166. fundur

20.12.2022 16:00

166. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjanesbæjar, haldinn að Tjarnargötu 12, 20. desember 2022, kl. 16:00

Viðstaddir: Friðþjófur Helgi Karlsson formaður, Birgir Már Bragason, Hjördís Baldursdóttir, Marta Sigurðardóttir, Sindri Kristinn Ólafsson.

Að auki sátu fundinn Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs, Rúnar Vífill Arnarson formaður íþróttabandalags Reykjanesbæjar og Hafþór Barði Birgisson íþrótta- og tómstundafulltrúi sem jafnframt ritaði fundargerð.

Hermann Borgar Jakobsson áheyrnarfulltrúi ungmennaráðs boðaði forföll.

1. Aðgengis- og öryggismál við Nettóhöllina og Fimleikaakademíuna (2022120237)

Erindi frá Keflavík íþrótta- og ungmennafélagi um beiðni um úrbætur á umferðinni við Nettóhöllina og Fimleikaakademíuna.

Íþrótta- og tómstundaráð tekur undir áhyggjur forsvarsfólks Keflavíkur íþrótta- og ungmennafélags um mikilvægi þess að umferðaröryggismál verði skoðuð og bætt sem allra fyrst.

Málinu vísað til umhverfis- og skipulagsráðs.

Fylgigögn:

Erindi til umhverfissviðs 

2. Fjárhags- og starfsáætlun 2023 (2022090478)

Hafþór Birgisson íþrótta- og tómstundafulltrúi sagði frá lykiltölum í fjárhagsáætlun íþrótta- og tómstundamála fyrir árið 2023.

Helstu áherslur og verkefni á árinu 2023 eru:

Hvatagreiðslur fyrir 4-5 ára börn verður í fyrsta sinn í boði á árinu 2023

Lokið verður við byggingu íþróttamiðstöðvar við Stapaskóla með viðurkenndum keppnisvelli fyrir íþróttir innanhúss ásamt sundlaug.

Nýr vaktturn í Sundmiðstöðinni til að auka öryggi sundlaugagesta

Ný sláttuvél verður keypt fyrir knattpsyrnudeildir UMFN og Keflavík og fimleikadýna fyrir fimleikadeild Keflavíkur.

Lyfta verður sett í 88 Húsið/Fjörheima til að auka aðgengi allra að félagsmiðstöðinni og ungmennahúsinu.

Íþrótta- og tómstundaráð er sammála um að auka þurfi fjármagn til málaflokksins til að geta staðið undir metnaðarfullu íþrótta- og tómstundastarfi í Reykjanesbæ og borið okkur saman við sambærileg sveitarfélög.

Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs fylgdi úr hlaði starfsáætlun menntasviðs fyrir árið 2023.

Íþrótta- og tómstundaráð þakkar Helga fyrir kynningu á metnaðarfullu starfi menntasviðs fyrir komandi ár. Samkvæmt hugmyndum um skipulagsbreytingar hjá Reykjanesbæ verður heiti fræðslusviðs breytt í menntasvið á nýju ári, þær breytingar hafa þó ekki enn verið samþykktar.

3. Glímudeild UMFN (2021120231)

Erindi frá Glímudeild UMFN var tekið fyrir á 165. fundi íþrótta- og tómstundaráðs Reykjanesbæjar þann 29. nóvember sl. þar sem kom fram beiðni um að breyta eigi stundatöflum í bardagahöllinni í aðstöðu Glímudeildar UMFN og Júdófélags Reykjanesbæjar. Erindinu var frestað á milli funda og óskað eftir frekari gögnum.

Íþrótta- og tómstundaráð Reykjanesbæjar leggur til m.v. fyrirliggjandi gögn að fyrirkomulag æfingatíma verði óbreytt í Bardagahöllinni að svo komnu máli, hvað sem síðar verður.

Telji Glímudeild UMFN þörf á viðbótaræfingatímum þá leggur íþrótta- og tómstundaráð til að þau fái lánaðar dýnur í eigu Reykjanesbæjar sem eru í geymslu og fái æfingaaðstöðu í íþróttasal Háaleitisskóla.

4. Ársskýrsla KFUM og KFUK 2021-2022 (2022110073)

Ársskýrsla KFUM og KFUK lögð fram.

Íþrótta- og tómstundaráð þakkar fyrir greinargóða skýrslu.

Fylgigögn:

Ársskýrsla KFUM og KFUK

5. Heimsóknir íþrótta- og tómstundaráðs í stofnanir á vegum ráðsins (2022120243)

Erindi frestað vegna ófærðar.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18.00. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 3. janúar 2022.