannig á íbúalýðræði að virka, og það er einmitt það sem við í Umbót höfum lagt áherslu á.
Við í Umbót vorum mótfallin þessum skipulagsbreytingum frá upphafi og höfum ítrekað lagt fram bókanir þar sem við höfum bent á mikilvægi þess að hafa virkt samráð við íbúa áður en endanlegar ákvarðanir eru teknar. Hefðum við einfaldlega samþykkt þessar breytingar í fyrstu, hefði þessi niðurstaða aldrei orðið að veruleika – íbúarnir hefðu ekki fengið tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri og gera athugasemdir.
Það er því jákvætt að meirihlutinn hafi loks hlustað á rök okkar og að haldinn hafi verið íbúafundur þar sem íbúarnir gátu tjáð sig um málið. Það er einnig ánægjulegt að sjá að íbúarnir eru í dag sáttari við niðurstöðuna, einmitt vegna þess að þeir fengu rödd sína heyrða og gátu haft áhrif á ákvörðunina.
Við í Umbót munum áfram standa vörð um íbúalýðræði og virkt samráð í skipulagsmálum, því það er lykilatriði í því að byggja upp samfélag þar sem raddir allra fá að heyrast og ákvarðanir eru teknar með hagsmuni íbúanna að leiðarljósi.“
Margrét Þórarinsdóttir, Umbót.
Til máls tóku Guðný Birna Guðmundsdóttir og Guðbergur Reynisson.
Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir og lagði fram eftirfarandi bókun:
„Ef meirihlutinn hefði alltaf ætlað sér að halda íbúafund, af hverju var hann þá ekki boðaður strax í upphafi. Það var ekki fyrr en við í Umbót settum fram okkar bókanir og sýndum andstöðu við málið að meirihlutinn tók málið til skoðunar og íbúafundur varð að veruleika. Orð bæjarfulltrúa Guðbergs Reynissonar, Sjálfstæðisflokki eru því ósönn en þar segir hann eftirfarandi „það var svo sem ekki út af neinum kvörtunum frá Umbót, sem neinum sérstökum umkvörtunum frá Umbót, sem við drógum þetta til baka“.
Það er vegna okkar aðkomu að þessi fundur varð að veruleika og það sýnir bara hversu mikilvægt það er að hafa sterka rödd sem stendur vörð um íbúalýðræði.
Við teljum að íbúafundir og samráð eigi að vera sjálfsögð og óaðskiljanlegur hluti af skipulagsferlinu, ekki eitthvað sem er samþykkt eftir á vegna þrýstings. Þess vegna munum við áfram leggja áherslu á að raddir íbúanna fái að heyrast í öllum málum er snerta þá.“
Margrét Þórarinsdóttir, Umbót
Fimmta mál fundargerðarinnar Dalshverfi 1. og 2. áfangi - breyting á deiliskipulagi (2023080307) samþykkt 11-0.
Sjötta mál fundargerðarinnar Breyting á aðalskipulagi AT12 (2019060056).
Til máls tók Guðný Birna Guðmundsdóttir. Sjötta mál fundargerðarinnar Breyting á aðalskipulagi AT12 (2019060056) samþykkt 11-0.
Sjöunda mál fundargerðarinnar Hafnargata 22-24 - breyting á deiliskipulagi (2019050478) samþykkt 11-0 án umræðu.
Áttunda mál fundargerðarinnar Hjallalaut 15 - ósk um lóðarstækkun (2024070531) samþykkt 11-0 án umræðu.
Níunda mál fundargerðarinnar Búningsaðstaða við Afreksbraut (2025030094) samþykkt 11-0 án umræðu.
Tíunda mál fundargerðarinnar Þjóðbraut 838 (2025010517) samþykkt 11-0 án umræðu.
Ellefta mál fundargerðarinnar Bragavellir 19 - niðurstaða grenndarkynningar (2025010317) samþykkt 11-0 án umræðu.
Tólfta mál fundargerðarinnar Tjarnabraut 38 - niðurstaða grenndarkynningar (2025010242) samþykkt 11-0 án umræðu.
Þrettánda mál fundargerðarinnar Hljómahöll- niðurstaða grenndarkynningar (2024110108) samþykkt 11-0 án umræðu.
Fjórtánda mál fundargerðarinnar Trölladalur 1, 3 og 5 (2025020048) samþykkt 11-0 án umræðu.
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Enginn fundarmanna tók til máls.
Fundargerðin samþykkt að öðru leyti 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 361. fundar umhverfis- og skipulagsráðs 21. mars 2025
3. Fundargerð atvinnu- og hafnarráðs 20. mars 2025 (2025010004)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Guðbergur Reynisson.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 295. fundar atvinnu- og hafnarráðs 20. mars 2025
4. Fundargerð sjálfbærniráðs 26. mars 2025 (2025010009)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 59. fundar sjálfbærniráðs 26. mars 2025
5. Fundargerð menningar- og þjónusturáðs 28. mars 2025 (2025010007)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Sverrir Bergmann Magnússon.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 63. fundar menningar- og þjónusturáðs 28. mars 2025
6. Húsnæðisáætlun Reykjanesbæjar 2025 – fyrri umræða (2025030033)
Guðný Birna Guðmundsdóttir fylgdi húsnæðisáætlun Reykjanesbæjar 2025 úr hlaði.
Forseti gaf orðið laust. Til máls tóku Margrét A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir, Bjarni Páll Tryggvason og Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Húsnæðisáætlun Reykjanesbæjar 2025 vísað til seinni umræðu í bæjarstjórn 15. apríl 2025.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17:45.