145. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjanesbæjar, fjarfundur haldinn þann 16. desember 2020 kl. 16.30
Viðstaddir: Eva Stefánsdóttir, formaður, Birgitta Rún Birgisdóttir, Jón Haukur Hafsteinsson, Alexander Ragnarsson, Birgir Már Bragason, Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs og Hafþór Barði Birgisson íþrótta- og tómstundafulltrúi sem jafnframt ritaði fundargerð. Guðbergur Reynisson formaður ÍRB boðaði forföll.
1. Samningur við ÍRB um greiðsluþátttöku vegna íþróttaþjálfunar barna og ungmenna 2021 (2020120184)
Samningurinn lagður fram og samþykktur.
2. Samstarfssamningur við Keflavík, íþrótta og ungmennafélag 2021 (2020120199)
Samningurinn lagður fram og samþykktur.
3. Samstarfssamningur við UMFN 2021 (2020120200)
Samningurinn lagður fram og samþykktur.
4. Áskorun um að gera hjólabrettapall í Innri Njarðvíkurhverfi (2020110436)
Erindi Gests Páls Auðunssonar nemanda í 3. bekk í Akurskóla um að kannað verði hvort möguleiki sé á að búa til hjólabrettapall í Innri Njarðvíkurhverfi.
Erindið er stílað á Kjartan Má Kjartansson bæjarstjóra Reykjanesbæjar sem óskaði eftir umsögn íþrótta- og tómstundaráðs.
ÍT ráð þakkar Gesti Páli fyrir erindið og leggur til að það verði skoðað í væntanlegum starfshópi um skólalóðir í Reykjanesbæ.
Fylgigögn:
Hjólabrettapall í Innri-Njarðvík - erindi
5. Íþróttamaður ársins í Reykjanesbæ (2020120186)
Stjórnir Keflavíkur, UMFN og ÍRB hafa tekið ákvörðun um að velja ekki íþróttamann ársins í ár vegna þess ástands sem hefur ríkt á árinu sem er að líða. Þau sem unnu Íslandsmeistaratitil fá eigi að síður verðlaunapening frá Reykjanesbæ til minningar um afrekið.
Íþrótta- og tómstundaráð óskar öllu íþróttafólki innilega til hamingju með árangurinn sinn og vonar að nýtt íþróttaár verði gjöfult fyrir alla.
6. Ungmennaráð Reykjanesbæjar (2020120187)
Hafþór Birgisson íþrótta- og tómstundafulltrúi fór yfir fund ungmennaráðs með bæjarstjórn Reykjanesbæjar sem var afar ánægjulegur að vanda. Að auki stendur yfir mikilvæg vinna hjá Reykjanesbæ um innleiðingu barnasáttmálans, barnvæns samfélags og framundan er ungmennaþing sem verður haldið þegar óhætt verður að hittast.
Fylgigögn:
Fundargerð 19. fundar ungmennaráðs og bæjarstjórnar Reykjanesbæjar 17. nóvember 2020
Ungmennaráð Reykjanesbæjar 2020-2021
7. Nóra kerfið (2020090058)
Reykjanesbær hefur ákveðið að taka upp annað kerfi við útgreiðslu á hvatagreiðslum sveitarfélagsins.
Þær verða hækkaðar í 40.000 kr. á nýju ári. Hvatagreiðslum verður úthlutað „rafrænt“ í gegnum Nóra skráningarkerfið.
Í stuttu máli þá er helsta breytingin sú að greiðslan verður greidd mánaðarlega út til íþrótta- og tómstundafélaga í stað þess að greiðslan fari til foreldra líkt og núverandi kerfi segir til um. Þegar foreldri skráir barn til þátttöku í íþrótt eða tómstund þá þarf að tengjast Nóra kerfinu. Ef æfingagjald er t.d. 80.000 kr. fær foreldrið möguleika á að velja að nýta hvatagreiðslur og getur ráðstafað sjálft greiðslunni – ef foreldrið ákveður að nýta allan styrkinn þá lækkar í þessu dæmi talan sem eftirstöðvar eru um 40.000 kr. Þá fær foreldrið möguleika á að greiða eftirstöðvar með eingreiðslu eða setja í greiðsludreifingu.
Fylgigögn:
Nóra kerfið - upplýsingar til íþróttahreyfingar
8. Samþætting skólastarfs og íþrótta- og tómstundastarfs (2020010077)
Í fjárhagsramma íþrótta- og tómstundamála fyrir árið 2021 er gert ráð fyrir fjármagni til að setja í gang aukna þjónustu við foreldra/forráðamenn á frístundaheimilum í grunnskólum Reykjanesbæjar. Gerðar verða veigamiklar breytingar sem m.a. miða að því að taka upp frístundabíla sem munu aka nemendum í íþróttir og tómstundir á hefðbundnum vinnutíma foreldra.
Forsvarsfólk íþrótta- og tómstundahreyfingarinnar er hér með hvatt til að huga strax að undirbúningi og aðlaga æfingatöflur að breyttu fyrirkomulagi þar sem verkefnið fer af stað haustið 2021.
ÍT ráð þakkar starfshópnum fyrir vel unnin störf.
Fylgigögn:
Samþætting skólastarfs við íþrótta- og tómstundastarf - skýrsla starfshóps
9. Upplýsingar frá NES íþróttafélagi fatlaðra (2020060142)
Glærur frá NES íþróttafélagi fatlaðra skoðaðar. ÍT ráð þakkar fyrir góða kynningu.
Fylgigögn:
Nes, íþróttafélag fatlaðra á Suðurnesjum - kynning
10. Lykiltölur í lífi barna (2019110250)
Hafþór Birgisson íþrótta- og tómstundafulltrúi fór yfir lykiltölur í lífi barna. Í skýrslunni kemur m.a. fram að 25,3% nemenda hafa verið úti eftir miðnætti einu sinni eða oftar undanfarna viku, 13.3% nemenda líður illa í skólanum. Gleðilegu tölurnar eru þær að einungis 1% nemenda í 10. bekk höfðu neytt áfengis sl. 30 daga og að nánast allar vímuefnatölur hafa lækkað.
Ljóst er að íslenska forvarnarmódelið hefur skilað frábærum árangri á undanförnum árum og áratugum en mikilvægt er að minna á að hvergi má slaka á. Mikilvægt er að fagfólk Reykjanesbæjar, Samtakahópurinn, foreldrar og nemendur vinni saman áfram að því að bæta niðurstöður þannig að líðan barna okkar verði sem best til framtíðar litið.
Skýrsluna má kynna sér hér fyrir neðan.
ÍT ráð þakkar Hafþóri fyrir góða kynningu.
Fylgigögn:
Ungt fólk Reykjanesbær - niðurstöður rannsóknar meðal nemenda í 8., 9. og 10. bekk október 2020
Fleira ekki gert og fundi slitið 17:31. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 5. janúar 2021.