122. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 4. september 2018 kl. 16:30.
Viðstaddir: Eva Stefánsdóttir formaður, Jón Haukur Hafsteinsson, Birgir Már Bragason, Alexander Ragnarsson, Brynjar Freyr Garðarsson, Rúnar V. Arnarson formaður ÍRB og Hafþór Barði Birgisson íþrótta- og tómstundafulltrúi sem jafnframt ritaði fundargerð.
Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs boðaði forföll.
Gestir fundarins:
Undir máli númer tvö: Gunnar Eyjólfsson formaður hestamannafélagsins Mána og Pétur Bragason meðstjórnandi.
Undir máli númer þrjú, fjögur og fimm: Einar Haraldsson formaður og framkvæmdastjóri Keflavíkur, íþrótta- og ungmennafélags, Þórður Magni Kjartansson gjaldkeri Keflavíkur, íþrótta- og ungmennafélags, Jónas Guðni Sævarsson framkvæmdastjóri og Jóhann Birnir Guðmundsson yfirþjálfari knattspyrnudeildar Keflavíkur
Birgir Már Bragason situr hjá undir máli þrjú, fjögur og fimm.
1. Kosning varaformanns og ritara (2018080503)
Tillaga kom um Evu Stefánsdóttur sem formann íþrótta- og tómstundaráðs og var hún réttkjörin. Stungið var upp á Jóni Hauki Hafsteinssyni sem varaformanni íþrótta- og tómstundaráðs og var hann réttkjörinn. Stungið var upp á Birgi Má Bragasyni sem ritara og var hann réttkjörinn.
2. Hestamannafélagið Máni (2018080507)
Gunnar Eyjólfsson og Pétur Bragason kynntu starfsemi hestamannafélagsins Mána og fóru yfir hugmyndir félagsins um samstarfssamning við Reykjanesbæ.
ÍT ráð þakkar greinargóða kynningu og vísar hugmyndum um samstarfssamning við Reykjanesbæ til fjárhagsáætlunarvinnu ÍT ráðs fyrir árið 2019. Ráðið óskar eftir að fá nánari hugmyndir sendar sem allra fyrst.
3. Beiðni um stöðugildi innan Keflavíkur, íþrótta- og ungmennafélags (2018080491)
ÍT ráð er meðvitað um aukið umfang og rekstrarkröfur og fagnar því að Keflavík, íþrótta- og ungmennafélag sé vel rekið. Íþrótta- og tómstundaráð óskar eftir að fá sem fyrst nánari lýsingu á hver verkefni nýs starfsmanns ættu að vera og áætlaðan kostnað vegna þessa.
Erindinu vísað til fjárhagsáætlunarvinnu fyrir árið 2019.
4. Nýr gervigrasvöllur vestan Reykjaneshallar (2018020005)
Bréf undirritað af Leifi Gunnlaugssyni framkvæmdastjóra knattspyrnudeildar Ungmennafélags Njarðvíkur og Einari Haraldssyni formanni Keflavíkur, íþrótta- og ungmennafélags lagt fram.
Í niðurlagi bréfsins kemur fram orðrétt: ,,Nú leggja Keflavík og Njarðvík ofuráherslu á að nýr gervigrasvöllur verði gerður vestan við Reykjaneshöll sem allra fyrst sem nýtist bæði sem æfingar- og keppnisvöllur fyrir bæði Keflavík og Njarðvík.“
ÍT ráð tekur undir hugmyndir forsvarsmanna Keflavíkur og Njarðvíkur um að nauðsynlegt sé að huga að því sem allra fyrst að útbúa nýjan gervigrasvöll og er sammála því að staðsetning vestan Reykjaneshallar geti verið heppilegur kostur. ÍT ráð leggur til að farið verði í heildarstefnumótun í málaflokknum sem fyrst.
Erindinu vísað til fjárhagsáætlunarvinnu fyrir árið 2019.
5. Beiðni um kaup á tímum í Sporthúsinu fyrir Keflavík (2018080506)
Erindi frá knattspyrnudeild Keflavíkur um aðstoð við að leigja knattspyrnuvöll í Sporthúsinu. ÍT ráð hefur ekki fjármagn til að verða við þessari beiðni en hefur fullan skilning á nauðsyn þess að kaupa tíma í Sporthúsinu. Erindinu vísað í bæjarráð.
6. Umsókn í forvarnarsjóð (2018010081)
Umsókn frá Hæfileikasmiðjunni (Rakel Hámundardóttir og Hólmfríður Sævarsdóttir) um styrk til efniskostnaðar vegna námskeiða sem fóru fram á þeirra vegum í sumar.
ÍT ráð samþykkir að styrkja um 100.000 kr.
7. Beiðni um rekstrarstyrk fyrir Júdódeild UMFN (2018060201)
ÍT ráð getur ekki orðið við beiðninni en minnir á að að ÍT ráð er að útbúa nýja aðstöðu og endurnýja búnað fyrir Júdódeild UMFN.
8. Beiðni um rekstrarstyrk til Sundráðs ÍRB (2018050449)
ÍT ráð getur ekki orðið við beiðninni en minnir á að að ÍT ráð í samvinnu við USK ráð bjó til nýja aðstöðu undir landæfingar og er að hefja vinnu við að endurnýja búnað fyrir Sundráð ÍRB.
9. Niðurstöður starfshóps ráðherra um #metoo (2018080500)
Lagt fram til kynningar.
10. Hugmyndir að nýju útisvæði í sundmiðstöð (2018080509)
Lagt fram til kynningar.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:40. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 18. september 2018.