167. fundur

24.01.2023 16:00

167. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjanesbæjar haldinn að Tjarnargötu 12, 24. janúar 2023 kl. 16:00

Viðstaddir: Friðþjófur Helgi Karlsson formaður, Hjördís Baldursdóttir, Davíð Már Gunnarsson, Marta Sigurðardóttir og Magnús Einþór Áskelsson.

Birgir Már Bragason boðaði forföll, Davíð Már Gunnarsson sat fyrir hann.

Sindri Kristinn Ólafsson boðaði forföll, Magnús Einþór Áskelsson sat fyrir hann.

Að auki sátu fundinn Helgi Arnarson sviðsstjóri menntasviðs, Rúnar Vífill Arnarson formaður íþróttabandalags Reykjanesbæjar,  Hermann Borgar Jakobsson fulltrúi ungmennaráðs og Hafþór Barði Birgisson íþrótta- og tómstundafulltrúi sem jafnframt ritaði fundargerð.

1. Samningur við ÍRB um þátttöku í þjálfarakostnaði 2023 (2023010035)

Samningurinn lagður fram og samþykktur.

2. Samningar við knattspyrnudeildir um rekstur knattspyrnusvæða 2023 (2023010037)

Samningar við knattspyrnudeildir um rekstur knattspyrnusvæða 2023 lagðir fram og samþykktir.

Íþrótta- og tómstundaráð hefur verið upplýst um að forsvarsfólk knattspyrnudeilda leggur áherslu á að samningarnir verði hækkaðir og fylgi verðlagsþróun, ráðið bindur vonir við að samningarnir verði hækkaðir í mars eftir að störfum rekstrarnefndar er lokið.

3. Hvatagreiðslur 2023 (2023010038)

Íþrótta- og tómstundaráð minnir á hvatagreiðslur og mikilvægi þess að foreldrar nýti þær enda forvarnargildi íþrótta og tómstunda mikið. Að auki minnir ráðið á að frá 1. janúar sl. eru hvatagreiðslur í boði fyrir börn sem verða 4 og 5 ára á almanaksárinu. Myndbönd um hvernig nýta megi greiðslurnar eru hér að neðan á íslensku, ensku og pólsku.

Fylgigögn:

Með því að smella hér má skoða myndband á Youtube um hvatagreiðslur

Með því að smella hér má skoða myndband á Youtube um hvatagreiðslur með enskum texta

Með því að smella hér má skoða myndband á Youtube um hvatagreiðslur með pólskum texta

Auglýsing - hvatagreiðslur fyrir 4-18 ára

4. Uppgjör hvatagreiðslna 2022 (2021120234)

Íþrótta- og tómstundafulltrúi fór yfir nýtingu á hvatagreiðslum í Reykjanesbæ fyrir árið 2022. Alls nýttu 2016 börn sér hvatagreiðslurnar sem er 58,1% af heildarfjölda barna 6–18 ára í Reykjanesbæ. Nýtingin hefur aukist um 7,2% frá 2019. Bæjaryfirvöld ákváðu fyrir skemmstu að bæta við hvatagreiðslum fyrir 4–5 ára börn sem tók gildi 1. janúar sl.

Töluverð aukning hefur orðið á nýtingu erlendra barna á hvatagreiðslunum en 9,79% nýttu sér þær árið 2017 samanborið við 28,4% árið 2022. Við erum á réttri leið en betur má ef duga skal.

Saman skulum við hvetja alla til að stunda íþróttir og tómstundir í skipulögðu starfi og hvetja foreldra til að nýta hvatagreiðslur sveitarfélagsins. Óumdeilt er að gildi forvarna er mikið þegar litið er til þátttöku barna í kröftugu íþrótta- og tómstundastarfi í Reykjanesbæ.

Allar spurningar og aðstoð vegna hvatagreiðslna er veitt á netfanginu hvatagreidslur@reykjanesbaer.is

Fylgigögn:

Nýting á hvatagreiðslum 2022

5. Viðhaldsskýrslur knattspyrnudeilda vegna sumarsins 2022 (2022090476)

Viðhaldsskýrslur lagðar fram og samþykktar.

Íþrótta- og tómstundaráð þakkar fyrir vel unnar skýrslur og vill koma á framfæri kærum þökkum til vallarstjóra félaganna fyrir vel unnin störf.

6. Drög að markaðsstefnu Reykjanesbæjar (2021110284)

Tölvupóstur dags. 28.12.22 frá skjaladeild Reykjanesbæjar fyrir hönd menningar- og atvinnuráðs þar sem óskað er eftir umsögn um drög að markaðsstefnu Reykjanesbæjar 2023-2028.

Eftirfarandi var lagt fram: Íþrótta- og tómstundaráð fagnar framkomnum drögum að markaðsstefnu og telur hana góðan grunn til að byggja á í markaðssetningu bæjarins á hinum ýmsu sviðum í framtíðinni. Þó telur ráðið að lykilstoðir eins og íþrótta- og tómstundamál sveitarfélagsins njóti ekki nægilegrar áherslu í stefnunni.

Samþykkt samhljóða.

7. Úthlutun úr íþrótta- og afrekssjóði 2022 (2022030221)

Íþrótta- og tómstundafulltrúi kynnti fyrir ráðinu úthlutun úr afreks- og íþróttasjóði Reykjanesbæjar fyrir árið 2022. Alls voru 73 úthlutanir til einstaklinga sem stunda íþróttir í Reykjanesbæ. Flestir voru styrkirnir fyrir þau sem kepptu fyrir hönd Danskompanís.

8. Erindi frá Fimleikadeild Keflavíkur (2021100305)

Fimleikadeild Keflavíkur vill koma á framfæri að deildin nýtur ekki þjálfarastyrks fyrir stóran iðkendahóp hjá deildinni sem eru á aldrinum 2 – 6 ára. Að auki vill fimleikadeildin koma á framfæri að núverandi aðstaða er ekki nógu góð fyrir starfsemi deildarinnar og skorar á bæjaryfirvöld að bregðast við hið fyrsta.

Íþrótta- og tómstundaráð tekur undir áhyggjur deildarinnar og minnir á bókun ráðsins frá 166. fundi ráðsins en þar segir ,, Íþrótta- og tómstundaráð er sammála um að auka þurfi fjármagn til málaflokksins til að geta staðið undir metnaðarfullu íþrótta- og tómstundastarfi í Reykjanesbæ og borið okkur saman við sambærileg sveitarfélög.“

Erindinu vísað annarsvegar til mannvirkjanefndar sem og til rekstrarnefndar sem ljúka eiga störfum í mars.

9. Erindi frá Hestamannafélaginu Mána (2023010525)

Hestamannafélagið Máni óskar eftir viðræðum við Reykjanesbæ um kostnaðarþátttöku við rekstur reiðhallarinnar við Mánagrund.

Erindinu vísað til rekstrarnefndar.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18.00. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 7. febrúar 2023.