149. fundur

27.04.2021 16:30

149. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjanesbæjar, haldinn á bæjarskrifstofu Reykjanesbæjar, Tjarnargötu 12, þriðjudaginn 27. apríl kl. 16.30

Viðstaddir: Eva Stefánsdóttir formaður, Birgitta Rún Birgisdóttir, Birgir Már Bragason, Bjarni Sæmundsson, Jón Haukur Hafsteinsson.
Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs, Guðbergur Reynisson formaður ÍRB og Hafþór Birgisson íþrótta- og tómstundafulltrúi sem jafnframt ritaði fundargerð.

1. Viðhaldsáætlanir knattspyrnusvæða sumarið 2021 (2021040105)

Viðhaldsáætlanir knattspyrnudeilda UMFN og Keflavíkur lagðar fram og samþykktar.

2. Sundráð ÍRB - kynning á starfsemi (2020010206)

Hanna Björg Konráðsdóttir, Ómar Jóhannsson og Sigurrós Antonsdóttir kynntu starfsemi Sundráðs ÍRB. Í kynningunni kom fram sú tekjuskerðing sem Sundráðið hefur orðið fyrir á undanförnum árum.

Íþrótta- og tómstundaráð þakkar fyrir góða kynningu og felur íþrótta- og tómstundafulltrúa að vinna að lausnum til að bæta ráðinu upp tekjuskerðinguna.

3. Lengri opnunartími í sund (2021030215)

Íþrótta- og tómstundaráð Reykjanesbæjar hefur að undanförnu fengið fjölmargar áskoranir um að lengja opnunartímann í Sundmiðstöð Reykjanesbæjar. Á síðasta fundi ungmennaráðs Reykjanesbæjar vöktu þau einnig athygli á opnunartímanum.

Það gleður þ.a.l. íþrótta- og tómstundaráð að tilkynna aukinn opnunartíma frá og með 1. maí nk. að opnunartíminn verður frá 06:30 – 21:30 virka daga og frá 09:00 – 18:00 um helgar. Sami opnunartími verður á veturna sem þýðir lengri opnun um eina klukkustund virka daga og hálftíma um helgar.

Að auki er Hafsteini Ingibergssyni forstöðumanni íþróttamannvirkja falið að kanna hver kostnaðurinn myndi vera að auka opnunartímann enn frekar, þannig að hann samræmist opnunartíma hjá sambærilegum sveitarfélögum. Hafsteini er falið að skila tillögum þess efnis til íþrótta- og tómstundaráðs sem fyrst.

Fylgigögn:

Aukinn opnunartími í Vatnaveröld

4. Samþætting skólastarfs við íþrótta- og tómstundastarf (2020010077)

Frístundaakstur hefst þann 9. ágúst fyrir börn sem taka þátt í starfi frístundaheimila í Reykjanesbæ. Verkefnið verður auglýst er nær dregur. Íþrótta- og tómstundahreyfingin er vinsamlega beðin um að reyna skipuleggja starfsemi fyrir nemendur í 1. - 4. bekk þannig að þau ljúki sinni þátttöku á vinnutíma foreldra.

Fylgigögn:

Samþætting íþrótta- og tómstundastarfs við skólastarf

Samþætting íþrótta- og tómstundastarfs við skólastarf - mynd

5. Beiðni GS um hækkun á samningi um rekstur á púttvöllum Reykjanesbæjar (2021010212)

Erindi lagt fram. Ráðið tekur undir að samningurinn hafi ekki hækkað í takt við verðlagshækkanir undanfarinna ára.

Erindinu vísað til fjárhagsáætlunarvinnu fyrir árið 2022.

6. Sumar í Reykjanesbæ 2021 (2021010031)

Sumar í Reykjanesbæ 2021. Íþrótta- og tómstundaráð hvetur þau sem ætla að bjóða upp á sumarnámskeið eða önnur tómstundatilboð að skila inn efni og mynd sem allra fyrst á netfangið hafthor.birgisson@reykjanesbaer.is. Upplýsingarnar munu svo birtast á vefsíðunni fristundir.is

Fylgigögn:

Auglýsing sumar 2021

7. Borðtennisfélag Reykjanesbæjar (2021040093)

Erindi frá Borðtennisfélagi Reykjanesbæjar um afnot af gömlu slökkvistöðinni undir starfsemi félagsins. Hugmyndin er að félagið fái afnot af hluta af húsnæðinu tímabundið uns varanleg lausn finnst. Málið var á dagskrá á 1316. fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar sem fór fram 21. apríl sl. Bæjarráð vísaði málinu til frekari skoðunar íþrótta- og tómstundaráðs.

Íþrótta- og tómstundaráð leggur til að Borðtennisfélag Reykjanesbæjar fái tímabundið leyfi til að nýta aðstöðuna uns ákveðið verði hvað Reykjanesbær ætli að gera við húsnæðið til framtíðar litið.

Ráðið er hins vegar ekki með fjárheimildir til að ráðast í verkefnið en vonast til að bæjarráð geti sett fjármagn í verkefnið svo að það geti orðið að veruleika.

Fylgigögn:

Borðtennisfélag Reykjanesbæjar

Bréf frá formanni ÍRB

8. Vélhjólaíþróttafélag Reykjaness (2020110363)

Júlíus Ævarsson og Kristinn Kristinsson frá Vélhjólaíþróttafélagi Reykjaness kynntu starfsemi félagsins og beiðni um að gerður verði samningur við Vélhjólaíþróttafélagið.

Íþrótta- og tómstundaráð þakkar fyrir góða kynningu og vísar hugmyndum um samningagerð til fjárhagsáætlunarvinnu fyrir árið 2022.

Fylgigögn:

Kynning á VÍR fyrir ÍTR 2021

9. Beiðni um frítt í sund fyrir atvinnuleitendur (2021030215)

Erindi frá íbúa í Reykjanesbæ þar sem ráðið er hvatt til að veita atvinnuleitendum frítt í sund tímabundið.

Erindið var á dagskrá 148. fundar ÍT sem fór fram 9. mars sl.

ÍT ráð tók undir erindið og fól íþrótta- og tómstundafulltrúa að skoða málið nánar.

Mjög misjafnt er milli bæjarfélaga hvort boðið sé upp á frítt í sund fyrir atvinnuleitendur. Færa má veigamikil rök fyrir því í ljósi heimsfaraldurs og mikils atvinnuleysis á svæðinu að æskilegt sé að bjóða atvinnuleitendum í Reykjanesbæ frítt í sund tímabundið.

Tímabilið sem að íþrótta- og tómstundaráð leggur leggur til er 15. maí til 1. ágúst 2021, svo fremi sem samkomutakmarkanir hindri ekki framkvæmdina. Áætlaður kostnaður er 250.000 kr. og rúmast innan fjárheimilda íþrótta- og tómstundaráðs.

Um verður að ræða samstarf við Vinnumálastofnun og hefur íþrótta- og tómstundafulltrúi átt fund með forstöðumanni stofnunarinnar. Atvinnuleitendur munu geta nálgast staðfestingarblað þar og framvísað í vatnaveröld og þurfa að greiða 1.000 kr. og fá frítt frá 15. maí til 1. ágúst nk.

Fylgigögn:

Beiðni um frítt í sund fyrir atvinnuleitendur


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18.30. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 4. maí 2021