107. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjanesbæjar var haldinn 14. febrúar 2017 að Tjarnargötu 12 kl. 16:30.
Viðstaddir: Jón Haukur Hafsteinsson, Lovísa N. Hafsteinsdóttir formaður, Rúnar V. Arnarson, Steinunn Una Sigurðardóttir, Alexander Ragnarsson, Jóhann Páll Kristbjörnsson fulltrúi ÍRB, Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs og Hafþór Barði Birgisson íþrótta- og tómstundafulltrúi sem jafnframt ritaði fundargerð.
Gestur fundarins undir fyrsta máli var Hafsteinn Ingibergsson forstöðumaður íþróttamannvirkja.
1. Klæðaburður sundlaugargesta í sundlaugum Reykjanesbæjar (2017020171)
Íþrótta- og tómstundaráð Reykjanesbæjar óskaði eftir áliti óháðs lögmanns til að fjalla um tvær lykilspurningar;
1. Eru í gildi reglur, skráðar eða óskráðar, sem banna konum að fara berbrjósta í sundlaugar Reykjanesbæjar?
2. Er leyfilegt að setja slíkar reglur?
Álit lögmannsins er nokkuð ítarlegt en í niðurlagi álitsins mælir hann gegn því að settar verði reglur sem banni konum að fara berbrjósta í sund í sundlaugum Reykjanesbæjar.
ÍT ráð tekur undir þau orð og leggur til við bæjarstjórn að ekki verði farið gegn áliti lögmannsins.
2. Umsóknir í forvarnarsjóð Reykjanesbæjar (2015120240)
Heiðarskóli sækir um í forvarnarsjóð Reykjanesbæjar vegna Íslandsmóts Iðn- verkgreina og framhaldsskólakynningar 2017
Erindi hafnað - Íþrótta- og tómstundafulltrúa falið að skýra Heiðarskóla frá niðurstöðu ráðsins.
Sundráð ÍRB sækir um í forvarnarsjóð Reykjanesbæjar til að bjóða upp á fræðslu til sundmanna um kvíðastjórnun, neikvæðar hugsanir og að takast á við mistök og mótlæti. Fræðslan verður í höndum Hafrúnar Kristjánsdóttur sálfræðings.
ÍT ráð samþykkir erindi Sundráðs ÍRB. Íþrótta- og tómstundafulltrúa falið að ganga frá málinu.
3. Samningur við ÍRB vegna þjálfunar barna og ungmenna (2017020168)
Íþrótta- og tómstundafulltrúi upplýsti um nýja vinnureglu hjá skrifstofunni sem felst í að fá innkaupastjóra Reykjanesbæjar til að lesa yfir samninga sem ráðið gerir.
ÍT ráð gerir ekki athugasemdir við samninginn.
4. Frístundabíll í Reykjanesbæ (2017020108)
Erindi frá íbúa í Reykjanesbæ sem hvetur bæjaryfirvöld til að kanna möguleika á að frístundabíll verði tekinn í notkun að nýju í Reykjanesbæ. Fjöldi foreldra er í afar erfiðri stöðu að aka börnum sínum á íþróttaæfingar og í tómstundaiðkun á vinnutíma.
ÍT ráð tekur undir erindið. Fræðslustjóri upplýsti um vinnuhóp sem er að fara hefja störf um Frístundaskóla og verður þessi hugmynd skoðuð nánar þar.
5. Umsókn um aukið rými fyrir Sundráð ÍRB (2016060064)
Íþrótta- og tómstundafulltrúi skýrði frá vinnufundum með sundráði ÍRB og fulltrúa USK. Málið er í jákvæðum farvegi.
6. Beiðni um aukna lýsingu við sparkvöll Myllubakkaskóla (2017020183)
Unglingaráð Knattspyrnudeildar Keflavíkur óskar eftir aukinni lýsingu við sparkvöllinn við Myllubakkaskóla til að völlurinn nýtist deildinni á þeim tímum sem völlurinn er frátekinn undir þeirra starf.
Íþrótta- og tómstundafulltrúa falið að vinna að lausn málsins í samráði við Svein Björnsson hjá Umhverfissviði.
7. Aðstaða Pílufélags Reykjanesbæjar (2016080411)
Pílufélag Reykjanesbæjar óskar eftir að kannaður verði möguleiki á því að félagið fái að nýta þann hluta af húsnæði sem Hæfingarstöðin á Ásbrú er ekki að nota. Félagið er tilbúið að vinna að verkinu í sjálfboðaliðastarfi, en þó er ljóst að ekki verði komist hjá því að fá liðsinni fagmanna s.s. rafvirkja og pípulagningamanna.
ÍT ráð hefur ekki auka fjármagn á fjárhagsáætlun til að aðstoða í þessu verkefni. Ráðið er þó sammála því að þessi hugmynd sé í anda þeirrar stefnu sem unnið er eftir þ.e. að almenna reglan sé sú að ekki sé tekið á leigu eða keypt ný húsnæði – heldur nýtt þau sem Reykjanesbær á nú þegar. ÍT ráð vísar erindinu til bæjarráðs Reykjanesbæjar.
8. Drög að reglum um styrkveitingu ef að félög vinna Íslands- og eða bikarmeistaratitla (2017020195)
Reglugerð og vinnureglur íþróttasjóðs yfirfarnar. Það er mat ráðsins að skýra þurfi betur hvernig styrkveitingu sé háttað þegar Íslands- og eða bikarmeistaratitlar vinnast. Skrifstofu íþrótta- og tómstundamála falið að yfirfara reglur og reglugerð.
9. Drög að fjölmenningarstefnu Reykjanesbæjar (2014010845)
Drög að fjölmenningarstefnu Reykjanesbæjar lögð fram.
ÍT ráð gerir ekki athugasemdir við drögin.
10. Önnur mál
a) ÍT ráð óskar meistaraflokki og 10. flokki kvenna í körfuknattleik hjá Keflavík innilega til hamingju með bikarmeistaratitlana um síðastliðna helgi.
b) Málþing um rafrettur verður haldið á sal Fjölbrautaskóla Suðurnesja mánudaginn 13. mars kl 17.00. Læknarnir Guðmundur Karl Snæbjörnsson og Lára G Sigurðardóttir munu halda erindi um málefni sem er afar heitt þessa dagana. Málþingið er skipulagt af Samtökum félagsmiðstöðva á Suðurnesjum og FS.
c) Vanda Sigurgeirsdóttir mun fjalla um einelti og afleiðingar 16. febrúar kl 20.00 í Akademíunni. Stjórn foreldrafélaganna í Reykjanesbæ skipulögðu fyrirlesturinn.
d) Hafsteinn Ingibergsson forstöðumaður íþróttamannvirkja upplýsti ráðið um að Sundmiðstöðin verði opin í sumar til kl 22.00 mánudaga- til fimmtudaga og til 20.00 á föstudögum. Óbreyttur opnunartími verður um helgar en gert er ráð fyrir að gestir hafi yfirgefið sundlaugina kl 18.00.
ÍT ráð fagnar auknum opnunartíma.
Fleira ekki gert og fundi slitið. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 21. febrúar 2017.